Fara í innihald

Herdís Þorvaldsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Herdís Þorvaldsdóttir (15. október 1923 - 1. apríl 2013) var íslensk leikkona. Hún lék fjölda hlutverka bæði á leiksviði og í kvikmyndum.

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Herdís fæddist í Hafnarfirði en foreldrar hennar voru hjónin Þorvaldur Tómas Bjarnason (1895-1932) bóksali í Hafnarfirði og María Víðis Jónsdóttir (1895-1982). Faðir Herdísar lést þegar hún var 9 ára gömul og stóð móðir hennar þá ein eftir með 5 börn.

Eiginmaður Herdísar var Gunnlaugur Þórðarson (1919-1998) hæstaréttarlögmaður og eignuðust þau fjögur börn, Hrafn kvikmyndaleikstjóra, Þorvald stærðfræðing, Snædísi lögfræðing og Tinnu leikkonu og fyrrum leikhússtjóra.

Leikferill[breyta | breyta frumkóða]

Herdís lærði fyrst leiklist hjá Lárusi Pálssyni og Haraldi Björnssyni en árið 1945 hélt hún til London og nam við The Royal Aca­demy of Dramatic Art (RADA).

Leikferill Herdísar hófst er hún var níu ára gömul í Gúttó í Hafnarfirði og 17 ára gömul lék hún í fyrsta sinn hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Þegar Þjóðleikhúsið tók til starfa árið 1950 lék Herdís Snæfríði Íslandssól í Íslandsklukkunni, sem var ein af opnunarsýningum leikhússins. Upp frá því starfaði Herdís við Þjóðleikhúsið til dauðadags en hún stóð á sviði þess í síðasta sinn aðeins viku fyrir andlát sitt, þá 89 ára gömul, er hún fór með hlutverk í verkinu Karma fyrir fugla.

Herdís fór með fjöl­mörg aðal­hlut­verk í Þjóðleikhúsinu til dæmis titil­hlut­verkið í Önnu Christie, Lóu í Silf­ur­tungl­inu, Geirþrúði drottn­ingu í Hamlet, frú Smith í Sköll­óttu söng­kon­unni, Maggí í Eft­ir synda­fallið, titil­hlut­verkið í Candidu og frök­en Mar­gréti í sam­nefnd­um ein­leik. Herdís lék einnig í fjölda útvarps- og sjónvarpsleikrita og einnig í fjölmörgum kvikmyndum og meðal annars fékk hún Edduverðlaunin 2002 fyrir leik sinn í kvikmyndinni Hafið. Hún hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1969, heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands Grímuna árið 2007 og heiðursverðlaun Menningarverðlauna DV árið 2010.

Náttúruvernd[breyta | breyta frumkóða]

Her­dís var mik­ill nátt­úru­unn­andi og baráttumanneskja fyr­ir gróður­vernd á Íslandi. Hún stofnaði og var formaður nátt­úru­vernd­ar­sam­tak­anna Lífs og lands og ritaði á þriðja hundruð blaðagreina um umhverfismál og fjármagnaði úr eigin vasa og framleiddi heimildamynd um lausagöngu búfjár á Íslandi, Fjallkonan hrópar á vægð en myndin var sýnd í Ríkissjónvarpinu árið 2012.[1] Þremur árum eftir lát Herdísar var afhjúpaður minnisvarði til minningar um framlag hennar til náttúruverndar. Minnisvarðinn er í reit Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk. [2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Mbl.is, „Herdís Þorvaldsdóttir er látin“ (skoðað 3. ágúst 2019)
  2. Skogarbondi.is, „Minnisvarði um Herdísi Þorvaldsdóttur“ (skoðað 3. ágúst 2019)

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Umfjöllun um Herdísi Þorvaldsdóttur á Glatkistunni