Skrýðingardeilan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Trérista sem sýnir konung skrýða biskup embættistáknum sínum

Skrýðingardeilan voru hörð átök milli kirkjunnar og konungsvaldsins í Evrópu á miðöldum. Á 11. og 12. öld börðust páfar gegn því að veraldleg yfirvöld skipuðu (skrýddu) háttsetta embættismenn kirkjunnar, svo sem biskupa og ábóta. Höfuðdeilan stóð milli páfa og keisara hins Heilaga rómverska ríkis og hófst árið 1075 en hliðstæðar deilur áttu sér stað víðsvegar um Evrópu. Deilan var leyst með sáttagerðinni í Worms árið 1122 þar sem vald páfa yfir skipan embættismanna kirkjunnar var staðfest. Lausn deilunnar styrkti páfann í sessi en veikti vald keisaranna í Þýskalandi og á Ítalíu.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1075 gaf Gregoríus 7. páfi út yfirlýsinguna Dictatus papae, safn laga þar sem vald páfa var skilgreint sem algilt og sjálfstætt og frá guði einum komið. Á kirkjuþingi í Lateranhöll 24. og 28. febrúar sama ár var því haldið fram að einungis páfi mætti skipa og setja af embættismenn kirkjunnar og flytja þá milli biskupsdæma. Hinrik 4. keisari virti þessi lög að vettugi og hélt áfram að skipa sína biskupa, meðal annars biskupinn í Mílanó, þrátt fyrir að páfi hefði áður skipað annan prest í það embætti. Árið 1076 bannfærði páfi því Hinrik og afturkallaði keisaratign hans.

Þýsku furstarnir tóku þessu sem kærkomnu tækifæri til að gera uppreisn gegn Hinriki. Hinrik neyddist því til að gera yfirbót gagnvart páfa. Hann klæddist skyrtu úr geitarull og gekk til Canossa berfættur á fund páfa. Páfi nam þá bannfæringuna úr gildi en þýsku furstarnir héldu uppreisninni áfram og kusu sér nýjan keisara, Rudolf von Rheinfelden, hertoga af Schwaben. Hinrik skipaði þá Klemens 3. andpáfa og árið 1081 náði hann Rudolf á sitt vald og drap hann. Sama ár réðist hann á Róm í þeim tilgangi að steypa Gregoríusi af stóli en páfi komst undan með aðstoð Normanna frá Suður-Ítalíu. Normannarnir rændu Róm og þegar íbúar borgarinnar risu gegn Gregoríusi neyddist hann til að flýja á náðir þeirra þar sem hann lést 25. maí 1085.

Þegar Hinrik lést árið 1106 tók sonur hans, Hinrik 5., við völdum. Hann hafði áður tekið undir sjónarmið páfa í deilunni. Hann hélt þó áfram að skipa eigin biskupa. Samningaviðræður við Paskalis 2. páfa fóru út um þúfur og árið 1110 réðist Hinrik inn í Ítalíu með stóran her. Þeir Paskalis gerðu samkomulag þar sem Hinrik afsalaði sér réttinum til að skipa biskupa en páfi lofaði á móti að krýna hann keisara alls kristindóms. Þegar keisarinn kom inn í Péturskirkjuna urðu uppþot og páfi neitaði að krýna hann. Hermenn Hinriks tóku páfa höndum og í látunum særðist Hinrik sjálfur. Róbert 1. af Capúa sendi Normannaher til að frelsa páfa en þeir voru stöðvaðir af Ptólemajosi 1. hertoga af Tusculum sem var hliðhollur keisaranum. Paskalis neyddist til að krýna keisarann og staðfesta rétt hans til að skipa biskupa.

Þýsku furstarnir héldu uppreisn sinni áfram og þegar keisarinn var farinn frá Róm lýsti kirkjuráð krýningu hans ógilda þar sem hún var fengin með valdi. Guy erkibiskup af Vienne gekk jafnvel svo langt að bannfæra keisarann og óskaði eftir staðfestingu páfa. Hinrik sneri nú aftur til Rómar og páfi neyddist til að flýja borgina. Hinrik skipaði þá Gregoríus 8. andpáfa. Hann sneri svo aftur til Þýskalands og tókst að berja uppreisnina niður. Í kjölfarið hófust samningaviðræður við Paskalis sem lyktaði með sáttagerðinni í Worms. Bannfæringu keisarans var þá aflétt og hann fékk áheyrnarfulltrúa við kjör biskupa.