Hvalfjarðarvegur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort
Hvalfjarðarvegurinn undir Þyrli

Hvalfjarðarvegur eða þjóðvegur 47 er sá hluti Hringvegarins sem lá um Hvalfjörðinn áður en hann var færður í Hvalfjarðargöngin árið 1998. Vegurinn er 61 km að lengd.

Á sínum tíma var vegurinn mjög varasamur vegna mikillar umferðar og erfiðra aðstæðna. Bundið slitlag komst ekki á allan veginn fyrr en laust eftir 1990. Um tveimur árum áður en Hvalfjarðargöngin opnuðu var gerð ný brú yfir Botnsvog og tvær mjög varasamar einbreiðar brýr yfir Botnsá og Brunná voru aflagðar, en við Botnsá höfðu fjölmörg alvarleg umferðarslys orðið.

Við veginn um Hvalfjörð voru þrjár vegasjoppur. Hinn frægi Botnsskáli stóð við brúna yfir Botnsá, honum var lokað um það leyti sem vegurinn var færður í botni fjarðarins. Við Miðsand var annar skáli og sá þriðji var yst við bæinn Ferstiklu, þar sem eru vegamót Dragavegar (520). Með minnkandi umferð tók einnig að halla undan viðskiptum hjá hinum skálunum.

Í dag er vegurinn um Hvalfjörð fáfarinn almennt, en á góðviðrisdögum að sumarlagi er þó töluverð frístundaumferð um veginn, enda hentar hann vel til sunnudagsbíltúra. Í Hvalfjarðarsveit hefur orðið töluverð uppbygging í ferðaþjónustu á síðustu árum, auk þess sem Kjósin nýtur vaxandi vinsælda til búsetu. Vegurinn er einnig notaður sem varaleið fyrir Hvalfjarðargöngin, og þá getur umferðin aukist verulega tímabundið.

Vegnúmer 47 var áður notað á stuttan kafla núverandi Reykjanesbrautar, næst Flugstöð Leifs Eiríkssonar, eða frá hringtorginu við Garðsveg (45). Reykjanesbraut lá á þeim tíma til Sandgerðis, en sá kafli fékk númerið 429 við breytingarnar.