Fara í innihald

Basjkortostan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Basjkortostanrússnesku: Респу́блика Башкортоста́н; á basjkírisku: Башҡортостан Республикаһы) eða Basjkíría (Башки́рия), er sjálfstjórnarlýðveldi innan Rússneska sambandsríkisins sem nær frá vestanverðum hlíðum Suður-Úralfjalla í austri að aflíðandi hæðum og sléttum Bugulma-Belebey í vestri. Landið, sem er í suðaustanverðum Evrópuhluta Rússlands, er 142.947 ferkílómetrar. Íbúar eru 4,1 milljón (2010) og af ýmsu þjóðerni: 36% Rússar, 30% Basjkírar og 24% Tatarar. Höfuðborgin er Ufa með 1,5 milljón íbúa.

Landlýsing[breyta | breyta frumkóða]

Kortið sýnir legu Lýðveldisins Basjkortostan innan hins víðfeðma rússneska sambandsríkis

Frá fjallinu Yamantau, sem er hæsti punktur suðurhluta Úralfjalla, lækkar landið til suðurs og vesturs, og skógivaxin fjöllin mynda umgjörð Belaya-árinnar. Belaya kemur úr suðurhluta Úralfjalla, rennur í suðvestur og síðan í norðvestur, og skilur að fjallahéruðin í austur- og vesturhluta lýðveldisins. Áin er meginhluti Kama-árinnar sem síðar myndar ána Volgu.

Kalt síberíuloftið hefur mikil áhrif á rakt meginlandsloftslagið í lýðveldinu. Hitastig getur orðið allt að -45 °C á veturna og 36 °C á sumrin. Í suðurhluta lýðveldisins blása heitir og þurrir vindar síðla vors og á sumrin. Úrkoma er breytileg, frá 400-500 mm á gresjunum til meira en 600 mm í fjallahéruðum.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu byggð á landsvæði Basjkortostan má rekja til síðari hluta frumsteinaldar. En það var fyrst á bronsöld sem byggð fór að aukast. Mikil kunnátta var í framleiðslu bronsverkfæra, vopna og skreytinga. Fyrstu heimildir um „Basjkíra“ eru frá 9. öld.

Kort af Lýðveldinu Basjkortostan. Höfuðborgin Ufa er fyrir ofan miðju landsins

Á 10. öld breiddist Íslam út meðal Basjkíra, og varð að ríkjandi trúarbrögðum á 14. öld. Á 16. öld skiptist landsvæði Basjkortostan nútímans á milli Kazan-ríkisins, Síberíu-kanatsins og ríkis Gullnu hirðarinnar og vesturhluta mongólska keisaradæmisins.

Landið varð síðan hluti Rússlands árið 1552 eftir að Ívan grimmi hertók borgina Kazan. Á árunum 1554-1555 óskuðu fulltrúar basjkírskra ættbálka eftir að ríkið gengi í ríkjasamband við Moskvu. Árið 1574 stofnuðu Rússar borgina Ufa, sem nú er höfuðborg og stærsta borg lýðveldisins. Um miðja 16. öld tók Bashkiria á sig æ meiri mynd sem eitt hinna rússnesku ríkja.

Árið 1798 var Andlegt þing rússneskra múslima stofnað sem var mikilvægt skref í átt til þess að rússneska Zarinn viðurkenndi rétt Basjkíra, Tatara og annarra múslimaþjóða til að iðka Íslam. Upp úr miðri 18. öld hófst mikilvæg kopar- og járnvinnsla á svæðinu.

Árið 1919 varð landið sjálfstjórnarlýðveldi innan rússneska sovétlýðveldisins í kjölfar rússnesku byltingarinnar. Á árunum 1919-1991 var hið formlega heiti þess Sjálfstjórnarlýðveldið Basjkir í Ráðstjórnarríkjunum (á rússnesku: Башкирская Автономная Советская Социалистическая Республика).

Efnahagur[breyta | breyta frumkóða]

Í Basjkortostan, sem er hluti af efnahagssvæði kenndu við Volgu í Rússlandi, hefur einkum þróast landbúnaður og iðnaður. Lýðveldið er ríkt af fjölbreyttum auðlindum. Olía og jarðgas eru unnin nálægt borgunum Ufa og Neftekamsk í norðvestri, í borginni Belebey í vestri og í Ishimbay við miðja Belaya. Járn og mangan eru unnin í Úralfjöllum, kopar í suðaustri, og salt nálægt borginni Sterlitamak. Úr opnum námum kemur efni í gler og sement. Olíuframleiðsla og hreinsun og vinnsla olíu eru afar mikilvægar atvinnugreinar í lýðveldinu. Helstu olíuhreinsunarstöðvar eru við Ufa, Ishimbay og Salavat og eru þær tengdar neti olíuleiðslna sem liggja um lýðveldið og nágrannalýðveldið Tatarstan. Miðstöðvar járn- og stálframleiðslu eru í Beloretsk og Tirlyansky, og eru þar framleidd stálkaplar, vírar og aðrar gerðir stáls sem nota má til framleiðslu á vélaverkfærum, búnaði fyrir olíu- og námuvinnslu, mótorum, rafstrengjum og símabúnaði. Efnaiðnaðurinn notar margvíslegar olíu- og gasvörur og timburiðnaður framleiðir viðarspón, húsgögn og pappír fyrir framleiðslu. Við borgirnar Ufa, Sterlitamak, Ishimbay, Yermolaevo, Salavat og Karmanovo eru stórar virkjanir.

Landbúnaður er mikilvægur í árdal Belaya. Helstu landbúnaðarafurðir eru rúgur, hafrar, korn (maís), hör, sykurrófur, kartöflur og sólblóm. Grænmetismarkaðir blómstra nálægt Ufa og Sterlitamak, en ræktun nautgripa, sauðfjár og geita er aðallega við Úralfjöllin. Landið er þekkt fyrir hrossarækt og býflugnabú eru mjög útbreidd. Hunang frá Basjkortostan er þekkt víða um heim. Járnbrautir og vegir hafa miðstöð sína í höfuðborginni Ufa, en þar er einnig alþjóðaflugvöllur. Ein af helstu járnbrautaleiðum yfir Úralfjöllin liggur í gegnum höfuðborgina. Járnbrautir liggja milli iðnaðarborga lýðveldisins, allt að borginni Magnitogorsk og upp í fjallahéruðin.

Efnahagur Basjkortostan byggir að miklu leyti á olíuvinnslu. Iðnaðarfyrirtæki sem voru einkavædd eftir hrun Sovétríkjanna hafa að miklu leyti komist í hendur fjölskyldu forseta lýðveldisins.

Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Íbúar Basjkortostan eru af ýmsu þjóðerni. Rússar eru (36%), Basjkírar (30%), Tatarar (24%), Sjúvar (3%), Marar (3%), Úkraínumenn (1%) og Mordvinia-ættbálkurinn (1%). Meirihluti þeirra býr í þéttbýli. Helstu borgirnar eru, auk höfuðborgarinnar Ufa, Sterlitamak og Salavat. Í lýðveldinu eru nokkrar stofnanir á háskólastigi, hundruð bókasafna og mörg leikhús og hafa nokkur þeirra sýningar á basjkírisku.

Meirihluti Basjkíra og Tatara eru múslimar. Flestir Rússar aðhyllast hins vegar rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna.

Opinber tungumál eru rússneska og basjkírska. Nær allir íbúar tala rússnesku (~100%), um 34% tala tungu Tatara og 26% tala basjkírsku. Íbúafjöldi var áætlaður 4.104.336 árið 2006.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]