Fara í innihald

Refaveiðar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Refir (lat. vuples lagopus) eru eina landspendýrið sem var á Íslandi fyrir landnám. Vegna þess að hann veiðir sér til matar villta fugla, og á það til að drepa lömb og önnur húsdýr, hafa menn litið á hann sem varg eða keppinaut frá fornu fari og því veitt hann eftir bestu getu. Refur sem liggur á greni er kallaður grendýr en refur sem liggur ekki á greni kallast hlaupadýr. Forðum var leyft - og þótti æskilegt - að drepa þá á hvaða hátt sem var, en í nútímanum gilda reglur, sem m.a. banna vissar aðgerðir við veiðar.

Gildruveiðar[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu aldirnar var refurinn einkum veiddur í gildrur, sem gjarnan voru listilega hlaðnar úr steinhellum. Þessar gildrur má finna enn í dag, þótt erfitt geti verið að þekkja þær frá öðru grjóti, þar sem þær veðrast og vaxa í mosa og skófum. Þegar dýrabogar og aðrar smíðaðar gildrur komu fram á sjónarsviðið, urðu þær ráðandi viöð refaveiði.

Skotveiðar[breyta | breyta frumkóða]

Þegar menn fengu fyrst byssur í hendur, voru skotfæri dýr og því ekki bruðlað með þau. Auk þess voru fyrstu byssurnar ónákvæmar. Refadráp með skotvopnum varð því ekki algengt fyrr en á seinni hluta 19. aldar. Þá liggur refaskyttan gjarnan í leyni í skotbyrgi, í skotfæri við greni eða svæði þar sem von er á ref, og egnir oft fyrir dýrin með hræi til að lokka þau í skotfæri.

Aðferðir sem voru stundaðar en eru nú bannaðar[breyta | breyta frumkóða]

Strax og menn fengu stryknín og aðrar tegundir af eitri, fór að tíðkast að bera hræ út á víðavang og eitra þau. Með því móti gekk oft vel að drepa refi, en meðaflinn var m.a. fálkar og ernir, sem átu sömu hræin og drápust líka. Ekki hafa allir bændur saknað þeirra mikið, enda veiða þeir líka dýr og fugla sem menn hagnýta. Vegna friðunar þessara og fleiri fugla, er nú bannað að skilja eftir eitruð hræ á víðavangi.

Á tuttugustu öld var líka oft notað dýnamít, sem var stungið ofan í greni og svo sprengt, eða að hellt var bensíni ofan í og kveikt í. Þetta er harðbannað í dag. Einnig er bannað að nota ljóskastara til að blinda dýrið svo auðveldara sé að skjóta það á færi.

Laun fyrir veiðar[breyta | breyta frumkóða]

Til forna var lagður dýrtollur á bændur, og bar þeim annað hvort að drepa ákveðið marga refi, eða, ef þeir gerðu það ekki, greiða toll, sem þá rann til þeirra sem gerðu það.

Í nútímanum sjá sveitarfélög um að ráða skyttur og meindýraeyða til að drepa einkum ref og mink. Lengi hefur tíðkast að sveitarfélag borgi fyrir hvert unnið dýr, og er þá borgað þegar skottið af því er afhent. Einnig ráða bændur, veiðifélög o.fl. oft menn til refaveiða.

Friðun[breyta | breyta frumkóða]

Sums staðar er refur friðaður og er friðlandið á Hornströndum til dæmis þekkt. Þar sem hann er friðaður, dafnar stofninn auðvitað vel, og þegar ung dýr komast á legg leggja þau land undir fót til að finna sér ný búsvæði. Frá friðlandinu á Hornströndum koma til dæmis dýr inn í Ísafjarðardjúp og Strandir og lengra suður.

Erlendis[breyta | breyta frumkóða]

Refaveiðar á Íslandi einkennast af því að refurinn er sögulegur keppinautur mannsins í lífsbaráttunni og veiðarnar því stundaðar af nauðsyn. Það sama er auðvitað uppi á teningnum alls staðar þar sem refir lifa innan um menn sem stunda landbúnað eða veiði. En sums staðar erlendis eru refir líka veiddir sem sport. Í Bretlandi er það sport heldri manna að klæðast litríkum fötum og fara ríðandi í stórhópum á refaveiðar, með lúðra og hunda. Hundarnir eru látnir rífa refina í sig. Þessar veiðar hafa sætt harðri gagnrýni af dýraverndarástæðum, þar sem þær eru til gamans gerðar og dýrin drepin á kvalafullan hátt.