Listi yfir aflagða vegi á Íslandi
Útlit
Þessum lista yfir aflagða vegi á Íslandi er ætlað að taka saman flesta þá markverðu vegakafla sem hafa áður tilheyrt vegakerfinu en eru nú aflagðir. Listanum er raðað í öfugri tímaröð eftir því hvenær kaflarnir voru aflagðir.
Vegir aflagðir að fullu
[breyta | breyta frumkóða]- Hjallaháls: Veginum var lokað árið 2023 með tilkomu vegar um Teigsskóg.
- Oddsskarð: Veginum var lokað árið 2017 með tilkomu Norðfjarðarganga milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Vegurinn upp í Oddsskarð Eskifjarðarmegin er þó enn opinn vegna skíðasvæðis Fjarðabyggðar.
- Óshlíð: Veginum var lokað árið 2010 með tilkomu Bolungarvíkurganga milli Hnífsdals og Bolungarvíkur og er nú aðeins fær hjólandi og gangandi vegfarendum.
- Öxarfjarðarheiði: Veginum var lokað árið 2010 með tilkomu vegar yfir Hólaheiði og Hófaskarð á Melrakkasléttu.
- Selvogsheiði: Veginum var lokað árið 2009 með tilkomu nýs Suðurstrandarvegar milli Þorlákshafnar og Selvogs.
- Tröllatunguheiði: Veginum var lokað árið 2009 með tilkomu vegar um Arnkötludal og Þröskulda milli Reykhólasveitar og Steingrímsfjarðar.
- Eyrarfjall: Veginum var lokað árið 2008 með tilkomu endurbætts vegar með ströndinni og brúar yfir Mjóafjörð.
- Grjótháls: Veginum var lokað árið 2008 þegar hann var aflagður sem þjóðvegur.
- Almannaskarð: Veginum var lokað árið 2005 með tilkomu Almannaskarðsganga. Enn er þó fært upp í skarðið að norðanverðu að útsýnisstað við hápunkt skarðsins. Brekkunni niður í Skarðsfjörð, sem áður var brattasta brekkan á Hringveginum með 16,5% halla, hefur hinsvegar verið lokað.
- Kerlingarskarð: Veginum var lokað árið 2001 með tilkomu Vatnaleiðar sem liggur talsvert lægra í landinu.
- Breiðadalsheiði: Veginum var lokað árið 1996 með tilkomu Vestfjarðaganga.
- Botnsheiði: Veginum var lokað árið 1996 með tilkomu Vestfjarðaganga.
- Ólafsfjarðarmúli: Veginum var lokað árið 1991 með tilkomu Múlaganga undir múlann. Vegur þessi lá sæbrattur í 250 metra hæð yfir sjávarmáli utan í múlanum.
- Ólafsvíkurenni, gamli vegurinn: Veginum var lokað árið 1984 þegar gerður hafði verið nýr og betri vegur í fjörunni, en áður lá vegurinn skorinn inn í fjallið.
- Lónsheiði: Veginum var lokað árið 1981 með tilkomu nýs vegar um Hvalnes- og Þvottárskriður.
- Þingmannaheiði: Veginum var lokað árið 1971 þegar opnaður var nýr vegur meðfram ströndinni milli Vattarfjarðar og Vatnsfjarðar á Barðaströnd.
- Staðarskarð: Veginum var lokað árið 1954 með tilkomu vegarins um Vattarnesskriður.
Markverðir vegakaflar aflagðir sem aðalvegir en eru enn færir
[breyta | breyta frumkóða]- Þorskafjarðarheiði: Vegurinn var áður notaður að sumarlagi sem stysta leið frá Vesturlandi og í Djúp. Vegurinn um Þröskulda og Arnkötludal leysti þessa leið af hólmi árið 2009 en vegurinn er þó enn opinn yfir hásumarið.
- Hrafnseyrarheiði: Vegurinn var áður á Vestfjarðavegi á milli Hrafnseyrar við Arnarfjörð og Þingeyrar við Dýrafjörð. Vegurinn um Dýrafjarðargöng leysti þessa leið af hólmi árið 2020 en vegurinn er þó enn opinn yfir hásumarið.
- Lágheiði: Vegurinn var áður aðalleiðin á milli Fljóta í Skagafirði og Ólafsfjarðar. Vegurinn um Héðinsfjarðargöng var opnaður árið 2010 og minnkaði hlutverk þessarar leiðar til muna en vegurinn er þó enn opinn yfir hásumarið.
- Siglufjarðarskarð: Vegurinn var áður á Siglufjarðarvegi milli Fljóta og Siglufjarðar en var leystur af hólmi af veginum um Strákagöng og Almenninga árið 1967 en vegurinn er þó enn opinn yfir hásumarið.
- Vaðlaheiði: Vegurinn var áður á þjóðvegi 1 á milli Akureyrar og Fnjóskadals en var leystur af hólmi af veginum um Víkurskarð árið 1986 en vegurinn er þó enn opinn yfir hásumarið.
- Hálsar (á Melrakkasléttu): Vegurinn var áður á aðalleiðinni milli Raufarhafnar og Þórshafnar en lagðist af sem aðalvegur þegar leiðin um Hófaskarð var opnuð árið 2010 en vegurinn er þó enn opinn yfir hásumarið.
- Möðrudalsfjallgarðar: Vegurinn var áður á aðalleiðinni á þjóðvegi 1 milli Möðrudals og Jökuldals. Vegurinn var leystur af hólmi af veginum um Háreksstaðaleið árið 2000 en vegurinn er þó enn opinn yfir hásumarið.
Aðrir áður mikilvægir vegakaflar
[breyta | breyta frumkóða]- Hvalfjarðarvegur: Vegurinn fyrir Hvalfjörð var áður á þjóðvegi 1 á milli Reykjavíkur og Borgarness. Vegurinn um Hvalfjarðargöng leysti þessa leið af hólmi árið 1998 en vegurinn er þó enn notaður sem varaleið fyrir Hvalfjarðargöngin og hefur mikla staðbundna þýðingu fyrir Kjós og Hvalfjarðarströnd.
- Víkurskarð: Vegurinn var áður á þjóðvegi 1 á milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Vegurinn um Vaðlaheiðargöng leysti þessa leið af hólmi árið 2018 en vegurinn er þó enn notaður sem varaleið fyrir Vaðlaheiðargöngin.
- Möðrudalsheiði: Vegurinn er á þjóðvegi 1 og Norðausturvegi á milli Möðrudals og Vopnafjarðar. Vegurinn liggur að hluta enn um þennan fjallveg en á hæsta hluta hans hefur hann verið lagður lægra í landið, árið 2000, u.þ.b. á þeim slóðum þar sem þjóðvegur 1 sveigir yfir á Háreksstaðaleið í átt til Jökuldals.
- Hellisheiði eystri: Vegurinn er enn í fullu gildi sem þjóðvegur og stysta leiðin að sumarlagi á milli Héraðs og Vopnafjarðar en mikilvægi hans er nú talið minna en áður.
- Breiðdalsheiði: Vegurinn var til skamms tíma eða árið 2017 hluti þjóðvegar 1. Vegurinn er enn í fullu gildi sem þjóðvegur en er nú eingöngu opinn að sumarlagi.