Smalamál

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Smalamál[1] er næsta kynslóð forritunarmála á eftir vélamáli. Smalamál gerir forriturum kleift að skrifa forrit á skiljanlegri og læsilegri hátt en áður var hægt með vélamáli þar sem það notast við skammstafanir fyrir skipanir og algeng talnakerfi í staðinn fyrir þær bitarunur sem vélamál skilur. Engu að síður er beint samhengi milli skipana í smalamáli og vélamáli og smalamálskóði er því mismunandi eftir því hvaða örgjörva hann er skrifaður fyrir, líkt og vélamálskóði. Það er líka mun erfiðara að skrifa forrit með smalamáli en með þeim æðri forritunarmálum sem almennt eru notuð í dag.

Skipanir smalamáls þarf að túlka yfir í vélamál til þess að örgjörvinn geti keyrt þær og er það gert með sérstöku forriti sem heitir smali. Forritarinn þarf að vera mjög nákvæmur, fylgjast grannt með öllum smáatriðum og hafa góða þekkingu á örgjörvanum. Vel unnin smalamálsforrit geta stundum keyrt hraðar og notað minna vinnsluminni og önnur vélbúnaðarúrræði en samskonar forrit sem skrifuð eru í æðri forritunarmálum.

Smalamál komu fyrst fram á sjónarsviðið á 6. áratugnum og voru á þeim tíma kölluð annarrar kynslóðar forritunarmál. Þau auðvelduðu forritun til muna miðað við fyrstu kynslóðar forritunarmál og drógu úr endurteknum útreikningum og notkun talnaruna sem erfitt var að muna. Frá því á 9. áratugnum hefur smalamál vikið fyrir æðri forritunarmálum og er nú fyrst og fremst notað þar sem þarf að eiga við vélbúnaðinn beint, t.d. í reklum, innfelldum kerfum og rauntímakerfum.

Flestir nútímasmalar bjóða upp á ýmsa aukavirkni til að auðvelda villuleit, stjórna smöluninni og nota fjölva.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. smalamál h.k. Geymt 17 september 2014 í Wayback Machine (assembly language)