Fara í innihald

Wiener Neustadt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Wiener Neustadt
Staðsetning
Wiener Neustadt er staðsett í Austurríki
Wiener Neustadt
Grundvallarupplýsingar
Sambandsland: Neðra Austurríki
Stærð: 60,96 km²
Íbúafjöldi: 43.019 (1. jan 2015)
Þéttleiki: 706/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 265 m
Vefsíða: http://www.wiener-neustadt.at

Wiener Neustadt er borg í Austurríki í sambandslandinu Neðra Austurríki. Borgin liggur örskammt frá Vín og er með 43 þúsund íbúa (1. janúar 2015).

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Wiener Neustadt liggur nær austast í Austurríki við norðausturjaðar Alpafjalla, aðeins 15 km frá ungversku landamærunum. Hún er allra syðsti hluti stórborgarsvæðis Vínar. Næstu stærri borgir eru Eisenstadt til austurs (30 km), Sopron í Ungverjalandi til austurs (40 km), Vín til norðurs (50 km) og St. Pölten til norðvesturs (90 km).

Saga Wiener Neustadt

[breyta | breyta frumkóða]

Wiener Neustadt var sérstaklega stofnuð af Leopold V, hertoga af Babenberg. 1194 tókst honum að handsama Ríkharð ljónshjarta þegar sá síðarnefndi var á heimleið úr krossferð og krafðist hás lausnargjalds. Fyrir þetta lausnargjald stofnaði Leopold nýja borg sem hlaut nafnið Wiener Neustadt. Framkvæmdir hófust 1195, einmitt er Leopold hertogi lést. Ástæðan fyrir stofnun borgarinnar var að mynda varnarvirki gegn innrás Ungverja. Því voru allar götur hornréttar á hverjar aðra. Borgarmúrar voru strax reistir og voru fimm metra háir. Einn turn var á hverju horni og eitt borgarhlið á hverri hlið. Strax í upphafi hlaut Wiener Neustadt borgarréttindi. En á 15. öld notaði Friðrik III keisari borgina sem aukaaðsetur (ásamt Linz og Graz), sem við það upplifði mikið blómaskeið. Sonur Friðriks, Maximilian I keisari, notaði Wiener Neustadt einnig sem aðsetur og hvílir í dómkirkjunni þar. 1469 varð borgin að biskupssetri og sátu biskupar þar til 1785, en þá var biskupsstóllinn færður til St. Pölten. Ungverjar, undir forystu Mattías Corvinus, sátu um Wiener Neustadt 1485. Borgin varðist vel og féll ekki fyrr en eftir tveggja ára umsátur. Maximilian keisari tókst hins vegar að endurvinna borgina 1490. Maximilian var síðasti keisarinn sem hafði aðsetur í Wiener Neustadt. Borgin varðist vel gegn Tyrkjum 1529 og 1683 og stóðst áhlaup þeirra.

Iðnvæðing

[breyta | breyta frumkóða]
Herskólinn sem María Teresía stofnaði er enn starfræktur

María Teresía stofnaði herskóla í borginni 1751 sem hóf starfsemi ári síðar. Skólinn er enn starfræktur í dag og er því elsti herskóli heims sem enn er starfræktur. 1768 skemmdust mörg hús við jarðskjálfta. Kastalavirkið, gamla aðsetur keisaranna, skemmdist talsvert og var ekki að öllu leyti endurbyggt. Þegar biskupsstólinn var færður til St. Pölten 1785 tæmdust margar byggingar. Þær voru notaðar fyrir handiðnir en þær mynduðu grunninn fyrir iðnvæðingu borgarinnar. Í upphafi var það eingöngu vefnaður en á 19. öld bættust pappírsverksmiðja, sykurframleiðsla og keramikverksmiðja við. 1834 kviknaði í gripahúsum við suðurjaðar borgarinnar. Vindur magnaði eldinn sem breiddist hratt út. Fyrir rest brunnu 500 hús til kaldra kola. 47 manns biðu bana. Þetta voru verstu hamfarir borgarinnar fram að heimstyrjöldinni síðari. Uppbyggingin fór strax í gang aftur, enda var iðnaður orðinn mikill í borginni. Hann jókst enn 1841 þegar borgin fékk járnbrautartengingu. Strax ári síðar var járnbrautarverksmiðja stofnuð í Wiener Neustadt. Brátt varð borgin sú næststærsta í Neðra Austurríki, á eftir Vín. 1909 var flugbraut lögð við borgina. Þar framkvæmdu ýmsir frumkvöðlar í flugi tilraunir, enda var flugbrautin fyrsta opinbera flugbraut Austurríkis. Hún er enn í dag stærsta náttúrulega flugbraut Evrópu. 7. júní 1912 varð sprenging í púðurgeymslu nálægt herstöðinni. Sjö manns biðu bana og olli sprengingin skemmdum á herstöðinni, járnbrautarverksmiðjunni og nokkur flugskýli.

Heimstyrjaldir

[breyta | breyta frumkóða]
Messerschmidt-flugvél, en þær voru framleiddar í Wiener Neustadt

Í heimstyrjöldinni fyrri voru verksmiðjur í Wiener Neustadt notaðar fyrir hergagnaframleiðslu. Eftir tapið í stríðinu hrundi iðnaðurinn. Mikil kreppa og atvinnuleysi tók við í borginni. Það breyttist ekki fyrr en við innlimun Austurríkis í Þýskaland 1938. Þá fór hergagnaiðnaðurinn af stað aftur. Í borginni voru aðallega smíðaðar flugvélar. Til dæmis var fjórðungur allra Messerschmitt flugvéla smíðaður þar en einnig A4-flugskeyti. Þar af leiðandi varð Wiener Neustadt fyrir gífurlegum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. 50 þús sprengjur eyðilögðu alla borgina. Af þrjú þúsund byggingum stóðu aðeins átján eftir þegar stríðinu lauk. Wiener Neustadt var því sú austurríska borg sem eyðilagðist hvað mest í stríðinu.

1945 hertóku Sovétmenn borgina, sem var á sovéska hernámssvæðinu. Strax var hafist handa við enduruppbyggingu borgarinnar, sem nánast var lokið 1955 þegar Austurríki hlaut sjálfstæði á ný. Síðan þá er borgin mikil iðnaðarborg. Framhaldsskólar voru stofnaðir þar og er Wiener Neustadt mesta skólaborg í Neðra Austurríki.

Wiener Neustadt viðheldur vinabæjartengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]
  • (1459) Maximilian I keisari þýska ríkisins

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Dómkirkjan
  • Dómkirkjan í Wiener Neustadt er aðalkirkja kaþólsku kirkjunnar í borginni. Hún var reist á 13. öld og vígð 1279. Verndardýrlingur hennar er María mey og kirkjan því oft kölluð Maríukirkja (Liebfrauendom). Kirkjan var dómkirkja 1468 til 1785, en þá flutti biskupssetrið til St. Pölten. Í lok 15. aldar voru styttur af postulunum tólf í réttri stærð settar upp í kirkjunni. Eftir nokkra jarðskjálfta var turninn, sem er 64 metra hár, ótryggur. Hann var því rifinn 1886 og nýr reistur í staðinn. Verkinu lauk 1899.
  • Spinnerin am Kreuz (Vefkonan á krossinum) er gotnesk steinsúla í borginni. Hún var reist af Wolfhart von Schwarzensee, borgarstjóra Wiener Neustadt, á árunum 1382-84. Tilgangurinn var að merkja leiðina til borgarinnar með áhrifamiklum hætti, enda er súlan 21 metra há. Heitið er tilkomið úr krossferðum en Spinnerin vísar líklega til þyrnikórónunnar sem Jesús bar á höfðinu í krossfestingunni. Á súlunni eru myndastyttur á þremur hæðum. Neðst eru fígúrur úr passíusögu Jesú. Fyrir miðju eru gamlir spámenn Biblíunnar. Efst eru styttur af byggingameistaranum, borgarstjóranum og eiginkonum þeirra. Þar eru auk þess nokkrir postular og efst er María mey. Súlan var síðast lagfærð 1994 og er í dag eitt einkennistákna borgarinnar.
  • Gamli vatnsturninn var reistur 1902-1903 og er einkennisbygging borgarinnar. Turninn var tekinn í notkun 1910 þegar vatnsveitan hóf starfsemi sína. Hann skemmdist talsvert í loftárásum seinna stríðs, en var lagfærður 1950-51. Hann er enn notaður sem vatnsturn í dag.
  • Péturskirkjan (St. Peter an der Sperr) var reist á 13. öld í tengslum við klaustur, en umbreitt á 15. öld. Á 18. öld var klaustrið lokað og var kirkjan þá afhelguð. Hún brann í loftárásum seinna stríðs og hefur verið rústir síðan. En 1966 var smíðað þak á kirkjuna og gluggar settir í. Síðan þá hefur hún verið notuð fyrir sýningar og menningarviðburði.