Fara í innihald

Gullna hordan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Gullna hjörðin)
Batú Kan á hásæti í handriti frá um 1300

Gullna hordan (tatarska: Алтын Урда Altın Urda; tyrkneska: Altın Orda eða Altın Ordu, mongólska: Зүчийн улс, Züchii-in Uls; rússneska: Золотая Орда, Solotaja Orda) var mongólskt og síðar tyrkískt undirkanat innan Mongólaveldisins. Það varð til við landvinninga Batú Kans, sonar Djotsji, sonar Djengiss Khan, í vestri þar sem hann lagði undir sig lönd Volgubúlgara, tyrkneskra þjóðflokka, kúmana og kiptsjaka, og að lokum fyrrum furstadæmi Garðaríkis, um miðja 13. öld. Stórfurstadæmið Moskva og Búlgarska keisaradæmið héldu sjálfstæði sínu en greiddu Gullnu hordunni skatt. Batú Kan reisti höfuðborg sína, Sarai Batú, við Volgu þar sem höfuðborg kasara, Atil, stóð áður.

Um miðja 14. öld tók Gullnu hordunni að hnigna. Svarti dauði og stríð milli erfingja kansins veiktu ríkið og Stórhertogadæmið Litháen og Konungsríkið Pólland gengu á lagið, lögðu undir sig lönd Mongóla og hættu að greiða þeim skatt. Eftir 1420 tók hordan að brotna upp í nokkur kanöt, þar á meðal Krímkanatið og Kasakkanatið. Árið 1476 hætti Ívan 3. af Moskvu að greiða Gullnu hordunni skatt og staðan mikla við Úgrafljót sýndi að yfirráðum Tatara og Mongóla í Rússlandi var í raun lokið. Síðasti kan Gullnu hordunnar lést í fangelsi í Kaunas í Litháen einhvern tíma eftir 1504. Krímkanatið var áfram við lýði þar til Katrín mikla lagði það undir sig 1783 og Kasakkanatið ríkti yfir Kasakstan til 1847, en síðustu kanarnir voru leppar Rússa.

Orðið horda er dregið af tyrkíska orðinu ordu, sem merkir „valdastöð“[1] eða „konungshirð“.[2][3] Heitið barst úr rússnesku í ensku sem horde. Á 17. öld fékk enska orðið svo aukamerkinguna „mannfjöldi“ eða „herskari“.[4] Á íslensku hefur heiti Gullnu hordunnar því útlagst á ýmsa vegu, meðal annars sem Gullni skarinn, Gullnu tjaldbúðirnar og Gullna hjörðin.

Heitið sem Gullna hordan notaði yfir sjálfa sig var Ulug Ulus, sem merkir „ríkið mikla.“[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Leo de Hartog (1996). Russia and the Mongol yoke: the history of the Russian principalities and the Golden Horde, 1221–1502. British Academic Press. ISBN 978-1-85043-961-5.
  2. Michael Kohn (1. maí 2008). Mongolia. Lonely Planet. bls. 25–. ISBN 978-1-74104-578-9. Sótt 17. janúar 2011.
  3. Willem van Ruysbroeck; Giovanni di Piano Carpini (abp. of Antivari) (1900). The journey of William of Rubruck to the eastern parts of the world, 1253–5. Printed for the Hakluyt Society. bls. 57.
  4. „horde (n.)“. Online Etymology Dictionary.
  5. „The History and Culture of the Golden Horde (Room 6)“. The State Hermitage Museum, Sankt Petersburg. Sótt 21. mars 2020.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.