Fara í innihald

Jean Monnet

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jean Monnet
Jean Monnet árið 1952 í London.
Forseti aðalráðs Kola- og stálbandalags Evrópu
Í embætti
10. ágúst 1952 – 3. júní 1955
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurRené Mayer
Persónulegar upplýsingar
Fæddur9. nóvember 1888
Cognac, Charente, Frakklandi
Látinn16. mars 1979 (90 ára) Houjarray, Bazoches-sur-Guyonne, Frakklandi
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
MakiSilvia de Bondini (g. 1934)
TrúarbrögðKaþólskur

Jean Omer Marie Gabriel Monnet (9. nóvember 1888 – 16. mars 1979) var franskur embættismaður, hagfræðingur og stjórnmálamaður sem talaði fyrir frjálsri verslun og alþjóðasamvinnu. Hann er gjarnan kallaður einn af „feðrum Evrópu“[1] vegna hlutverks síns í stofnun Evrópusambandsins. Ásamt Helmut Kohl og Jacques Delors er Monnet eini maðurinn sem hefur verið sæmdur heiðursnafnbótinni Heiðursborgari Evrópu.[2]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Jean Monnet var sonur fransks vínframleiðanda í bænum Cognac. Hann hætti í skóla þegar hann var sextán ára og byrjaði starf hjá fyrirtæki föður síns.[3][4] Hann var ungur að árum sendur sem sölufulltrúi fyrirtækisins til Englands, Bandaríkjanna og Kanada og lærði þar ensku reiprennandi.[3]

Monnet hóf stjórnmálaferil sinn á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Hann talaði fyrir náinni efnahagslegri samvinnu milli Frakka og Breta til að vinna stríðið og var sendur til London til að skipuleggja samvinnu bandamannaríkjanna í kaupum og dreifingu á kornvörum.

Eftir stríðið var Monnet einn af helstu stuðningsmönnum Þjóðabandalagsins og var varaframkvæmdastjóri þess frá 1919 til 1923. Sem slíkur skipulagði hann fjármálaráðstefnu bandalagsins í Brussel í september árið 1920. Monnet hætti störfum hjá Þjóðabandalaginu árið 1923 til þess að taka að sér stjórn fjölskyldufyrirtækisins, sem stóð mjög höllum fæti eftir styrjöldina. Monnet auðgaðist á því að selja Bandaríkjamönnum koníak á bannárunum og stofnaði sinn eigin banka, Bancamerica, í Chicago árið 1929.

Monnet var áhrifamaður í stjórnsýslu Frakklands, og síðar allra bandamannanna í seinni heimsstyrjöldinni. Hann var formaður ráðs sem annaðist efnahagssamvinnu Frakka og Breta og fór meðal annars fyrir stórfelldum kaupum á bandarískum flugvélum og öðrum vélum. Undir stjórn Monnets varð efnahagssamvinna þjóðanna tveggja mun víðtækari en hún hafði verið í fyrra stríðinu. Árið 1940 stakk Monnet, með stuðningi Winstons Churchill, upp á því að Frakkland og Bretland yrðu sameinuð í eitt fransk-breskt ríki.[3][5] Eftir að Þjóðverjar hertóku Frakkland vann Monnet í Bandaríkjunum í breska birgðaráðinu og samdi framleiðsluáætlun á skriðdrekum og skipum fyrir Breta.[3]

Eftir stríðið tók Monnet þátt í skipulagningu franskrar nýsköpunaráætlunar í samvinnu við Marshalláætlunina. Þrátt fyrir að ná fram miklum framförum í landsframleiðslu Frakklands sá Monnet fram á að Evrópumenn gætu ekki haldið í við Bandaríkjamenn og Rússa nema ef þeir sameinuðu framleiðslu sína. Jafnframt taldi hann að stríð milli Frakklands og Þýskalands yrði óhugsandi ef kola- og stálvinnsla þeirra yrði sett undir eina stjórn. Monnet varð því, ásamt vini sínum, Robert Schuman, einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Kola- og stálbandalags Evrópu, og varð fyrsti forseti aðalráðs bandalagsins eftir stofnun þess.

Monnet sagði af sér sem forseti aðalráðsins árið 1955 til þess að taka við formennsku „baráttunefndar fyrir einingu Evrópu“.[5] Monnet tók síðar þátt í stofnun evrópska efnahagsbandalagsins (með Rómarsáttmálanum 1957) og evrópska innri markaðarins (1968) sem lögðu grunn að Evrópusambandinu.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Jean Monnet – faðir Evrópu“. Tíminn. 12. janúar 1979. bls. 2.
  2. „Kohl heiðraður á leiðtoga­fundi ESB“. Mbl.is. 12. desember 1998. Sótt 20. janúar 2018.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 „Fremsti maður Evrópu“. Tíminn. 10. júlí 1953. bls. 5; 7.
  4. „Samvinnufélag friðarins“. Morgunblaðið. 15. ágúst 1952. bls. 7.
  5. 5,0 5,1 „Jean Monnet“. Lesbók Morgunblaðsins. 22. júlí 1962. bls. 2.