Fara í innihald

Heimskautarefur

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Melrakki)
Heimskautarefur
Tófa í sumarbúningi á Svalbarða
Tófa í sumarbúningi á Svalbarða
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríkið (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Rándýr (Carnivora)
Bowdich (1821)
Ætt: Hundaætt (Canidae)
G. Fischer de Waldheim (1817)
Ættkvísl: Vulpes
Kaup, 1829
Tegund:
V. lagopus

Tvínefni
Vulpes lagopus
(Linnaeus, 1758)
Heimkynni heimskatarefsins
Heimkynni heimskatarefsins
Samheiti
  • Alopex lagopus (Linnaeus, 1758)
  • Canis lagopus Linnaeus, 1758
  • Canis fuliginosus Bechstein, 1799
  • Canis groenlandicus Bechstein, 1799
  • Vulpes arctica Oken, 1816
  • Vulpes hallensis Merriam, 1900
  • Vulpes pribilofensis Merriam, 1903
  • Vulpes beringensis Merriam, 1903

Heimskautarefur eða fjallarefur (fræðiheiti: Vulpes lagopus, áður Alopex lagopus), einnig nefndur tófa eða refur á íslensku, er tegund refa af ættkvísl refa (Vulpes) sem tilheyrir hundaætt (Canidae). Heimskautarefurinn er eina landspendýrið í íslensku dýraríki sem hefur borist til Íslands án aðstoðar manna.[2] Dýrafræðingar hafa greint ellefu undirtegundir heimskautarefsins en ekki eru allir fræðimenn sammála um þær greiningar. Tófur má finna um allar Norðurslóðir. Tegundin er í útrýmingarhættu í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og á eyjum við austur Síberíu.

Nöfn á refum

[breyta | breyta frumkóða]

Karldýrin eru oftast nefnd steggur eða högni en einnig kemur fyrir að þeir séu nefndir refur. Kvendýrin eru nefnd læða eða bleyða en einnig kemur fyrir að þær séu nefndar tófur.

Ekkert annað dýr á Íslandi hefur haft eins mörg heiti. Má það meðal annars rekja til þeirrar algengu trúar um alla Evrópu að ekki megi nefna nafn hins illa upphátt til þess að kalla hann ekki fram. Fyrir utan þau algengustu refur og tófa má nefna: dratt(h)ali, gortanni, lágfóta, melrakki, skaufhali, skolli og vemma. Refir sem leggjast á fé eru nefndir bítur, dýrbítur og bitvargur. Snoðdýr er tófa sem aldrei fær fallegan belg með vindhárum. Refalæða sem lögst er í greni til að gjóta er kölluð grenlægja. Afkvæmið nefnist yrðlingur.

Refur að sumarlagi

Tófan er einstaklega vel hæf til að lifa í heimskautaloftslagi og hefur mjög þéttan feld sem einangrar hana vel, jafnvel í miklum kulda. Um 70% af feldinum er undirhár sem gerir það mögulegt að halda eðlilegum líkamshita þó umhverfið fari allt niður í 35°C frost. Feldurinn er sem þéttastur frá desember til mars. Tófan hefur mjög stutt skott, trýni, háls og lítil eyru miðað við aðrar refategundir og hefur þróast þannig til að takmarka hitatap.

Villtar verða tófur 6–10 ára gamlar, en geta orðið allt að 20 ára undir mannahöndum. Fullorðnir íslenskir refir eru á bilinu 3 til 4,5 kg að þyngd. Líkaminn er 40 til 70 cm frá trýni aftur á rass, skottið er svo 30 cm í viðbót. Hæðin upp á herðakamb er um 30 cm og líkist tófan litlum hundi.

Tófan er aðallega á ferðinni að degi til, ekki síst í ljósaskiptum kvölds og morgna.

Tvö meginlitarafbrigði eru af tófu, hvít dýr og mórauð. Hvítu dýrin hafa hvítan feld að vetrarlagi en á sumrin mógrábrún á baki og utan á útlimum en grá á kviðnum og innan á útlimum. Mórauðu tófurnar eru dökkbrúnar allt árið um kring. Á Íslandi er um 70% dýranna mórauð en á heildina litið er hvíta litarafbrigðið í miklum meirihluta. Mórauðir refir eru einkum á eyjum og við strendur en á meginlandi Síberíu og stærstum hluta heimskautasvæðis Kanada eru hvítir refir um 90% af stofninum.

Útbreiðsla

[breyta | breyta frumkóða]
Útbreiðsla heimskautarefs

Heimskautarefurinn lifir á eyjum og meginlöndum allt í kringum Norðurslóðir. Á tveimur svæðum er stofninn í útrýmingarhættu, annars vegar á Fennóskandíuskaganum, þar má nú einungis finna refi af þessari tegund hátt til fjalla í suður Noregi og norður Svíþjóð og þar að auki nyrst í Finnlandi og á norðurhluta Kolaskaga og hins vegar á eyjunum austan við Kamtsjatkaskaga. Annars staðar á útbreiðslusvæðinu, frá norðurhluta Rússlands austur Síberíu, Alaska og heimskautasvæði Kanada og einnig á Grænlandi, Íslandi og Svalbarða er stofninn í góðu ástandi. Jan Mayen og Bjørnøya (Bjarnarey við Svalbarða) eru þó undantekningar en þar var tófum útrýmt um 1930 vegna ofveiði.[3] Aðstæður á útbreiðslusvæðinu eru mjög breytilegar, allt frá tiltölulega mildu loftslagi á suðurhluta Alaska og á eyjum í Beringssundi til freðmýranna á kanadísku heimskautaeyjunum og í Síberíu þar sem einna kaldast verður á jörðinni.

Útbreiðslan takmarkast að sunnan á meginlandssvæðunum af útbreiðslu rauðrefs (Vulpes vulpes). Rauðrefur drepur iðulega tófur og hrekur þær burtu þar sem vistarsvæði skarast enda er tófan um 25% minni en rauðrefurinn. Útbreiðsla rauðrefs norður eftir ræðst af framboði af æti en rauðrefur er miklu þurftarfrekari en tófa og þolir þar að auki miklu ver kulda.

Undirtegundir

[breyta | breyta frumkóða]

Dýrafræðingar hafa greint ellefu undirtegundir heimskautarefa en fjöldi tegunda er umdeild.

Hvít tófa í vetrarbúningi

Refurinn er bókstafleg alæta. Nyrst á Norðurslóðum er algengt að refir fylgi ísbjörnum og éti selshræ sem þeir leifa. Víðast hvar á útbreiðslusvæðinu lifa þeir aðallega á nagdýrum ýmiss konar, sérstaklega eru læmingjar mikilvægur hluti fæðunnar. Hræ af ýmsum toga, til dæmis af sjávarspendýrum, hreindýrum og sauðfé eru mikill þáttur í fæðuvalinu. Tófan fúlsar ekki heldur við úrgangi manna ef til fellur. Á Íslandi eru fuglar aðaluppistaða í fæði tófunnar. Sjófuglar, fýll, mávar og svartfugl eru mikilvægir við strendurnar en að sumarlagi inn til lands eru farfuglar svo sem gæsir, vaðfuglar og spörfuglar aðalfæðan og rjúpa að vetrarlagi.

Refir safna gjarna fæðu ef nóg er framboðið, þeir grafa niður bita hér og þar til seinni tíma. Dýrafræðingar hafa sýnt fram á að tófan notar bæði lyktarskyn og minni til að finna felustaðina.

Steggurinn og læðan mynda par sem heldur saman meðan bæði lifa. Yrðlingarnir fæðast eftir um 50 daga meðgöngu og er oftast um miðjan maí á Íslandi. Þeir eru blindir við fæðingu en augun opnast þegar þeir eru um 15 daga gamlir. Fyrstu þrjár vikurnar eru yrðlingarnir algjörlega háðir móðurmjólkinni en fara síðan að éta annað æti í auknum mæli. Við 6 til 10 vikna aldur venur læðan þá af spena. Yrðlingarnir fara fyrst að leita út fyrir grenið við fjögurra vikna aldur og eru þá enn dökkbrúnir á lit. Um átta vikna gamlir eru þeir búnir að fá litarfar fullorðinna refa. Að öllu jöfnu fara yrðlingarnir af greni þegar þeir eru um það bil 12 vikna gamlir, sem er snemma í ágúst á Íslandi.

Stærsti hluti heimskautarefa lifir aðallega á læmingjum. Læmingjastofninn er mjög misstór og fylgir nokkuð reglulegum sveiflum milli ára. Þar sem heimskautarefir lifa aðallega á læmingjum aðlagast tímgun þessum sveiflum. Fjöldi yrðlinga fylgir þessu, í góðum læmingjaárum getur læðan átt allt að 25 afkvæmi þó það sé sjaldgæft. Venjulega, og á það einnig við á Íslandi, eignast tófan um 6 yrðlinga á ári.

Greni refsins eru margvísleg og fara eftir staðháttum. Oft eru þau í stórgrýtisurðum en þau geta einnig verið grafin í moldarjarðveg. Vitað er að greni geta verið notuð í áratugi og hugsanlega árhundruð. Þau geta þakið mjög stórt svæði, meðalstærð grenja sem mæld voru í Noregi reyndist vera 363 og höfðu 27 innganga.[4]

Tófuparið markar sér heimasvæði sem það fer um í ætisleit og ver það gegn öðrum refum. Þó kemur fyrir að heimasvæði refapara skarist en bardagar milli granna virðast vera sjaldgæfir.

Íslenska tófan

[breyta | breyta frumkóða]
Tófa í vetrarbúningi í ætisleit

Talið er að refir hafi komið til Íslands þegar í lok síðustu ísaldar fyrir um 10.000 árum og hafi upphaflega borist hingað með hafís. Íslenski refastofninn er mjög sérstakur vegna langvarandi einangrunar frá öðrum refastofnum og aðlögunar að sérstökum aðstæðum hérlendis enda greind sem sérstök undirtegund, Alopex lagopus fuliginosus (sem nánast má þýða sem sótarrefur). Það er þó sennilegt að grænlenskar tófur hafi borist til Íslands með hafís öðru hvoru þó engar heimildir séu til um það.

Íslenski refastofninn var árið 2007 á bilinu 6000 til 8000 dýr[5] en hefur vaxið og var áætlaður 8000 til 10.000 dýr árið 2011. [6] Árið 2016 hafði stofninn tífaldast frá árinu 1980 þegar hann var í lágmarki. [7] Haustið 2018 er talið að refastofninn hefði verið um 8.700 dýr. [8]

Allt frá landnámi hafa veiðar verið stundaðar á refum og var bændum og búaliði mjög illa við þá. Bæði var að tófan var talin skæður keppinautur um fugla, ekki síst æðarfugla, egg þeirra og unga. En sérstaklega var sauðfé í hættu og einnig hænsni. Refurinn er stundum kallaður dýrbítur og á það til að valda skaða á kindum.[9]

Refir hafa verið ræktaðir alllengi erlendis en refarækt hófst á Íslandi upp úr 1930 og átti að glæða atvinnumöguleika í sveitum. Sú ræktun leið undir lok eftir nokkra áratugi en hófst að nýju upp úr 1980. Árið 2004 voru 13 refabú á landinu og framleiddu þau um 15.000 refaskinn á ári.[10]

Tvær refategundir eru notaðar í loðdýrarækt á Íslandi.

Önnur tegundin er það afbrigði af heimskautaref sem oftast er nefnt blárefur og er um 90% af stofninum á Íslandi. Blárefir eru upphaflega ættaðir frá Alaska en síðar hefur þeim verið blandað við refi frá Kanada, Grænlandi, Svalbarða og Síberíu. Þeir eru stærri en íslensku tófurnar, oftast ljósari á lit og miklu frjósamari. Blárefir og villta tófan eru af sömu tegund og geta þau átt frjó afkvæmi innbyrðis og hefur það oft komið fyrir þegar refir hafa sloppið úr búri.

Hin tegundin er silfurrefir og er það litarafbrigði af rauðref (Vulpes vulpes). Þar að auki eru ræktaðir svonefndir gullrefir sem einnig er litarafbrigði af rauðref. Rauðrefir og þar með silfurrefir geta átt afkvæmi með heimskautaref en þau eru ófrjó vegna þess að þetta eru aðeins skyldar tegundir (eins og múlasnar). Talsvert hefur verið um það að silfurrefir hafi sloppið frá refabúum hérlendis en þeir hafa ekki tímgast í náttúrunni svo vitað sé. Ein undantekning er þó, vitað er að silfurrefur æxlaðist með villtum íslenskum ref í Lóni, Kelduhverfi 1945 og er það eina dæmið sem þekkt er í heiminum um að rauðrefur og heimskautarefur hafi æxlast úti í náttúrunni.[11]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Angerbjörn, A.; Hersteinsson , P.; Tannerfeldt, M. (2004). „Alopex lagopus“. Rauði listi IUCN yfir tegundir í hættu. 2004. Sótt 23. apríl 2008.
  2. Ísbirnir berast með hafís til Íslands nokkrum sinnum á áratug en tilheyra ekki íslensku dýraríki enda enginn varanlegur stofn ísbjarna á landinu.
  3. „Fakta om truete pattedyr i Norge: FJELLREV Alopex lagopus (L. 1758)“. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. febrúar 2007. Sótt 23. mars 2007.
  4. „„Kan vi redde fjellreven?". Afrit af upprunalegu geymt þann 27. september 2006. Sótt 23. mars 2007.
  5. „Stofnstærð refa“ á vef Umhverfisstofnunar.
  6. Refastofninn margfaldaðist Rúv, skoðað 29. nóv. 2017.
  7. Metfjöldi refa í æðarvarpi í Dýrafirði Rúv, skoðað 29. nóvember, 2017.
  8. Ester Rut Unnsteinsdóttir,Íslenski melrakkinn - fyrsti hluti (2021), Náttúrufræðingurinn (3-4)
  9. Tófur særðu fjölda kinda á bæ í Fitjárdal Rúv, skoðað 29. nóv, 2017.
  10. „Nefndarálit um vanda loðdýraræktarinnar“ (skýrsla nefndarinnar Geymt 27 september 2007 í Wayback Machine í pdf-skjali).
  11. Björn Guðmundsson Guðmundsson, 1945. „Kynblendingur af silfurref og fjallref í Lóni, Kelduhverfi“. Náttúrufræðingurinn 15: 108–112.
  • Páll Hersteinsson, ritstj. og aðalhöfundur (2004): Íslensk spendýr. Með vatnslitamyndum og skýringarmyndum eftir Jón Baldur Hlíðberg. Vaka-Helgafell, Reykjavík. ISBN 9979-2-1721-9
  • Alderton, David. 1994. Foxes, Wolves, and Wild Dogs of the World. Blandford Press: United Kingdom. ISBN 0-8160-2954-7
  • Nowak, Ronald M. 1999. Walker's Mammals of the World: 6th edition. Johns Hopkins University Press. ISBN 0-8018-5789-9
  • Wilson, Don E., and DeeAnn M. Reeder. 1993. Mammal Species of the World. 3rd edition. Washington: Smithsonian Institution Press. ISBN 0-8018-8221-4