Fara í innihald

Kanji

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Orðið „kanji“ ritað með kanji.

Kanji er japanska heitið á kínverskum táknum, en kínverska myndtáknrófið er, í bland við hiragana og katakana, notað til að skrifa japönsku. Orðið kanji er ritað 漢字 með kínverskum táknum, en það er skrifað eins í kínversku, ef notuð eru hefðbundin kínversk tákn, þótt þar sé það borið fram öðruvísi (hànzì).

Til að auðvelda lestur kanji er framburður táknanna stundum ritaður með kana (hiragana eða katakana) ofan við eða til hægri við táknin (eftir því hvort skrifað er frá vinstri til hægri eins og er algengt í nútímanum, eða ofan frá og niður eins og gert var á öldum áður), en þessi hefð kallast furigana.

Saga kanji[breyta | breyta frumkóða]

Á 3. og 4. öld f.Kr. fluttu kínverskir og kóreskir ferðalangar með sér ritmál til Japan sem er þekkt í dag sem kanji, eða Han-tákn. Táknin áttu uppruna sinn á bökkum Gulár (Huáng Hé) í Kína um 2000 f. Kr., og um 3000 tákn frá því tímabili hafa fundist á ýmsum fornmunum. Á þeim tíma sem þessi tákn komu til Japans var japanska eingöngu til sem talað mál. Kínversk tákn voru fengin að láni á um 400 ára tímaskeiði, og japanska málið þróaðist í ritað mál. Í Japan hafa sum táknin fengið einfaldað form, og nokkrum hundruðum tákna hefur verið bætt við rófið, svo að ekki er um að ræða nákvæmlega sama úrval tákna í nútímajapönsku og nútímakínversku.

Japanska ríkið hefur útbúið sérstakan lista yfir jōyō kanji, 1,945 tákn sem öllum er gert að læra og sem ætlast er til að t.d. dagblöð takmarki sig að mestu við. Yfirleitt er notað s.k. furigana til að sýna framburð tákna sem notuð eru í dagblöðum, en eru ekki í jōyō kanji. 983 viðbótartákn er að finna í jinmeiyō kanji, en þau má (auk hinna) nota í mannanöfn og örnefni.

Flokkar tákna[breyta | breyta frumkóða]

Flokkar tákna í kanji eru sex talsins.

  • Shōkei moji (象形文字) eru einfaldar myndir af hlutum á borð við tré (木).
  • Shiji moji (指事文字) eru einföld tákn sem tilgreina óhlutlæg hugtök á borð við „fyrir ofan“ og „fyrir neðan“.
  • Kaii moji (会意文字) eru myndtákn sem sameina myndir og tákn til þess að lýsa flóknu hugtaki.
  • Keisei moji (形声文字) eru hljóðræn myndtákn, og um 85% allra kanji falla í þennan flokk. Hér tengjast merkingarfræðileg og hljóðfræðileg merking táknanna í eitt.
  • Tenchū moji (転注文字) eru tákn sem hafa breyst í framburði eða merkingu með láni táknsins til annarra hljóða eða hugmynda.
  • Kasha moji (仮借文字) eru hrein hljóðtákn, mynduð sem nokkurskonar kanji-hljóðtáknróf til þess að lýsa breytingum sagnhátta sagnorða fyrir tilkomu hiragana og katakana.

Framburður[breyta | breyta frumkóða]

Framburðarhættir fyrir kanji eru tveir: on'yomi (音読み) og kun'yomi (訓読み). On'yomi er notað fyrir orð af kínverskum uppruna, og er on'yomi framburðurinn þá fremur líkur hefðbundinni kínversku, en kun'yomi er hins vegar notað fyrir þau orð sem eru af japönskum uppruna. Mjög mörg kanji hafa bæði on'yomi og kun'yomi framburð, en hefðin hefur verið að börn læri kun'yomi framburðinn á undan.

Tákn Kun'yomi On'yomi Merking
mori (もり) shin (しん) skógur, rjóður
hito / -ri / -to (ひと/-り/-と) jin / nin (じん/にん) persóna, einstaklingur
mizu (みず) sui (すい) vatn

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]