Fara í innihald

Vestfjarðagöng

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Munni jarðganganna í Tungudal

Göng undir Breiðadals- og Botnsheiði, Vestfjarðagöng, (vegir nr. 60 og 65) eru þríarma jarðgöng undir Botns- og Breiðadalsheiðar milli Skutulsfjarðar, Önundarfjarðar og Súgandafjarðar á Vestfjörðum. Göngin voru vígð 14. september 1996 og tengja saman byggð á Ísafirði, Suðureyri og Flateyri. Þau eru 9.120 m og eru lengstu jarðgöng á Íslandi en þó eru Héðinsfjarðargöng samanlagt lengri (7.100 + 3.900 m).[1] Tungudalsleggur (sem liggur úr Skutulsfirði) er um 2.000 m langur með tveimur akgreinum, Breiðadalsleggur (sem liggur úr Önundarfirði) er um 4.000 m og Botnsdalsleggur (sem liggur frá Súgandafirði) er um 3.000 m. Þeir eru báðir með aðeins einni akrein og því þurfa bílar að mætast í sérstökum útskotum.

Jarðgöngin voru mesta samgöngumannvirki Íslands þegar þau voru tekin í notkun.[2] Þau leystu af hólmi fjallvegi sem voru jafnan lokaðir drjúgan hluta vetrar. Þannig rufu göngin einangrun þorpanna á norðanverðum Vestfjörðum.

Verktakar og framkvæmd

[breyta | breyta frumkóða]

Framkvæmdir við gangagerðinina fóru fram á árunum 1991–96. Aðalverktaki var Vesturís sf. sem var sameignarfyrirtæki Ístaks hf. í Reykjavík, Skanska AB í Svíþjóð, Selmer A/S í Noregi og E. Pihl & Sön A/S í Danmörku. Ístak hf. var í forsvari fyrirtækjanna. Póllinn hf. á Ísafirði var rafverktaki við ljósa- og dyrabúnað.[2]

Göngin opnuð á framkvæmdatímanum

[breyta | breyta frumkóða]

Umferð var hleypt á göngin tímabundið veturinn 1995–96 þegar þau voru ófullgerð. Þá var sérstök jólaopnun milli Ísafjarðar og Súgandafjarðar í nokkra daga fyrir og um jólin 1994.[3] Í kjölfar snjóflóðsins sem féll á Flateyri í október 1995 fór björgunarfólk frá Ísafirði í gegnum göngin yfir í Önundarfjörð.[4]

Vatnsæð opnast

[breyta | breyta frumkóða]

Í júlí 1993 opnaðist mikil vatnsæð í Breiðadalslegg ganganna. Í fyrstu virtist vatnsmagnið vera um 2000 lítrar á sekúndu eða á við tífalda vatnsþörf byggðarinnar á Ísafirði. Nokkrar skemmdir urðu, meðal annars á tækjum en vatnsaginn hreif allt með sér þegar æðin opnaðist. Tafði þetta framkvæmdina eitthvað. Vatnið úr göngunum hefur síðan í júní 1995 verið nýtt af vatnsveitu Ísafjarðarbæjar. Vatnið þótti reglulega gott enda síað í gegnum berg langa leið.[5] Afrennslisvatnið í göngunum hefur verið virkjað í Tungudalsvirkjun Orkubús Vestfjarða. Neysluvatn fyrir Ísafjörð og Hnífsdal kemur úr jarðgöngunum og er meðalnotkun um 150 lítrar á sekúndu. Afrennsli ganganna eftir vatnstöku vatnsveitu er á bilinu 500 til 700 lítrar á sekúndu.[6]

Umferð um göngin

[breyta | breyta frumkóða]
Vestfjarðargöng greinast
Meðalumferð um göngin
Tungudalur Breiðadalur Botnsdalur
Ársumferð 720 520 270
Vetrarumferð 480 315 195
Sumarumferð 1000 790 375

Taflan sýnir meðaltalsumferð á sólarhring í hverjum legg fyrir sig. Sumarumferðin (SDU) á við mánuðina júní, júlí, ágúst og september en vetrarumferð við mánuðina janúar, febrúar, mars og desember.[7]

  • „Hver eru lengstu göng Íslands?“. Vísindavefurinn.
  1. „Jarðgöng á vegakerfinu“. Vegagerðin. Sótt 8. mars 2021.
  2. 2,0 2,1 „Mesta samgöngumannvirki landsins“. www.mbl.is. Morgunblaðið. 21. janúar 1995. Sótt 8. mars 2021.
  3. „Vestfirska fréttablaðið - 49. tölublað (20.12.1994) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 8. mars 2021.
  4. „Dagblaðið Vísir - DV - 245. tölublað (26.10.1995) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 8. mars 2021.
  5. „Vestfirska fréttablaðið - 25. tölublað (28.06.1995) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 8. mars 2021.
  6. „Orkubú Vestfjarða | Tungudalsvirkjun í Skutulsfirði við Ísafjarðardjúp“. www.ov.is. Sótt 8. mars 2021.
  7. „Umferðartölur á korti“. Vegagerðin. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. mars 2021. Sótt 8. mars 2021.