Fara í innihald

Guglielmo Marconi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Marconi

Guglielmo Marconi (25. apríl 187420. júlí 1937) var ítalskur eðlisfræðingur sem fann upp og fékk einkaleyfi á kerfi til þráðlausra skeytasendinga, en á slíku kerfi byggja meðal annars útvarp, sjónvarp, farsímakerfi, fjarstýringar og fleira.

Hann var annað barn Giuseppe Marconi, landeiganda í Bologna og konu hans Annie Jameson, sem var barnabarn John Jameson, stofnanda viskýframleiðandans Jameson & Sons. Hann hóf rannsóknir á rafmagni og útvarpsbylgjum hjá Augusto Righi við Bolognaháskóla sem hafði meðal annars gert rannsóknir út frá kenningum Heinrich Hertz. Marconi hóf að gera tilraunir með kerfi til að senda þráðlaus símskeyti líkt og margir aðrir voru að reyna (t.d. Ørsted, Faraday, Hertz, Tesla, Edison og Popov). Ekki er hægt að halda því fram að Marconi hafi fundið upp notkun útvarpsbylgja til merkjasendinga, en hann á heiðurinn af því að hafa hannað fyrsta nothæfa útvarpskerfið sem náði einverri útbreiðslu.

2. júní 1896 lagði hann fram umsókn um einkaleyfi á kerfi til þráðlausra skeytasendinga í London. Ári síðar stofnaði hann Wireless Telegraph Trading Signal Company sem síðar var nefnt Marconi Wireless Telegraph Company). Á þessum árum hélt hann margar sýningar á kerfinu í Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem hann lýsti meðal annars Ameríkubikarnum beint frá New York-borg árið 1899. 12. desember 1901 tókst félaginu að senda fyrsta skeytið yfir Atlantshafið en það var ekki staðfest fyrr en með sendingu 17. desember 1902.

Fyrsti viðskiptavinur Marconis var breska flotamálaráðuneytið sem tók kerfið í notkun sem öryggiskerfi fyrir skip á sjó. Kerfið byggði alla tíð á rafneistasendingum sem eingöngu var hægt að nota fyrir sendingar með merkjakerfi eins og Morse, en 1906 tókst Reginald Fessenden að senda hljóðbylgju þráðlaust.

Síðar voru mörg af einkaleyfum Marconis véfengd og flest þeirra felld úr gildi fyrir bandarískum dómstólum en Bandaríkjaher stóð þá meðal annars í málaferlum vegna brots gegn þessum einkaleyfum.

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.