Jean Monnet

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jean Monnet
Jean Monnet.jpg
Jean Monnet árið 1952 í London.
Forseti aðalráðs Kola- og stálbandalags Evrópu
Í embætti
10. ágúst 1952 – 3. júní 1955
Persónulegar upplýsingar
Fæddur9. nóvember 1888
Cognac, Charente, Frakklandi
Látinn16. mars 1979 (90 ára) Houjarray, Bazoches-sur-Guyonne, Frakklandi
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
MakiSilvia de Bondini (g. 1934)
TrúarbrögðKaþólskur

Jean Omer Marie Gabriel Monnet (9. nóvember 1888 – 16. mars 1979) var franskur embættismaður, hagfræðingur og stjórnmálamaður sem talaði fyrir frjálsri verslun og alþjóðasamvinnu. Hann er gjarnan kallaður einn af „feðrum Evrópu“[1] vegna hlutverks síns í stofnun Evrópusambandsins. Ásamt Helmut Kohl og Jacques Delors er Monnet eini maðurinn sem hefur verið sæmdur Heiðursborgari Evrópu.[2]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Jean Monnet var sonur fransks vínframleiðanda í bænum Cognac. Hann hætti í skóla þegar hann var sextán ára og byrjaði starf hjá fyrirtæki föður síns.[3][4] Hann var ungur að árum sendur sem sölufulltrúi fyrirtækisins til Englands, Bandaríkjanna og Kanada og lærði þar ensku reiprennandi.[3]

Monnet hóf stjórnmálaferil sinn á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Hann talaði fyrir náinni efnahagslegri samvinnu milli Frakka og Breta til að vinna stríðið og var sendur til London til að skipuleggja samvinnu bandamannaríkjanna í kaupum og dreifingu á kornvörum.

Eftir stríðið var Monnet einn af helstu stuðningsmönnum Þjóðabandalagsins og var varaframkvæmdastjóri þess frá 1919 til 1923. Sem slíkur skipulagði hann fjármálaráðstefnu bandalagsins í Brussel í september árið 1920. Monnet hætti störfum hjá Þjóðabandalaginu árið 1923 til þess að taka að sér stjórn fjölskyldufyrirtækisins, sem stóð mjög höllum fæti eftir styrjöldina. Monnet auðgaðist á því að selja Bandaríkjamönnum koníak á bannárunum og stofnaði sinn eigin banka, Bancamerica, í Chicago árið 1929.

Monnet var áhrifamaður í stjórnsýslu Frakklands, og síðar allra bandamannanna í seinni heimsstyrjöldinni. Hann var formaður ráðs sem annaðist efnahagssamvinnu Frakka og Breta og fór meðal annars fyrir stórfelldum kaupum á bandarískum flugvélum og öðrum vélum. Undir stjórn Monnets varð efnahagssamvinna þjóðanna tveggja mun víðtækari en hún hafði verið í fyrra stríðinu. Árið 1940 stakk Monnet, með stuðningi Winstons Churchill, upp á því að Frakkland og Bretland yrðu sameinuð í eitt fransk-breskt ríki.[3][5] Eftir að Þjóðverjar hertóku Frakkland vann Monnet í Bandaríkjunum í breska birgðaráðinu og samdi framleiðsluáætlun á skriðdrekum og skipum fyrir Breta.[3]

Eftir stríðið tók Monnet þátt í skipulagningu franskrar nýsköpunaráætlunar í samvinnu við Marshalláætlunina. Þrátt fyrir að ná fram miklum framförum í landsframleiðslu Frakklands sá Monnet fram á að Evrópumenn gætu ekki haldið í við Bandaríkjamenn og Rússa nema ef þeir sameinuðu framleiðslu sína. Jafnframt taldi hann að stríð milli Frakklands og Þýskalands yrði óhugsandi ef kola- og stálvinnsla þeirra yrði sett undir eina stjórn. Monnet varð því, ásamt vini sínum, Robert Schuman, einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Kola- og stálbandalags Evrópu, og varð fyrsti forseti aðalráðs bandalagsins eftir stofnun þess.

Monnet sagði af sér sem forseti aðalráðsins árið 1955 til þess að taka við formennsku „baráttunefndar fyrir einingu Evrópu“.[5] Monnet tók síðar þátt í stofnun evrópska efnahagsbandalagsins (með Rómarsáttmálanum 1957) og evrópska innri markaðarins (1968) sem lögðu grunn að Evrópusambandinu.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Jean Monnet – faðir Evrópu“. Tíminn. 12. janúar 1979. Sótt 16. október 2018.
  2. „Kohl heiðraður á leiðtoga­fundi ESB“. Mbl.is. 12. desember 1998. Sótt 20. janúar 2018.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 „Fremsti maður Evrópu“. Tíminn. 10. júlí 1953. Sótt 16. október 2018.
  4. „Samvinnufélag friðarins“. Morgunblaðið. 15. ágúst 1952. Sótt 16. október 2018.
  5. 5,0 5,1 „Jean Monnet“. Morgunblaðið. 22. júlí 1962. Sótt 16. október 2018.