Brynhildur Guðjónsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Brynhildur Guðjónsdóttir (f. 26. september 1972)[1] er íslensk leikkona, leikstjóri og leikskáld. Brynhildur er fastráðin við Borgarleikhúsið en hefur einnig starfað í Þjóðleikhúsinu, Íslensku óperunni og hefur leikið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.

Árið 1998 lauk Brynhildur leiklistarnámi frá Guildhall School of Music and Drama árið 1998 og lék í kjölfarið á sviði Royal National Theatre í London. Frá 1999-2011 var hún fastráðin við Þjóðleikhúsið en hefur síðan starfað í Borgarleikhúsinu.

Brynhildur hefur leikið fjölda hlutverka á leiksviði. Í Þjóðleikhúsinu lék hún m.a. Karítas í samnefndu verki Kristínar Marju Baldursdóttur[2] og söngkonuna Edith Piaf í verki sem fjallaði um ævi söngkonunnar. Í Borgarleikhúsinu hefur hún m.a. leikið Davíð Oddsson í verkinu Guð blessi Ísland, Njál á Bergþórshvoli í verkinu Njálu og hina pólsku Danielu í verkinu Gullregn eftir Ragnar Bragason.[3]

Brynhildur hefur einnig fengist við skriftir og er höfundur einleiksins BRÁK sem settur var á svið í Landnámssetri Íslands í Borgarnesi árið 2008. Árið 2015 seldi Brynhildur verkið til Svíþjóðar.[4]

Árið 2018 var Brynhildur sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2018 fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar. Hún hefur átta sinnum hlotið Íslensku leiklistaverðlaunin Grímuna fyrir leik, leikstjórn og sem höfundur verks. Árið 2008 hlaut hún Íslensku bjartsýnisverðlaunin og sama ár hlaut hún styrk úr Minningarsjóði Stefaníu Guðmundsdóttur leikkonu.[3]

Brynhildur var ein af sjö umsækjendum um embætti Þjóðleikhússtjóra árið 2019.[5] Í febrúar árið 2020 var Brynhildur ráðin leikhússtjóri Borgarleikhússins.[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. imdb.com, „Brynhildur Guðjónsdóttir“ (skoðað 18. ágúst 2019)
  2. Kvennabladid.is, „Brynhildur er Karítas“ Geymt 18 ágúst 2019 í Wayback Machine (skoðað 18. ágúst 2019)
  3. 3,0 3,1 Borgarleikhus.is, „Brynhildur sæmd riddarakrossi“ (skoðað 18. ágúst 2019)
  4. Mbl.is, „Brynhildur selur Brák til Svíþjóðar“ (skoðað 18. ágúst 2019)
  5. Mbl.is, „Brynhildur meðal umsækjenda“ (skoðað 18. ágúst 2019)
  6. Ruv.is, „Brynhildur Guðjóns ráðin borgarleikhússtjóri“ (skoðað 17. febrúar 2020)