Linux

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Mörgæsin Tux er lukkudýr Linux.

Linux (eða GNU/Linux) er UNIX-legt og POSIX-samhæft frjálst stýrikerfi sem samanstendur af Linuxkjarnanum og ýmsum kerfishugbúnaði, þar á meðal GNU-tólum. Stýrikerfið dregur nafn sitt af finnska forritaranum Linus Torvalds sem gaf út fyrstu útgáfu Linuxkjarnans 5. október 1991. Free Software Foundation sem þróuðu GNU-tólin hafa barist fyrir því að stýrikerfið sé kallað „GNU/Linux“ til að leggja áherslu á framlag GNU-verkefnisins til hugbúnaðarins, en það er umdeilt.

Upphaflega var Linux þróað sem stýrikerfi fyrir tölvur með Intel x86-samhæfða örgjörva en það hefur síðan þá verið þýtt fyrir fleiri vélbúnaðarútfærslur en nokkuð annað stýrikerfi. Vegna Android-stýrikerfisins sem notast við Linux í grunninn og er mikið notað í snjallsíma og spjaldtölvur er það nú langalgengasta alhliða stýrikerfi heims. Linux er líka leiðandi stýrikerfi á netþjónum og ofurtölvum en er einungis með 1,5% hlut á borðtölvum. Chrome OS sem líka er byggt á Linux er algengt á ódýrum fartölvum. Linux er líka algengt sem fastbúnaður í ívafskerfum eins og sjónvarpstölvum, beinum, leikjatölvum og snjallúrum þar sem stýrikerfið er sérsniðið að vélbúnaðinum.

Þróun Linux er eitt þekktasta dæmið um frjálsa og opna hugbúnaðarþróun. Frumkóði stýrikerfisins er aðgengilegur og má nota, breyta og dreifa samkvæmt skilyrðum opinna hugbúnaðarleyfa eins og GNU General Public License, hvort sem er í fjárhagslegum tilgangi eða ekki. Linux fyrir notendatölvur og netþjóna kemur yfirleitt fyrir sem dreifingarútgáfa sem inniheldur Linuxkjarnann, kerfishugbúnað, forritunarsöfn og mikinn fjölda notendaforrita sem eru sniðin að markhópi útgáfunnar. Algengar Linuxútgáfur eru Debian, Ubuntu, Linux Mint, Fedora, openSUSE, Arch Linux og Gentoo og leyfisskyldu útgáfurnar Red Hat Enterprise Linux og SUSE Linux Enterprise Server.

Linuxútgáfur fyrir borðtölvur eru oftast með gluggakerfi eins og X11, Mir eða Wayland, og skjáborðsumhverfi eins og GNOME eða KDE. Sumar útgáfur notast við léttari skjáborð eins og LXDE eða Xfce. Útgáfur fyrir netþjóna eru oft lausar við myndræn notendaskil eða bjóða upp á þau sem valkost en innihalda gjarnan miðbúnað eins og LAMP-hugbúnaðarstæðuna. Þar sem Linux er frjáls hugbúnaður getur hver sem er búið til eigin útgáfu miðað við ætluð not.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirrennarar[breyta | breyta frumkóða]

Ken Thompson og Dennis Ritchie vinna við PDP-11-tölvu hjá Bell Labs.

Stýrikerfið Unix var búið til árið 1969 í rannsóknarstofnun bandaríska símafyrirtækisins AT&T, Bell Labs, af Ken Thompson, Dennis Ritchie, Douglas McIlroy og Joe Ossanna. Fyrsta útgáfa þess var forrituð í smalamáli og var gefin út árið 1971. Síðar var stýrikerfið endurskrifað frá grunni í forritunarmálinu C af Dennis Ritchie fyrir utan kjarnann og nokkra viðmótshluta. Með því að skrifa frumkóðann í æðra forritunarmáli var auðveldara að aðlaga kerfið að ólíkum vélbúnaði.

Vegna bandarískra laga um bann við einokun gat AT&T ekki hafið starfsemi í tölvugeiranum og neyddist til að gefa hverjum sem var leyfi til að nota hugbúnaðinn sem Bell Labs þróaði. Notkun Unix breiddist því hratt út meðal fyrirtækja og stofnana. Í kjölfar dómsmála sem neyddu AT&T til að skipta fyrirtækinu upp árið 1984 losaði það sig við Bell Labs sem við það varð sjálfstætt fyrirtæki og laust undan takmörkunum. Bell Labs hófu því að selja Unix sem leyfisskyldan hugbúnað.

Árið 1983 hóf Richard Stallman að þróa GNU-verkefnið sem gekk út á að búa til fullbúið Unix-legt stýrikerfi sem væri eingöngu gert úr frjálsum hugbúnaði. Árið 1985 stofnaði Stallman Free Software Foundation. Hann samdi fyrstu útgáfu GPL-hugbúnaðarleyfisins árið 1989. Um 1990 voru hann og samstarfsfólk hans búin að þróa mikið af grunnhugbúnaði stýrikerfisins eins og þýðanda, textaritla, Unix-skel og gluggakerfi, en vantaði enn kjarna, rekla og púka.

Um sama leyti voru hjónin Lynne Jolitz og William Jolitz byrjuð að þróa eigin útgáfu af Unix, 386BSD, sem byggði á Berkeley-útgáfu Unix, BSD, sem dreift var innan háskólans. Vegna leyfisvandamála kom fyrsta útgáfa þess ekki út fyrr en árið 1992. Stýrikerfin NetBSD, OpenBSD og FreeBSD eru afkomendur 386BSD.

Linus Torvalds, höfundur Linux, hefur sagt að ef hann hefði haft aðgang að frjálsum stýrikerfiskjarna á borð við hinn vænta GNU-kjarna eða 386BSD hefði hann líklega aldrei byrjað að þróa Linuxkjarnann.

Árið 1987 gaf bandarískur tölvunarfræðikennari við Vrije Universiteit í Amsterdam, Andrew S. Tanenbaum, út kennslubók í forritun stýrikerfa, Operating Systems: Design and Implementation. Bókin innihélt útfærslu á Unix-legu stýrikerfi, MINIX, sem var skrifuð frá grunni og fyrst og fremst hugsuð sem námstæki. Ástæðan var sú að Tanenbaum hafði áður notað frumkóða Unix við kennslu en gat það ekki lengur vegna breytinga á notkunarleyfum Bell Labs. Þótt frumkóði MINIX væri þannig aðgengilegur var einungis heimilt að nota hann til kennslu til ársins 2000 þegar hann kom út með frjálsu leyfi.

Þróun Linux[breyta | breyta frumkóða]

Tveir disklingar með einni af fyrstu útgáfum Linux.

Linus Torvalds var nemandi í tölvunarfræði við Helsinkiháskóla og hóf að þróa eigin stýrikerfiskjarna árið 1991 vegna þess að hann var óánægður með takmarkanirnar sem giltu um notkun MINIX-kóðans í bók Tanenbaums. Kerfið var þróað fyrir 80386-örgjörvann í tölvu Torvalds og hann notaði GNU C-þýðandann. 25. ágúst 1991 setti hann kerfið sem hann hafði skrifað á Usenet-hópinn comp.os.minix og óskaði eftir tillögum að úrbótum.

Upphaflega var kjarninn með notkunarleyfi sem takmarkaði notkun í fjárhagslegum tilgangi en árið eftir var hann gefinn út með sama GPL-leyfi og GNU-hugbúnaðurinn sem hann notaði. Ýmsir urðu til þess að taka þátt í þróun kjarnans og aðlaga allan GNU-hugbúnaðinn fyrir hann sem gerði Linux að fullbúnu stýrikerfi.

Upphaflega vildi Torvalds kalla kerfið Freax en Ari Lemmke, einum af samstarfsmönnum hans, líkaði ekki við það nafn og tók upp á því að kalla það Linux.

Almenn notkun[breyta | breyta frumkóða]

Notkun stýrikerfisins í vinnsluumhverfi hófst eftir miðjan 10. áratug 20. aldar. Stofnanir á borð við NASA hófu að skipta út dýrum ofurtölvum fyrir tölvuklasa sem notuðu Linux. Í kjölfarið hófu fyrirtæki á borð við Dell, IBM og Hewlett-Packard að bjóða stuðning við Linux til að komast undan ofurvaldi Microsoft á borðtölvumarkaðnum.

Linux náði fljótlega miklum vinsældum sem stýrikerfi fyrir netþjóna þar sem það bauð upp á frjálsa hugbúnaðarstæðu fyrir vefþjónustur með Apache-vefþjóninum, gagnaþjóna á borð við MySQL og PostgreSQL og vefforritunarmálin PHP, Perl og Python, svokallaða LAMP-hugbúnaðarstæðu. Talið er að tæp 60% allra netþjóna keyri á Linux.

Notkun Linux á notendatölvum óx hins vegar hægt en þar hefur Microsoft Windows lengi verið með yfirburðastöðu. Linux hefur verið lýst sem of tæknilegu kerfi fyrir almenna notendur auk þess sem takmarkaður stuðningur við jaðartæki stóð notkun þess fyrir þrifum. Lengi vel var hlutur Linux á borðtölvum talinn vera innan við 1% en er nú talinn vera milli 1,5% og 2% (um 2,5% á Íslandi)[1]. Nýjar notendavænni dreifingarútgáfur á borð við Ubuntu (frá 2004) og Linux Mint (frá 2006) áttu stóran þátt í að auka almenna notkun stýrikerfisins á notendatölvum.

Árið 2008 setti Google Android-stýrikerfið á markað, en það notast við Linuxkjarna og sérstakt notendaviðmót sem er skrifað að hluta í Java. Það er því umdeilt hvort Android telst sérstakt stýrikerfi eða útgáfa af Linux. Android er með tæplega 60% markaðshlutdeild á snjallsíma- og spjaldtölvumarkaðnum (tæp 40% á Íslandi)[2]. Chrome OS, sem líka er frá Google, notar líka Linuxkjarnann.

Nokkrar útgáfur GNU/Linux[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Top 7 Desktop OSs on June 2015“, skoðað þann 13. nóvember 2015.
  2. „Top 8 Mobile and Tablet Operating Systems June 2015“, skoðað þann 13. nóvember 2015.
Wiki letter w.svg  Þessi hugbúnaðargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.