Járngrýti
Járngrýti er berg sem er svo járnauðugt að það borgar sig að vinna úr því frumefnið járn. Þær járnsteindir sem helst mynda járngrýti eru magnetít (Fe3O4), hematít (Fe2O3), límonít (HFeO2) og síderít (FeCO3). Járn var til forna unnið úr mýrarrauða sem er einkum límónít. Járn er frumefni sem getur komið fyrir á þremur oxunarstigum, sem málmur (Fe0), tvígilt járn (Fe2+) og þrígilt (Fe3+). Tvígilt járn er leysist vel upp í vatni en þrígilt ekki.
Járngrýti getur myndast við kristöllun úr bergkviku, við myndbreytingu kringum kólnandi berghleif, við veðrun bergs, og sem efnaset. Járnnáman í Kiruna í Norður-Svíþjóð er dæmi um kristöllun úr bergkviku en járngrýti þar inniheldur um um 60% Fe. Við efnaveðrun bergs leysast ýmis efni upp og berast burtu úr berginu og eftir verða t.d. bergtegundir eins og báxít (Al(OH)3) sem ál er unnið úr en úr báxíti hafa öll efni veðrast burt nema þau sem eru sérstaklega torleyst eins og þrígilt járn (hematít, límonít) og títan. Þegar járnríkt berg veðrast oxast tvígilt járn í þrígilt sem svo situr eftir þó að önnur efni bergsins skolist burt. Bergið verður þannig járnauðugra en þannig járnmyndanir eru ekki nægilega járnauðugar til að borgi sig að vinna úr þeim járn.
Mikilvægustu járnmyndanir eru svokallað lagskipt járngrýti en það er efnaset sem myndaðist við aðstæður sem ríktu á jörðinni fyrir 3,2 til 1,7 milljörðum ára. Í því efnaseti skiptast á þunn lög af járnoxíðum (hematít, magnetít) á við kísilrík setlög. Talið er að þessi lög hafi myndast með árstíðabundinni sveiflu þar sem járnið oxaðist úr bergi og barst til hafs, sennilega af völdum ljóstillífandi blágrænna þörunga sem framleiddu meira súrefni á sumrin.