Listi yfir aflagða vegi á Íslandi
Þessum lista yfir aflagða vegi á Íslandi er ætlað að taka saman flesta þá markverðu vegakafla sem hafa áður tilheyrt vegakerfinu en eru nú aflagðir. Listanum er raðað í öfugri tímaröð eftir því hvenær kaflarnir voru aflagðir.
- Oddsskarð: Veginum var lokað árið 2017 með tilkomu Norðfjarðarganga milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Vegurinn upp í Oddsskarð Eskifjarðarmegin er þó enn opinn vegna skíðasvæðis Fjarðabyggðar.
- Óshlíð: Veginum var lokað árið 2010 með tilkomu Bolungarvíkurganga milli Hnífsdals og Bolungarvíkur og er nú aðeins fær hjólandi og gangandi vegfarendum.
- Öxarfjarðarheiði: Veginum var lokað árið 2010 með tilkomu vegar yfir Hólaheiði og Hófaskarð á Melrakkasléttu.
- Selvogsheiði: Veginum var lokað árið 2009 með tilkomu nýs Suðurstrandarvegar milli Þorlákshafnar og Selvogs.
- Tröllatunguheiði: Veginum var lokað árið 2009 með tilkomu vegar um Arnkötludal og Þröskulda milli Reykhólasveitar og Steingrímsfjarðar.
- Eyrarfjall: Veginum var lokað árið 2008 með tilkomu endurbætts vegar með ströndinni og brúar yfir Mjóafjörð.
- Grjótháls: Veginum var lokað árið 2008 þegar hann var aflagður sem þjóðvegur.
- Almannaskarð: Veginum var lokað árið 2005 með tilkomu Almannaskarðsganga. Enn er þó fært upp í skarðið að norðanverðu að útsýnisstað við hápunkt skarðsins. Brekkunni niður í Skarðsfjörð, sem áður var brattasta brekkan á Hringveginum með 16,5% halla, hefur hinsvegar verið lokað.
- Kerlingarskarð: Veginum var lokað árið 2001 með tilkomu Vatnaleiðar sem liggur talsvert lægra í landinu.
- Breiðadalsheiði: Veginum var lokað árið 1996 með tilkomu Vestfjarðaganga.
- Botnsheiði: Veginum var lokað árið 1996 með tilkomu Vestfjarðaganga.
- Ólafsfjarðarmúli: Veginum var lokað árið 1991 með tilkomu Múlaganga undir múlann. Vegur þessi lá sæbrattur í 250 metra hæð yfir sjávarmáli utan í múlanum.
- Ólafsvíkurenni, gamli vegurinn: Veginum var lokað árið 1984 þegar gerður hafði verið nýr og betri vegur í fjörunni, en áður lá vegurinn skorinn inn í fjallið.
- Lónsheiði: Veginum var lokað árið 1981 með tilkomu nýs vegar um Hvalnes- og Þvottárskriður.
- Þingmannaheiði: Veginum var lokað árið 1971 þegar opnaður var nýr vegur meðfram ströndinni milli Vattarfjarðar og Vatnsfjarðar á Barðaströnd.
- Staðarskarð: Veginum var lokað árið 1954 með tilkomu vegarins um Vattarnesskriður.