Fara í innihald

Kommúnistaflokkur rússneska sambandsríkisins

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kommúnistaflokkur rússneska sambandsríkisins
Коммунистическая Партия Российской Федерации
Aðalritari Gennadíj Zjúganov
Stofnár 14. febrúar 1993; fyrir 31 ári (1993-02-14)
Höfuðstöðvar 16. byggingin, Ol'khovskaja Úlitsa, Moskvu, Rússlandi, 105066
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Kommúnismi, marx-lenínismi, rússnesk þjóðernishyggja, félagsleg íhaldsstefna
Einkennislitur Rauður  
Sæti á sambandsráðinu
Sæti á ríkisdúmunni
Vefsíða kprf.ru

Kommúnistaflokkur rússneska sambandsríkisins (rússneska: Коммунистическая Партия Российской Федерации; Kommúnístítsjeskaja Partíja Rossíjskoj Federatsíí; skammstafað KPRF) er rússneskur stjórnmálaflokkur.

Flokkurinn var stofnaður eftir að Kommúnistaflokkur rússneska sovétlýðveldisins var bannaður og gerir tilkall til arfleifðar Kommúnistaflokks Sovétríkjanna og Bolsévikanna. Flokkurinn telur sig þó rússneskan í eðli sínu og leggur áherslu á rússneska ættjarðarást og þjóðernishyggju auk marx-lenínisma, sem er opinber hugmyndafræði flokksins.

KPRF hefur frá stofnun sinni verið stærsti stjórnarandstöðuflokkur Rússlands. Gennadíj Zjúganov hefur verið leiðtogi flokksins frá því hann var stofnaður árið 1993. Í þingkosningum ársins 2021 hlaut flokkurinn 19% atkvæða og 57 sæti á rússnesku dúmunni.

Stjórnmálaleg hugmyndafræði

[breyta | breyta frumkóða]

Helsta stefnumál KPRF er að leggja grunn að nýjum, nútímalegum sósíalisma í Rússlandi. Flokkurinn dásamar arfleifð Sovétríkjanna en hefur í seinni tíð dregið nokkuð úr fortíðarþrá sinni í viðleitni til að höfða meira til yngri Rússa.[1] Flokkurinn telur að rússneska þjóðin hneigist í eðli sínu til sósíalisma vegna anda sameignarstefnu sem sé Rússum eðlislægur.[2]

Flokkurinn vill þjóðnýta náttúruauðlindir, jarðeignir og þungaiðnað Rússlands og stofna til stuðningskerfa fyrir stórar fjölskyldur og fátæka. Þá vill Kommúnistaflokkurinn afnema flata skattlagningu sem er við lýði í Rússlandi og innleiða þrepaskatt. Flokkurinn hefur jafnframt lagt áherslu á að bæta heilsu- og menntakerfið í Rússlandi.

Ólíkt kommúnistaflokkum í mörgum öðrum ríkjum er Kommúnistaflokkur rússneska sambandsríkisins íhaldssamur í samfélagsmálum. Flokkurinn er meðal annars gagnrýninn á hinsegin fólk og studdi árið 2013 ásamt öðrum stjórnmálaflokkum lög sem bönnuðu „áróður samkynhneigðra.“[3] Þrátt fyrir að sovéski kommúnistaflokkurinn hafi verið fylgjandi opinberu trúleysi hefur KPRF jákvæða sýn á rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna. KPRF aðhyllist jafnframt rússneska þjóðernishyggju, sem gerir hann nokkuð frábrugðinn vestur-evrópskum kommúnistaflokkum, sem flestir eru alþjóðasinnaðir.

Í utanríkismálum er Kommúnistaflokkurinn afar gagnrýninn á Bandaríkin og hefur kallað eftir því að Rússar verji meira fé til hernaðarmála til að verjast ágangi Bandaríkjamanna. Flokkurinn var meðal þeirra sem hvöttu til þess að Rússar viðurkenndu sjálfstæði Alþýðulýðveldanna Donetsk og Lúhansk, sem klufu sig frá Úkraínu árið 2014. Þetta var loks gert árið 2022 í aðdraganda innrásar Rússa í Úkraínu.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Dette er kandidatene i Russland“. NRK. 1. mars 2012. Sótt 4. mars 2021.
  2. Jørn Holm-Hansen (9. október 2020). „KPRF - Den russiske føderasjons kommunistparti“ (norska). Store norske leksikon. Sótt 4. mars 2021.
  3. „В КПРФ предложили арестовывать совершивших каминг-аут гомосексуалистов Подробнее на РБК:“ (rússneska). RBK. 23. október 2015. Sótt 4. mars 2021.
  Þessi Rússlandsgrein sem tengist stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.