Héðinsfjarðargöng

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Héðinsfjarðargöng eru tvenn jarðgöng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar með viðkomu í eyðifirðinum Héðinsfirði. Göngin eru 3,9 km (Siglufjörður-Héðinsfjörður) og 7,1 km löng (Héðinsfjörður-Ólafsfjörður). Vegalengdin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar er í heild 15 km um göngin. Héðinsfjarðargöngin voru opnuð 2. október 2010. [1]

Forsaga[breyta | breyta frumkóða]

Hugmyndir um tengingu Dalvíkur, Ólafsfjarðar og Siglufjarðar með jarðgöngum á norðanverðum Tröllaskaga komu fyrst fram á ráðstefnu Verkfræðingafélags Íslands árið 1981[2]. Ári síðar voru boraðar tilraunaholur í Ólafsfjarðarmúlann og þingsályktun um gerð jarðganga Dalvíkur og Ólafsfjarðar var samþykkt á Alþingi árið 1983.

Árið 1990 voru Múlagöngin opnuð  og sama ár kom fram þingsályktunartillaga um jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar um Héðinsfjörð[2]. Árið 2000 voru Héðinsfjarðargöng meðal fyrstu verkefna nýrrar Jarðgangaáætlunar og hófst gangagerðin í september 2006.

Útboð verksins[breyta | breyta frumkóða]

Upphaflega var ætlunin sú að göngin yrðu boðin út með Fáskrúðsfjarðargöngunum á Austurlandi en fallið var frá því og verkefnin boðin út í sitt hvoru lagi í mars 2003. Í júlí sama ár ákvað ríkisstjórn Íslands að hafna öllum tilboðum sem höfðu borist í verkið vegna þenslu í efnahagslífinu og fresta því um óákveðinn tíma. Þetta gramdist íbúum og sveitarstjórnum á Siglufirði og Ólafsfirði sem litu svo á að þingmenn hefðu gefið loforð fyrir Alþingiskosningarnar í maí sama ár um að ráðist yrði í gerð ganganna.

Frestunin hafði málaferli í för með sér þar sem Íslenskir aðalverktakar og norska fyrirtækið NCC sem áttu saman lægsta tilboðið í verkið fóru fram á skaðabætur frá Vegagerðinni því ákvörðunin um að hafna öllum tilboðum hefði verið ólögmæt. Kærunefnd útboðsmála leit svo á að ákvörðunin um að hafna tilboðunum hefði verið ólögleg og að Vegagerðin væri skaðabótaskyld. Málið fór fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem sýknaði Vegagerðina af öllum kröfum sækjenda þann 15. apríl 2005.

Á borgarafundi á Siglufirði 19. mars 2005 tilkynnti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra að göngin yrðu boðin út á ný haustið 2005, framkvæmdir gætu hafist um mitt ár 2006 og þeim lyki 2009. Verklok töfðust um ár, aðallega vegna vandamáls með vatn í göngunum. Héðinsfjarðargöng voru vígð 2. október 2010.

Siglufjörður og Ólafsfjörður sameinuðust í sveitarfélagið Fjallabyggð árið 2006.

Deilur[breyta | breyta frumkóða]

Verkefnið var umdeilt bæði vegna kostnaðar og umhverfisáhrifa. Andstæðingar framkvæmdarinnar bentu á að hún þjóni hagsmunum tiltölulega fárra miðað við mikinn kostnað og töldu að önnur samgönguverkefni ættu að vera framar í forgangsröðinni. Aðrir héldu því fram að göngin væru sjálfsögð vegabót, framkvæmdin gæfi Siglfirðingum aukna möguleika í ferðaþjónstu og samvinnu við sveitarfélög í Eyjafirði, auk þess sem framkvæmdin styrki Eyjafjarðarsvæðið í heild.

Fjölmiðlaumfjöllun um væntanleg samfélagsáhrif Héðinsfjarðarganganna var almennt jákvæð en umfjöllun um kostnað, arðsemi og umferðaröryggi var almennt neikvæð[3]

Samfélagsáhrif Héðinsfjarðarganganna[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknarverkefnið Samgöngubætur og byggðaþróun: Félagsleg, efnahagsleg og menningarleg áhrif Héðinsfjarðarganga á mannlíf á norðanverðum Tröllaskaga hófst haustið 2008[4]. Rannsóknarverkefninu var ætlað að leggja heildstætt mat á stöðu Fjallabyggðar og þær breytingar sem vænta mátti í kjölfar opnunar ganganna. Jafnframt var verkefninu ætlað að styrkja fræðilegan grundvöll fyrir mat á samfélagslegum áhrifum jarðgangagerðar[5].

Verkefnið var að stórum hluta unnið með tilstyrk Rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar sem veitti styrk til framkvæmdar þess árin 2009–2014. Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri var stjórnandi rannsóknarinnar en á annan tug háskólakennara og sérfræðinga sem tengdust Háskólanum á Akureyri og ríflega sjötíu nemendur unnu að rannsókninni[6].

Niðurstöður ársins 2015 sýna að umferð hefur aukist umfram spár[7]. Talsverð vinnusókn er nú milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar[8] og mikill meirihluti íbúanna sækir verslun, þjónustu, viðburði eða félagsstarf milli kjarnanna. Efnahagslíf í Fjallabyggð hefur eflst og aukin ánægja er með vöruverð og fjölbreytni í verslun[9]. Siglufjörður er orðinn hluti ferðamannasvæðis Eyjafjarðar og áfangastaður ferðamanna milli Akureyrar og höfuðborgarsvæðisins[10]. Gistingum ferðamanna hefur þó ekki fjölgað og spár um aukna umferð á hringleið um Skagafjörð og Eyjafjörð ekki gengið eftir. Talsverð hagræðing hefur orðið hjá ríki og sveitarfélagi en þar gætir einnig áhrifa hrunsins. Aukin ánægja er með menntunartækifæri en minni ánægja með löggæslu og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Rígur virðist ekki hafa aukist milli byggðakjarnanna þótt Ólafsfirðingar telji á sig hallað í opinberri starfsemi[11]. Til skemmri tíma hefur fólki fjölgað á Siglufirði en ekki í Ólafsfirði[12]. Yngri konum, börnum og erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað og yngra fólk er tilbúnara til að búa þar áfram.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Héðinsfjarðargöngin opnuð í dag; grein af Vísi.is 2010
  2. 2,0 2,1 „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. október 2015. Sótt 3. október 2015.
  3. Atli Þór Ægisson, 2011
  4. Samfélagsáhrif Héðinsfjarðarganganna Geymt 5 október 2015 í Wayback Machine
  5. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. október 2015. Sótt 3. október 2015.
  6. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. október 2015. Sótt 2. október 2015.
  7. Helstu niðurstöður rannsóknar á samfélagsáhrifum Héðinsfjarðarganganna Geymt 4 október 2015 í Wayback Machine
  8. http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0966692314002142
  9. http://byggdathroun.is/hedinsfjardargong/wp-content/uploads/2015/10/Efnahagur-einstaklinga.pdf
  10. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2016. Sótt 3. október 2015.
  11. http://byggdathroun.is/hedinsfjardargong/wp-content/uploads/2015/10/Félagslegur-auður-í-Fjallabyggð.pdf
  12. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. október 2015. Sótt 3. október 2015.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]