Jacques Delors
Jacques Delors | |
---|---|
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins | |
Í embætti 6. janúar 1985 – 22. janúar 1995 | |
Varaforseti | Frans Andriessen |
Forveri | Gaston Thorn |
Eftirmaður | Jacques Santer |
Fjármálaráðherra Frakklands | |
Í embætti 22. maí 1981 – 19. júlí 1984 | |
Forseti | François Mitterrand |
Forsætisráðherra | Pierre Mauroy |
Forveri | René Monory |
Eftirmaður | Pierre Bérégovoy |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 20. júlí 1925 París, Frakklandi |
Látinn | 27. desember 2023 (98 ára) París, Frakklandi |
Þjóðerni | Franskur |
Stjórnmálaflokkur | Sósíalistaflokkurinn |
Maki | Marie Lephaille (g. 1941) |
Börn | Martine Aubry Jean-Paul Delors |
Háskóli | Parísarháskóli |
Starf | Stjórnmálamaður |
Jacques Delors (20. júlí 1925 – 27. desember 2023[1]) var franskur hagfræðingur og stjórnmálamaður úr Sósíalistaflokknum. Hann var fjármálaráðherra Frakklands frá 1981 til 1984 og borgarstjóri Clichy-la-Garenne frá 1983 til 1984. Hann er þó þekktari fyrir störf sín hjá Evrópusambandinu: Hann var forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 1985 til 1995 og stofnaði hugveitu undir nafninu „Okkar Evrópa – Jacques Delors-stofnunin“ (franska: Notre Europe - Institut Jacques Delors) til þess að huga að sameinaðri Evrópu árið 1996. Delors þótti vænlegur til sigurs í frönsku forsetakosningunum árið 1995 en öllum að óvörum neitaði hann að bjóða sig fram.[2]
Framkvæmdastjórn Delors er gjarnan talin sú farsælasta og afkastamesta í sögu Evrópusambandsins.[3] Á forsetatíð Delors voru Einingarlögin og Maastrichtsáttmálinn undirrituð og Evrópusambandið ásamt sameiginlegum markaði í núverandi mynd varð til. Einnig var Schengen-samstarfið stofnað, Spánn og Portúgal fengu aðild að sambandinu og sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins var umbreytt með stofnun evrópskra matarbanka.
Delors var einn helsti hvatamaðurinn að upptöku sameiginlegs gjaldmiðils fyrir Evrópusambandið, sem var gert með upptöku evrunnar árið 2004. Í seinni tíð hefur hann þó lýst yfir efasemdum um upptöku evrunnar og í evrópsku skuldakreppunni gagnrýndi hann stjórnendur Seðlabanka Evrópu fyrir að vilja ekki aðstoða verst settu ríkin af ótta við verðbólgu.[4]
Árið 2015 var Delors sæmdur heiðursborgari Evrópu. Hann er þriðji maðurinn sem hefur verið sæmdur þeim titli, á eftir Jean Monnet og Helmut Kohl.[5]
Delors lést þann 27. desember árið 2023. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, lýsti honum við það tilefni sem „óþrjótandi byggingarmanni okkar Evrópu“ og „baráttumanni fyrir mannlegu réttlæti“.[6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Portugal, Rádio e Televisão de (27. desember 2023). „Morreu Jacques Delors, ex-presidente da Comissão Europeia“. Morreu Jacques Delors, ex-presidente da Comissão Europeia (portúgalska). Sótt 27. desember 2023.
- ↑ „Vonir vinstrimanna orðnar að engu“. Morgunblaðið. 13. desember 1994. Sótt 30. október 2018.
- ↑ „Delors, Jacques“. Evrópuvefurinn. 23. júní 2011. Sótt 30. október 2018.
- ↑ „Evran var stórgölluð frá upphafi“. Viðskiptablaðið. 3. desember 2011. Sótt 30. október 2018.
- ↑ „Jacques Delors nommé "Citoyen d'honneur de l'Europe"“ (franska). Institut Delors. 26. júní 2015. Sótt 30. október 2018.
- ↑ Sólrún Dögg Jósefsdóttir (27. desember 2023). „Jacques Delors er látinn“. Vísir. Sótt 28. desember 2023.
Fyrirrennari: Gaston Thorn |
|
Eftirmaður: Jacques Santer |