Fara í innihald

Tromsø

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Tromso)
Tromsø
Skjaldarmerki sveitarfélagsins
Skjaldarmerki sveitarfélagsins
Staðsetning sveitarfélagsins
Staðsetning sveitarfélagsins
Upplýsingar
Fylki Troms og Finnmörk
Flatarmál
 – Samtals
16. sæti
2.519 km²
Mannfjöldi
 – Samtals
 – Þéttleiki
8. sæti
75,000
0,03/km²
Borgarstjóri Arild Hausberg
Þéttbýliskjarnar Tromsø
Póstnúmer
Opinber vefsíða
Tromsø

Tromsø (; Romsa á Norður-samísku, í nefnifalli) er borg og sveitarfélag í Troms og Finnmörk fylki í Noregi. Tromsø er áttunda stærsta borg Noregs með um 75.000 íbúa (2017), og eru þar norðlægasti grasagarður heims, norðlægasta brugghús heims, og fleira til. Borgin fær nafn sitt frá eyjunni sem hún stendur mestmegnis á, Tromsøya. Endingin øya merkir ey, en merking orðsins troms er löngu glötuð.

Fyrsta kirkjan á Tromsøya var byggð á 13. öld og skans var byggður um borgina á 17. öld. Tromsø fékk borgarréttindi árið 1794 frá Kristjáni VII Danakonungi. Sveitahéröðin Tromsøysund og Ullsfjord og megnið af Hillesøy sameinuðust Tromsø þann 1. janúar 1964.

Byggð í Tromsø á rætur að rekja til ísaldar. Samar settust líklega fyrstir þar að, en á járnöld settust norðmenn þar að.

Fyrsta kirkjan var byggð árið 1252 í stjórnartíð Hákonar Hákonarsonar Noregskonungs, og var það þá nyrsta kirkja heims: Ecclesia Sanctae Mariae de Trums juxta paganos, eða „Sankti Maríukirkja í Tromsø í nánd við heiðingja.“ Á svipuðum tíma var bærinn víggirtur með torfhleðslum til þess að verjast árásum frá Karelíu og Rússlandi.

Tromsø fékk borgarréttindi árið 1794, en þá bjuggu aðeins um 80 manns þar. Á 19. öld varð borgin mun mikilvægari með tilkomu biskupsstóls (1834), kennaraháskóla (1848), skipasmíðastöðvar (1848), byggðasafns (1872) og Mack brugghússins (1877).

Heimskautaveiðar hófust upp úr 1820 á svæðum frá Novaya Zemlya til Kanada. Um 1850 var Tromsø orðin mikilvæg miðstöð heimskautsveiðiferða og fór fram úr Hammerfest í viðskiptatekjum. Við enda 19. aldar var Tromsø orðin að mikilvægustu viðskiptaborg á svæðinu. Þá lögðu margir heimskautsleiðangrar upp þaðan: landkönnuðir á borð við Roald Amundsen, Umberto Nobile og Fridtjof Nansen nýttu sér þekkingu íbúa Tromsø á aðstæðum á heimskautinu og fengu oft áhafnir sínar úr borginni. Norðurljósarannsóknarstöðin var stofnuð þar 1927.

Á meðan á seinni heimstyrjöld stóð fluttist ríkisstjórn Noregs til Tromsø meðan suðurhluti Noregs var undir völdum Nasista. Borgin slapp úr stríðinu án nokkurs skaða en þó sökk þýska orustuskipið Tirpitz utan strandar Tromsøy þann 12. nóvember 1944. Þá létust um 1000 þýskir hermenn. Í lok stríðsins komu þúsundir flóttamanna úr Finnmörk sem flúðu eyðileggingu Nasista sem bjuggust undir innrás Rauða hersins.

Eftir seinni heimstyrjöld byggðist borgin upp hratt. Flugvöllur opnaði á norðurhluta Tromsøy árið 1964 og háskólinn í Tromsø var stofnsettur 1972. Norska Heimskautastofnunin fluttist til Tromsø frá Oslo árið 1998. Árið 2004 fóru um 1.5 milljón farþegar um flugvöllinn í Tromsø.

Fulltrúar meira en 100 þjóðerna búa í Tromsø, en auk norska meirihlutans eru stórir minnihlutar Sama, Rússa og Finna. Norðlægasta moska heims er í Tromsø, og norðlægasti kaþólski biskupinn á sér aðsetur í kaþólsku kirkjunni þar, þó svo að einungis 350 kaþólikkar séu í borginni.

Vaxandi fjöldi Sama sest að í borginni og fyrir vikið er Sami leikskóli í borginni og sumir grunnskólar bjóða upp á kennslu á samísku. Að auki eru opinberar byggingar merktar bæði á samísku og norsku. Samíska var eitt sinn algengt sem annað tungumál íbúa héraðsins en fjöldi innfæddra sem tala málið hefur minnkað.

Íbúafjöldinn hefur aukist hratt í Tromsø. Árið 1964 bjuggu um 32.000 íbúar í borginni en árið 2004 bjuggu þar 63.596. Það er aukning að meðaltali um 789 íbúa á ári á síðustu fjörutíu árum. Árið 2017 voru þar um 75.000 íbúa.

Víðmynd af Tromsø tekin ofan af Fjellheisen