Fara í innihald

Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Benedikt Gröndal, yngri. Olíumálverk eftir Ólaf Th Ólafsson

Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal (6. október 1826 á Bessastöðum á Álftanesi2. ágúst 1907) var íslenskur náttúrufræðingur, skáld og rithöfundur.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Benedikt var eitt af tíu börnum Sveinbjarnar Egilssonar og konu hans, Helgu Gröndal, sem var dóttir Benedikts Gröndals landsyfirréttardómara og skálds. Fjölskyldan fluttist að Eyvindarstöðum á Álftanesi 1835. Benedikt útskrifaðist frá Bessastaðaskóla 1846. Síðan nam hann náttúrufræði og bókmenntir við Hafnarháskóla. Hann snéri til Íslands próflaus 1850. Næstu sjö árin dvaldi hann í Reykjavík og fékkst við ýmis störf, var ritari landfógeta, þingskrifari og stundakennari við Lærða skólann. Árið 1857 hélt hann til Kaupmannahafnar á ný og dvaldi svo um tíma í Þýskalandi og Belgíu þar sem hann var í klaustri um hríð. Eftir það fór hann aftur í Hafnarháskóla og lauk þaðan meistaraprófi í norrænum fræðum fyrstur Íslendinga. Hann fékk vinnu hjá Hinu konunglega norræna fornfræðifélagi en vann einnig fyrir sér með skrifum fyrir Konráð Gíslason og Jón Sigurðsson. Hann fluttist síðan aftur til Íslands og dvaldi lengst af í Reykjavík og kenndi þar um nokkurra ára skeið við Lærða skólann. Benedikt var afar fjölhæfur maður. Hann var snilldar teiknari, lagði sig eftir náttúrufræði og tungumálum, var ljóðskáld í rómantískum anda og samdi leikrit og sögur. Hann lést í litlu húsi sem lengi stóð að baki Vesturgötu 16, en þar bjó hann síðustu ár ævi sinnar. Húsið hefur nú verið endurbyggt og flutt að Fischersundi og nefnist Gröndalshús.

Verk[breyta | breyta frumkóða]

Frægasta verk Benedikts er líklega ævisaga hans Dægradvöl sem kom fyrst út 1923 (eldri gerðin) og 1953 (yngri gerðin) og hefur verið endurútgefin nokkrum sinnum. Annað frægt rit er Heljarslóðarorrusta, gamansaga um orrustuna við Solferino 1859 og ýmsa samtímaatburði aðra, erlenda sem innlenda. Söguna skrifaði hann í stíl fornaldarsagna og er fyndni hennar ekki síst fólgin í þeim fáránleika sem skapast af því. Fjölmörg ritverk önnur liggja eftir hann m.a. þýðing á Ílionskviðu Hómers. Teikningar hans af fuglum og lífríki Íslands þykja ómetanleg listaverk.

Hið íslenska náttúrufræðifélag[breyta | breyta frumkóða]

Benedikt Gröndal var einn af stofnendum Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) og fyrsti formaður þess. Formannstíð hans var 1889-1900. Hann var einnig einn af stofnendum Náttúrugripasafns Íslands og annaðist rekstur þess um árabil.

Kona Benedikts var Ingigerður Tómasdóttir Zoega (f. 1845, d. 1881). Hún var um 20 árum yngri en hann. Saman eignuðust þau þrjár dætur Magðalenu Þuríði eldri (1873-1876), Helgu (1875-1937) og Magðalenu Þuríði yngri (1879-1880). Ingigerður lést 1881, 36 ára að aldri. Þannig mátti Benedikt sjá á eftir eiginkonunni og tveimur dætrum á 5 árum.

Eitt og annað[breyta | breyta frumkóða]

  • Gröndalshús. Benedikt Gröndal keypti húsið að Vesturgötu 16 b árið 1888 og bjó þar til dauðadags. Þar ritaði hann mörg verka sinna og vann fjölmargar myndir og skjöl sem eftir hann liggja. Undir aldamótin 2000 var húsið komið í niðurníðslu og þótti standa í vegi fyrir framkvæmdaaðilum. Framtíð þess var í óvissu um nokkurt árabil, það var flutt og geymt á Grandagarði uns því var að lokum fundinn nýr staður í Grjótaþorpi, á horni Mjóstrætis og Fisherssunds. Húsið var flutt, endurbyggt á vandaðan máta undir umsjá Minjaverndar og tekið í notkun í júní 2017. Húsið er í eigu Reykjavíkurborgar sem nýtir það fyrir menningarstarfsemi sem tengist "Reykjavík bókmenntaborg Evrópu". Þar er sýning um Benedikt Gröndal á aðalhæð þess, íbúð í kjallara og vinnuaðstaða fyrir fræðimenn á efri hæð.
  • Þórhallur Bjarnarson biskup skrifaði: Dr. Þorvaldur Thoroddsen ritar mér: Ég kom til gamla Benedikts Gröndals 2 eða 3 dögum áður en hann dó. Var hann þá veikur en sat í hægindastól. „Hvernig líður þér í dag, Gröndal?“ sagði ég. „Ég get ekki gengið og ekki andað“, sagði Gröndal, „en annars líður mér vel“.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Sýnisbók íslenskra bókmennta frá 1550 til 1900, Kristján Eiríksson tók saman, Reykjavík 2003.
  • Endurminningar Gröndals, Dægradvöl; þar er meðal annars að finna merkar heimildir um sögu Reykjavíkur á 19. öld.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikisource
Wikisource
Á Wikiheimild er að finna verk eftir eða um:

Greinar eftir Benedikt