Helga Kress

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Helga Kress (f. 21. september 1939) er íslenskur bókmenntafræðingur og fyrrverandi prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Helga var fyrsta konan til að gegna stöðu deildarforseta við Háskóla Íslands en hún var kjörin forseti heimspekideildar árið 1997[1] og er brautryðjandi í femíniskum bókmenntarannsóknum hér á landi.

Helga er fædd í Reykjavík og foreldrar hennar voru dr. Bruno Kress (1907-1997) menntaskólakennari í Reykjavík og síðar prófessor í norrænum fræðum við Háskólann í Greifswald og Kristín Anna Thoroddsen (1904-1988) matreiðslukennari í Reykjavík. Kristín Anna var systir Gunnars Thoroddsen forsætisráðherra.

Börn Helgu eru Már Jónsson (f. 1959) prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og Kristín Anna Jónsdóttir (f. 1969) þroskaþjálfi.[2]

Nám og störf[breyta | breyta frumkóða]

Helga lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1959, nam þýsku við háskólana í Köln og Freiburg í Þýskalandi árið 1963, lauk kandídatsprófi í íslensku með þýsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 1969 og prófi í almennri bókmenntafræði frá Universitetet í Bergen í Noregi árið 1980. Hún vann skrifstofustörf á Lögfræðiskrifstofu Ragnars Ólafssonar 1960-1961, var flugfreyja hjá Loftleiðum sumarið 1962, vann hjá Orðabók Háskóla Íslands sumrin 1964-1967 og var stundakennari við Kvennaskólann í Reykjavík og Menntaskólann í Reykjavík 1964-1971.[2]

Helga var lektor í íslensku fyrir erlenda stúdenta við heimspekideild Háskóla Íslands 1970-1973 og sendikennari í íslensku máli og bókmenntum við Universitetet í Bergen 1973-1979. Árið 1980 varð hún lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, var dósent í sömu grein ári síðar og var skipuð prófessor í almennri bókmenntafræði við heimspekideild Háskóla Ísland árið 1991 og gegndi embættinu til ársins 2009.

Rannsóknir Helgu snúa að íslenskri bókmenntasögu og íslenskri bókmenntahefð frá kvenna- og kynjafræðilegu sjónarhorni. Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að Helga hefur rannsakað „sögu íslenskra kvennabókmennta frá upphafi, með áherslu á fyrstu íslensku kvenrithöfundana, ósýnileika þeirra og viðtökur í karllægri bókmenntahefð, sjálfsævisöguleg skrif kvenna og sendibréf, kvenröddina og afbyggingu karlmennskunnar í verkum Jónasar Hallgrímssonar og Halldórs Laxness, og samband karnivals, kvenleika og karlmennsku í íslenskum miðaldabókmenntum, einkum Íslendingasögum og Eddukvæðum, þar sem hún meðal annars sýnir fram á paródísk einkenni þeirra og afbyggingu hefðbundinnar hetjuhugsjónar, með uppreisnargjörnum konum sem drifkraft frásagnar. Þá hefur hún fengist við ritstjórn og þýðingar sem og greiningu á rannsókna- og ritstuldi.“[3]

Helga var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1998 fyrir fræðastörf á sviði íslenskra bókmennta.[4]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Morgunblaðið, „Í fyrsta sinn í sögu HÍ“, 22. apríl 1997 (skoðað 17. júní 2019)
  2. 2,0 2,1 Háskóli Íslands, „Helga Kress - Curriculum vitae“ (skoðað 17. júní 2019)
  3. „Hvaða rannsóknir hefur Helga Kress stundað?“ Vísindavefurinn, 3. júní 2018, (skoðað 17. júní 2019)
  4. Forseti.is „Orðuhafaskrá“ (skoðað 17. júní 2019)