Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Benedikt Gröndal, yngri. Olíumálverk eftir Ólaf Th Ólafsson

Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal (6. október 1826 á Eyvindarstöðum á Álftanesi2. ágúst 1907) var íslenskur náttúrufræðingur, skáld og rithöfundur.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Benedikt var sonur Sveinbjarnar Egilssonar og konu hans, Helgu Gröndal, sem var dóttir Benedikts Gröndals landsyfirréttardómara og skálds. Hann lærði í Bessastaðaskóla og nam síðan náttúrufræði og bókmenntir við Hafnarháskóla. Hann kenndi síðan nokkur ár við Lærða skólann í Reykjavík en hélt svo aftur utan og dvaldi um tíma í Þýskalandi og Belgíu. Eftir það fór hann aftur í Hafnarháskóla og lauk þaðan meistaraprófi í norrænum fræðum fyrstur Íslendinga. Hann fluttist síðan aftur til Íslands og dvaldi lengst af í Reykjavík og kenndi þar um nokkurra ára skeið við Lærða skólann. Benedikt var afar fjölhæfur maður. Hann var snilldar teiknari, lagði sig eftir náttúrufræði og tungumálum, var ljóðskáld í rómantískum anda og samdi leikrit og sögur. Hann lést í litlu húsi sem lengi stóð að baki Vesturgötu 16, en þar bjó hann síðustu ár ævi sinnar. Húsið hefur nú verið endurbyggt og flutt að Fischersundi og nefnist Gröndalshús.

Frægasta verk Benedikts er líklega Heljarslóðarorrusta, gamansaga um orrustuna við Solferino 1859 og ýmsa samtímaatburði aðra, erlenda sem innlenda. Söguna skrifaði hann í stíl fornaldarsagna og er fyndni hennar ekki síst fólgin í þeim fáránleika sem skapast af því.

Benedikt Gröndal var einn af stofnendum Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) og fyrsti formaður þess. Formannstíð hans var 1889-1900. Hann var einnig einn af stofnendum Náttúrugripasafns Íslands og annaðist rekstur þess um árabil.

Kona Benedikts var Ingigerður Tómasdóttir Zoega (d. 1881). Hún var um 20 árum yngri en hann. Saman eignuðust þau þrjár dætur en tvær þeirra dóu á unga aldri.

Eitt og annað[breyta | breyta frumkóða]

  • Þórhallur Bjarnarson biskup skrifaði: Dr. Þorvaldur Thoroddsen ritar mér: Ég kom til gamla Benedikts Gröndals 2 eða 3 dögum áður en hann dó. Var hann þá veikur en sat í hægindastól. „Hvernig líður þér í dag, Gröndal?“ sagði ég. „Ég get ekki gengið og ekki andað“, sagði Gröndal, „en annars líður mér vel“.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Sýnisbók íslenskra bókmennta frá 1550 til 1900, Kristján Eiríksson tók saman, Reykjavík 2003.
  • Endurminningar Gröndals, Dægradvöl; þar er meðal annars að finna merkar heimildir um sögu Reykjavíkur á 19. öld.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Einkennismerki Wikitilvitnunar
Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni
Wikisource
Á Wikiheimild er að finna verk eftir eða um:

Greinar eftir Benedikt