Hertogenbosch

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Skjaldarmerki
Upplýsingar
Hérað: Norður-Brabant
Flatarmál: 91,16 km²
Mannfjöldi: 140.790 (31. des 2010)
Þéttleiki byggðar: 1.543/km²
Vefsíða: www.s-hertogenbosch.nl
Lega
Staðsetning Eindhoven í Hollandi

Hertogenbosch (hollenska: ‘s-Hertogenbosch eða bara Den Bosch) er höfuðborg héraðsins Norður-Brabant í Hollandi og er með 140 þúsund íbúa.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Hertogenbosch er hafnarborg við Maas nyrst í héraðinu Norður-Brabant og frekar sunnarlega í Hollandi. Næstu borgir eru Breda til suðvesturs (40 km), Eindhoven til suðurs (30 km) og Nijmegen til norðausturs (45 km). Fyrir utan fljótið Maas, renna árnar Aa og Dommel einnig um borgarsvæðið.

Fáni og skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Fáni borgarinnar samanstendur af fimm láréttum röndum, þremur rauðum og tveimur hvítum. Rendur þessar vísa til Habsborgara, sem réðu yfir Niðurlöndum fram á 16. öld. Auk þess er svartur ferningur efst í vinstra horninu með gulu tré. Tréð er einkennismerki borgarinnar og hefur verið síðan á 13. öld. Það vísar til skóganna í kring (sjá einnig Orðsifjar).

Skjaldarmerki borgarinnar er gulllitað tré með hvítum og rauðum ljónum og tvíhöfða svörtum erni á gulum grunni. Elstu hlutarnir eru frá Hinrik I. frá Brabant allar götur frá 12. öld. Örninn bættist síðar við, en hann er merki Habsborgaranna. 1978 var skjaldarmerkið endanlegt, nema hvað bærinn Rosmalen var innlimaður 1996 og var merkinu þá breytt lítilsháttar.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Hertogenbosch er hollenska og merkir skógur hertogans (bosch = skógur eða buskur). Rétt hollensk stafsetning er 's-Hertogenbosch, en litla s-ið á undan er ákveðinn greinir (eða það sem eftir er af honum). Borgin gengur einnig undir alþýðuheitinu Den Bosch, sem merkir skógurinn. Hún heitir Herzogenbusch á þýsku og Bois-le-Duc á frönsku. Merkingin er alltaf sú sama.

Saga Hertogenbosch[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

1185 fékk Hertogenbosch borgarréttindi af Hinrik I af Brabant. Borgin stóð á sandhrygg, sem umkringdur var mýrlendi og þótti hernaðarlega mikilvæg, enda taldist hún óvinnanleg. Verslað var með vín frá Köln, sandstein frá Liege og fisk frá Eystrasalti. Borgin stóð í miklum blóma fram á miðja 16. öld.

Frelsisstríð[breyta | breyta frumkóða]

Þegar frelsisstríð Hollendinga hófst á miðri 16. öld gekk borgin í lið með Habsborgurum (Spánverjum) og var þá næststærsta borgin í norðurhéruðum Niðurlanda á eftir Utrecht. Því gerði Máritz af Óraníu nokkrum sinnum umsátur um borgina, en Claude de Berlaymont, aðalhöfuðsmaður Spánverja í borginni, náði ávallt að verja hana. Það var ekki fyrr en 1629 sem borgin féll en þá gerði Friðrik af Óraníu áhlaup á hana. Hann breytti farvegi ánna Aa og Dommel, lagði 40 km langan vatnagarð og þurrkaði þannig upp mýrarnar í kringum borgina. Eftir það sat hann í þrjá mánuði um borgina og gáfust Spánverjar þá upp. Frelsun Hertogenbosch var mikið reiðarslag fyrir Spánverja í stríðinu. Við fall borgarinnar varð hún endanlega hollensk.

Frakkar[breyta | breyta frumkóða]

Frakkar skjóta á Hertogenbosch 1794 og hertaka hana í kjölfarið

Á hamfaraárinu 1672 (rampjaar) biðu Hollendingar ósigur í verslunarstríði við Englendinga. Loðvík XIV Frakklandskonungur notfærði sér veikar varnir Hollendinga og réðist inn í landið. Hann sat um Hertogenbosch, en borgin stóðst áhlaup hans. Að lokum urðu Frakkar frá að hverfa. Frakkar mættu aftur til leiks 1794 er byltingarher hertóku Niðurlönd. Herforinginn Charles Pichegru hertók Hertogenbosch án teljandi bardaga. Það voru Prússar sem frelsuðu borgina 1814, er Frakkar voru endanlega hraktir úr Niðurlöndum. Eftir brotthvarf þeirra voru varnir borgarinnar enn styrktar og jafnframt harðbannað að byggja utan borgarmúranna. Þetta leiddi til mikilla þrengsla í Hertogenbosch, en á þeim árum var ungbarnadauði meiri þar en í öðrum hollenskum borgum.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

1815 rauf Belgía sig frá konungdæmi Niðurlanda. Það með splittaðist héraðið Brabant í norður- og suðurhluta. Norður-Brabant varð að héraði í Hollandi og var Hertogenbosch valin sem höfuðborg hins nýja héraðs. Nasistar hertóku Hertogenbosch 1940. Ein af fáum útrýmingarbúðum nasista í vesturhluta Evrópu var sett upp við borgarmörkin. Þar voru 30 þúsund manns haldið föngum, þar af 12 þúsund gyðingum. Árið 1943 voru öll börn í búðunum tekin burt og flutt til útrýmingarbúðanna Sobibor í Póllandi, þar sem þau voru öll myrt. Það var hersveit frá Wales sem frelsaði Hertogenbosch 24. – 27. október 1944 og hrakti nasista burt.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Jazz in Duketown er stærsta jazzhátíð utandyra í Hollandi. Hún er haldin á tíu sviðum víðs vegar í miðborginni.

Bourgondisch ‘s-Hertogenbosch er árleg matarhátíð, þar sem ýmislegt matarkyns frá Búrgúnd er á borðstólum. Ekki er hægt að greiða með evrum, heldur með sérstakri mynd sem kallast Gerritje. Einn slíkur samsvarar 1,10 evru. Hátíðin er haldin í september.

Mikið er haldið upp á Karneval í borginni, en þar heitir hátíðin Oeteldonk. Þar í borg er einnig eina karnevalssafnið í Hollandi.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er FC Den Bosch sem varð hollenskur meistari 1948. Félagið rokkar í dag á milli 1. og 2. deildar. Þekktasti knattspyrnumaður félagsins er eflaustRuud van Nistelrooy.

Í körfubolta er félagið EiffelTowers árangursríkt. Það hefur nokkrum sinnum orðið hollenskur meistari og komst í úrslit í Evrópubikarkeppninni 1979 og 1982.

Í íshokkí er félagið Red Eagles ‘s-Hertogenbosch í efstu deild og spilar í Evrópukeppni.

Hertogenbosch var ráspunktur fyrir hjólreiðakeppnina Tour de France 1996 og Ronde van Nederland árið 2000.

Ordina Open er alþjóðlegt tennismót sem haldið er í borginni árlega. Keppt er á grasi.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Hertogenbosch viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Málverkið Lostagarðurinn eftir Hieronymus Bosch

Byggingar og kennnileiti[breyta | breyta frumkóða]

  • Jóhannesarkirkjan er kaþólsk dómkirkja í borginni. Hún var reist 1220-1530 og er ein helsta gotneska byggingin í Hollandi. Kirkjan varð kalvínísk 1629, en breytt í kaþólska kirkju á ný 1813. Að innan eru merkar höggmyndir og eitt elsta kirkjuorgel heims sem enn er í notkun en það er frá 16171635. Árið 2007 var settur gluggi yfir vesturinnganginn sem sýnir helju, til minningar um hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001.
  • Noordbrabants Museum er listaverkasafnið í borginni. Þar var stofnað 1836 og hefur að geyma mesta málverkasafn málarans Hieronymus Bosch. Auk þess er þar að finna ýmis verk eftir Pieter Brueghel og Vincent van Gogh.
  • Katrínarkirkjan er gömul kirkja í Hertogenbosch. Hún var upphaflega kaþólsk, en var kalvínísk eftir siðaskiptin. Napoleon fyrirskipaði að skila kirkjunni til kaþólsku kirkjunnar og er hún það enn í dag. Hins vegar skemmdist kirkjan talsvert á franska tímanum, þannig að núverandi hringlaga bygging var reist 1844. Kirkjan er nefnd eftir heilagri Katrínu frá Alexandríu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]