Ívan grimmi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Ívan grimmi.

Ívan grimmi eða Ívan 4. Vasilíjevitsj (25. ágúst 153028. mars 1584), var prins af Moskvu frá 1533 og fyrsti keisari Rússlands frá 26. janúar 1547 til dauðadags. Á langri valdatíð hans lögðu Rússar undir sig kanötin Kazan, Astrakhan og Síberíu og við það breyttist Rússland í fjölþjóðlegt ríki sem náði yfir rúmar fjórar milljónir ferkílómetra. Á tíma Ívans urðu miklar breytingar á landinu og það breyttist úr miðaldaríki í stórveldi sem hafði vaxandi áhrif í sínum heimshluta.

Sagnfræðiheimildir gefa ólíkar myndir af flóknum persónuleika Ívans: honum hefur verið lýst sem skörpum og trúföstum manni sem hætti til skapofsakasta og geðveilu. Í einu bræðikastinu varð hann valdur að dauða sonar síns og erfingja, Ívans Ívanovitsj. Það varð til þess að eftir lát Ívans fór keisarakórónan til yngri sonar hans, Fjodors 1., sem var heilsuveill og veikur stjórnandi og samkvæmt sumum heimildum andlega fatlaður.