Fara í innihald

Víktor Bút

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Viktor Bout)
Víktor Bút
Виктор Бут
Fæddur13. janúar 1967 (1967-01-13) (57 ára)
ÞjóðerniRússneskur
StörfVopnasali
Flokkur Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn
MakiAlla Bút (g. 1992)
BörnJelízaveta Bút

Víktor Anatoljevítsj Bút (rússneska: Ви́ктор Анато́льевич Бут; f. 13. janúar 1967) er rússneskur vopnasali og stjórnmálamaður. Í kringum aldamótin skipulagði hann stórfellt vopnasmygl frá Austur-Evrópu til Afríku og Mið-Austurlanda í gegnum fyrirtæki sín. Bút hlaut viðurnefnið „sölumaður dauðans“ eftir að breski ráðherrann Peter Hain las skýrslu um hann fyrir Sameinuðu þjóðirnar árið 2003, vegna umfangsmikillar smyglstarfsemi hans og brota hans gegn viðskiptabönnum.

Víktor Bút fæddist árið 1967 í Dúsjanbe, höfuðborg tadsíska sovétlýðveldisins, eins af aðildarríkjum Sovétríkjanna. Hann fór í málanám hjá tungumálaskóla sovéska hersins og lærði ensku, frönsku og portúgölsku. Hann nam næst hagfræði í háskóla hersins og gekk í flugherinn. Því hefur verið haldið fram að Bút hafi starfað sem njósnari á vegum sovésku leyniþjónustunnar KGB og hafi verið staddur á hennar vegum í Angóla þegar Sovétríkin voru leyst upp árið 1991. Bút hafnar því sjálfur að hafa nokkurn tímann starfað fyrir KGB.[1]

Í glundroðanum eftir hrun Sovétríkjanna fór Bút að kaupa sér flugvélar og notaði þær í fyrstu til að flytja vörur á borð við sverðliljur, kjúklinga, demanta, vopn og friðargæsluliða. Árið 1993 flutti Bút starfsemi sína til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og hagnaðist á því að flytja vörur til Dúbaí og selja þær nýríkum Rússum.[1]

Bút segist hafa kynnst áhrifamönnum á borð við kongóska einræðisherrann Mobutu Sese Seko og afganska stríðsherrann Ahmed Shah Massoud á tíunda áratugnum. Mannréttindavaktin fór að fylgjast með starfsemi Bút árið 1995. Árið 2000 urðu Bandaríkjamenn þess áskynja að Bút væri viðriðinn mörg umfangsmestu vopnaviðskipti í Afríku, Mið-Austurlöndum og Afganistan og ræki jafnframt best tengda sölunet heims í ólöglegum vopnaflutningum og -sölu. Ásakanir um að Bút hefði aðstoðað líberíska forsetann Charles Taylor í árásum hans gegn Síerra Leóne og við að fá ólöglegt aðgengi að demöntum urðu til þess að Bút varð fyrir refsiaðgerðum af hálfu Sameinuðu þjóðanna. Þar sem Bút átti öruggt skjól í Rússlandi tókst honum þó að forðast handtöku í mörg ár.[1]

Árið 2008 var Bút handtekinn á lúxushóteli í Bangkok í Taílandi. Hann var handtekinn þar vegna handtökuskipunar sem Bandaríkin höfðu gefið út á hendur honum vegna gruns um að hann hefði útvegað kólumbísku skæruliðasamtökunum FARC vopn.[2] Bút var í kjölfarið framseldur til Bandaríkjanna árið 2010 þrátt fyrir mótmæli Rússa.[3] Árið 2012 dæmdi dómstóll í New York Bút í 25 ára fangelsi.[4]

Bút sat í fangelsi til ársins 2022 en þá var honum sleppt úr haldi í fangaskiptum Bandaríkjamanna og Rússa á móti bandarísku körfuboltakonunni Brittney Griner. Griner hafði verið handtekin á flugvelli í Moskvu og dæmd í níu ára fangelsi fyrir ætlað brot á fíkniefnalögum. Ríkisstjórn Joe Biden forseta féllst á að sleppa Bút til þess að fá Griner leysta úr haldi.[5]

Eftir að Bút sneri heim til Rússlands gekk hann til liðs við Frjálslynda lýðræðisflokkinn, flokk rússneskra öfgaþjóðernissinna, og vann sæti á þingi árið 2023. Árið 2024 flutti blaðið Wall Street Journal frétt af því að Bút væri aftur farinn að stunda vopnasölu og hefði átt í viðræður við Hútí-fylkinguna í Jemen um kaup á rússneskum vopnum.[6]

Í dægurmenningu

[breyta | breyta frumkóða]

Kvikmyndin Lord of War með Nicolas Cage er sögð byggð á ferli Víktors Bút.[7]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 Karl Blöndal (22. ágúst 2010). „Sölumaður dauðans framseldur“. Morgunblaðið. bls. 8.
  2. „Umsvifamikill vopnasali handtekinn í Taílandi“. mbl.is. 6. mars 2008. Sótt 7. október 2024.
  3. „Framseldur til Bandaríkjanna“. Vísir. 17. nóvember 2010. Sótt 7. október 2024.
  4. „Sölumaður dauðans í 25 ára fangelsi“. mbl.is. 6. apríl 2012. Sótt 7. október 2024.
  5. Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir (9. desember 2022). „Körfuboltastjarna á leið heim í skiptum fyrir sölumann dauðans“. RÚV. Sótt 7. október 2024.
  6. Samúel Karl Ólason (7. október 2024). „„Sölu­maður dauðans" aftur í vopna­sölu“. Vísir. Sótt 7. október 2024.
  7. „Sölumaður dauðans vill að Rússland stefni Bandaríkjunum“. Vísir. 12. apríl 2012. Sótt 7. október 2024.