Tirol

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Skjaldarmerki
Fáni
Fáni
Skjaldarmerki
Upplýsingar
Höfuðborg: Innsbruck
Flatarmál: 12.640 km²
Mannfjöldi: 736.153 (1. jan 2017)
Þéttleiki byggðar: 59/km²
Vefsíða: www.tirol.gv.at
Lega

Tirol er sambandsland í Austurríki. Upphaflega var Tirol mun stærra en það er í dag, en við tap Austurríkis í heimstyrjöldinni fyrri fengu Ítalir suðurhelming héraðsins. Hið austurríska Tirol er því eingöngu norðurhluti hins gamla héraðs. Íbúar þar eru 736 þúsund og er höfuðborgin Innsbruck. Tirol er ákaflega fjalllent og fagurt hérað. Heiti héraðisins Tírol er dregið af bænum Tírol sem er að finna í ítalska-Tírol eða suður-Tírol, en ekkert er vitað með vissu um uppruna þess bæjarheitis.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Með 12.640 km2 er Tirol þriðja stærsta sambandsland Austurríkis. Það skiptist í tvennt. Norðurtirol er stærri og nær frá Vorarlberg í vestri til Salzburg í austri. Fyrir norðan er Þýskaland en fyrir sunnan er Ítalía. Austurtirol er minni og er svæðið lokað af af Salzburg í norðri, Kärnten í austri og Ítalíu í suðri. Af öllum sambandslöndum Austurríkis er Tirol með lengstu landamærin að öðrum ríkjum. Tirol er ákaflega fjalllent, enda teygja Alpafjöllin sig eftir endilöngu sambandslandinu. Þeim er reyndar skipt upp í minni fjallgarða, svo sem Karwendelfjöll, Wettersteingebirge, Lechtaler Alpen, Dólómítana, Ötztaler Alpen og fleiri.

Skjaldarmerki og fáni[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Tirol er rauður örn á hvítum grunni. Örninn er með gular klær og vængrendur. Fyrir ofan er lárviðarkrans. Örninn hefur verið merki Tirol síðan á 13. öld og kom fyrst fram 1205. Lárberjakransinn minnir á frelsisstríð Tirol á tímum Napoleons. Rauður og hvítur eru litir Habsborgarættarinnar, sem og Austurríkis. Síðustu breytingar voru gerðar 1918 en þá klofnaði Tirol í tvö héruð. Fáninn er líkur Austurríska fánanum, hvít rönd að ofan og rauð að neðan. Þetta eru litir Habsborgarættarinnar, sem og Austurríkis.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Tirol í heild sinni. Dökki liturinn tilheyrir Ítalíu. Ljósi liturinn tilheyrir Austurríki. Norðurtirol er í kringum Innsbruck. Austurtirol er í kringum Lienz.

Snemma á miðöldum tilheyrði Tirol Bæjaralandi, en þá var Tirol enn sameinað og náði niður á Pósléttuna á Ítalíu. Habsborgarar eignuðust landið á 14. öld. Sumir keisarar og konungar þýska ríkisins höfðu aðsetur í Innsbruck, sem alla tíð hefur verið helsta borgin í Tirol. Þegar Napoleon hertók svæðið, gaf hann konungsríkinu Bæjaralandi svæðið árið 1805. Íbúar Tirol voru mjög ósáttir og 1809 gerðu þeir uppreisn undir stjórn Andreas Hofer. Keisarinn í Vín studdi uppreisnina til að byrja með. Uppreisnin mistókst og voru leiðtogar hennar teknir af lífi. Eftir fall Napoleons var Tirol í heild sinni eign Austurríkis. 1861 splittaði Vorarlberg sig úr Tirol og myndaði eigið hérað. Eftir tap Þýskalands og Austurríkis í heimstyrjöldinni fyrri 1918 sóttu Ítalir fast eftir því að eignast Tirol. Á friðarráðstefnunni í St. Germain 1919 var ákveðið að skipta Tirol í tvennt. Norðurtirol og Austurtirol voru áfram í Austurríki og urðu að eigið sambandslandi. Suðurtirol varð ítalskt. Þegar Hitler og Mussolini gerðu með sér friðarsamninga var ákveðið að leyfa 70 þúsund íbúum Suðurtirols að flytja til Norðurtirols árið 1940. Sumir sneri til baka eftir tapið í heimstyrjöldinni síðari. Þann 3. maí 1945 hertóku bandamenn héraðið. Norðurtirol var á franska hernámssvæðinu en Austurtirol var á breska hernámssvæðinu. Stjórnmálalega séð voru héruðin sameinuð á ný 1947. Þegar Austurríki hlaut sjálfstæði á ný 1955 varð Tirol að sambandslandi. Árin á eftir voru einkennandi fyrir mikinn efnahagsvöxt, enda var Tirol ákaflega vinsælt meðal ferðamanna. Ferðamennska er enn í dag einn mikilvægasti atvinnuvegur sambandslandsins.

Borgir[breyta | breyta frumkóða]

Í Tirol er aðeins ein teljandi borg. Stærstu bæir Tirol:

Röð Borg Íbúar (2017) Ath.
1 Innsbruck 132.236 Höfuðborg Tirol
2 Kufstein 18.973
3 Telfs 15.582
4 Hall in Tirol 13.801
5 Schwaz 13.606

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]