Fara í innihald

Kemal Atatürk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Mústafa Kemal Atatürk)
Mústafa Kemal Atatürk
Forseti Tyrklands
Í embætti
29. október 1923 – 10. nóvember 1938
Forsætisráðherraİsmet İnönü
Fethi Okyar
Celâl Bayar
ForveriEmbætti stofnað
Eftirmaðurİsmet İnönü
Persónulegar upplýsingar
Fæddur19. maí 1881
Salóniku, Tyrkjaveldi
Látinn10. nóvember 1938 (57 ára) Istanbúl, Tyrklandi
ÞjóðerniTyrkneskur
StjórnmálaflokkurLýðveldisflokkur alþýðunnar (CHP)
MakiLâtife Uşaklıgil (1923–25)
Undirskrift

Mústafa Kemal Atatürk (19. maí 188110. nóvember 1938) var stofnandi og fyrsti forseti Lýðveldisins Tyrklands. Hann fór fyrir sæmilega friðsamri byltingu í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar þar sem höfuðborgin var flutt frá Istanbúl til Ankara og soldánaveldið leyst upp. Hann var mikill frömuður í því að gera Tyrkland vestrænna en það hafði verið, meðal annars innleiddi hann latneskt stafróf fyrir tyrknesku og bannaði fjölkvæni. Enn í dag er hann í miklu uppáhaldi hjá mörgum Tyrkjum og myndir af honum hanga víða uppi í skólastofum, stofum og víðar.

Mústafa Kemal fæddist (undir nafninu Ali Rıza oğlu Mustafa) árið 1881 í Þessalóníku, sem er í dag hluti af Grikklandi en tilheyrði þá Tyrkjaveldi. Faðir Mústafa lést þegar hann var sjö ára og fjölskylda hans flutti í kjölfarið út í sveit til að búa með einum frænda hans. Nafnið Kemal fékk hann frá stærðfræðikennara sínum sem eins konar heiðursnafnbót fyrir stærðfræðikunnáttu sína, en Kemal merkir „fullkomnun“ eða „þroski“ á arabísku.[1][2][3]

Mústafa Kemal gekk í herskóla Þessalóniku árið 1893 í óþökk foreldra sinna. Hann hélt áfram hernámi víðs vegar um Balkanskaga næstu árin[4] og útskrifaðist loks úr herskóla í Konstantinópel þann 11. janúar 1905. Á þessum tíma var hann meðlimur í Ungtyrkjaflokknum Samstöðu- og framfaranefndinni en var þó oft gagnrýninn á stefnumál hans. Kemal var handtekinn stuttu eftir útskriftina fyrir að tala gegn soldánaveldinu en sleppt nokkrum mánuðum síðar.[5] Hann tók þátt í Ungtyrkjabyltingunni árið 1908 og átti þátt í að kveða niður gagnbyltingu Abdúl Hamid 2. Tyrkjasoldáns árið eftir.

Kemal var herforingi tyrkneskra herdeilda í stríði Tyrkja við Ítali 1911–1912 og í Balkanstríðunum 1912–1913.

Fyrri heimsstyrjöldin

[breyta | breyta frumkóða]
Mústafa Kemal í skotgröfunum við Gallipoli

Mústafa Kemal komst til metorða í fyrri heimsstyrjöldinni þegar honum var treyst fyrir stjórn 19. herdeildar fimmta Tyrkjahersins í innrás Breta á Gallipoli-skaga. Kemal gat sér til um hvar Bretar myndu gera árás og tókst að hrekja Bretaher á bak aftur. Þetta var einn mesti ósigur fyrr og síðar í hernaðarsögu breska heimsveldisins og þótti mikil auðmýking fyrir Winston Churchill, sem þá var flotamálaráðherra Bretlands og hafði staðið að innrásinni. Þetta var einn fárra mikilvægra sigra sem Tyrkir unnu í fyrri heimsstyrjöldinni og Kemal varð því stríðshetja fyrir vikið. Eftir sigurinn var hann sendur til Edirne til að berjast gegn Rússaher í Kákasus.[6] Herdeildum Kemal tókst að hertaka borgirnar Bitlis og Muş og komu þannig foringjum Rússa að óvörum.[7]

Eftir ágreining við tyrknesku ríkisstjórnina sagði Kemal sig úr sjöunda Tyrkjahernum og sneri aftur til Konstantínópel. Þar var hann gerður að fylgdarmanni krónprinsins Mehmed Vahideddin, sem seinna átti eftir að verða Mehmed 6. Tyrkjasoldán, í heimsókn til Austurríki-Ungverjalands og Þýskalands. Kemal heimsótti vesturvígstöðvarnar og komst fljótt að þeirri niðurstöðu að Miðveldin myndu brátt tapa stríðinu. Hann hikaði ekki við að viðra þessa skoðun við Vilhjálm 2. Þýskalandskeisara og herforingja hans.

Tyrkneska frelsisstríðið

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir fyrri heimsstyrjöldina var Tyrkjaveldi hertekið af Bandamönnum. Kemal og fylgismenn hans neituðu að sitja hjá á meðan Bandamenn hófu að skipta Tyrkjaveldi á milli sín samkvæmt Sèvres-sáttmálanum og fóru því fyrir uppreisn gegn sitjandi stjórn veldisins. Þeir stofnuðu nýja ríkisstjórn í Ankara og stýrðu frá þeirri borg andspyrnu gegn hertöku Bandamanna.

Undir stjórn Kemal sigruðu Tyrkir heri Armena, Frakka og Ítala. Loks sigruðu þeir her Grikkja sem sátu í borginni Izmir, í austur-Þrakíu og eyjum Eyjahafsins. Eftir orrustu við Sangarios þar sem Grikkir voru alfarið hraknir út úr Tyrklandi veitti þjóðarþing Tyrklands Kemal titilinn Gazi (hinn sigursæli).[8] Eftir þessa sigra ákváðu Bretar að semja um frið við Kemal og hafa sig burt frá Tyrklandi.

Stofnun tyrkneska lýðveldisins

[breyta | breyta frumkóða]
Atatürk forseti kynnir nýtt stafróf fyrir Tyrkjum.

Mústafa Kemal staðfesti jafnframt að hann vildi taka upp allt aðra stefnu en Tyrkjaveldi hefði gert og koma á róttækum umbótum í landinu. Kemal var innblásinn af frönsku byltingunni og naut góðs af því að litið var á Mehmed 6. Tyrkjasoldán sem svikara vegna afar óhagstæðra friðarskilmála sem hann hafði samþykkt við undirritun friðarsáttmála í Moudros. Stjórn Mústafa Kemal tók þá ákvörðun að leysa upp embætti Tyrkjasoldáns og gera Tyrkland að lýðveldi með veraldlegum lögum þar sem pólitískt vald yrði aðskilið hinu guðlega.

Eftir að lýðveldi var stofnað færði Kemal höfuðborgina frá Istanbúl til Ankara og stóð fyrir ýmsum umbótum í vestrænum stíl í landinu. Hann kom á aðskilnaði ríkis og kirkju, gaf konum kosningarrétt og kom á notkun latnesks stafrófs í stað hins arabíska. Undir leiðsögn Kemal var gerð fordæmalaus menningarbylting í Tyrklandi sem kölluð er „kemalska byltingin.“ Þann 24. nóvember 1934 gaf tyrkneska þingið Kemal nafnbótina Atatürk, sem þýðir ekki „faðir Tyrkjanna“ heldur „Tyrkjafaðir“ í þeim skilningi að hann sé eins og forfeðurnir voru, en „Ata“ merkir bókstaflega forfaðir.

Ein róttækasta ákvörðunin sem Atatürk tók var að leggja niður íslamska kalífadæmið árið 1924. Kalífi íslams hafði verið trúarleiðtogi og sameiningartákn allra múslima heimsins í um þrettán aldir og frá stofnun Tyrkjaveldis hafði Tyrkjasoldán jafnan einnig verið kalífi. Eftir að soldánsembættið var leyst upp stóð höfuð Ósmansættarinnar eftir með kalífatitilinn sem ópólitískur trúarleiðtogi en árið 1924 ákvað Atatürk að leysa einnig upp kalífaembættið og gerði síðasta kalífanum, Abdúl Mejid 2., að yfirgefa Tyrkland. Ástæðan fyrir ákvörðun Atatürks var sú að hann taldi hugmyndina um kalífa ekki samræmast hugsjónum sínum um Tyrkland sem veraldlegt lýðveldi og þjóðríki.[9]

Atatürk lést vegna skorpulifrar þann 10. nóvember 1938. Hann var grafinn í þjóðfræðisafni í Ankara. Lík hans hvílir í dag í grafhýsi sem nefnist Anıtkabir.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Afet Inan, Atatürk hakkında hâtıralar ve belgeler, Türk Tarih Kurumu Basımevi, 1959, bls. 8.
  2. „Mustafa Kemal Atatürk“ (enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 27. september 2007. Sótt 6. ágúst 2017.
  3. „Mústafa Kemal Atatürk“. Samvinnan. 1. október 1969. Sótt 22. janúar 2019.
  4. T. C. Genelkurmay Harp Tarihi Başkanlığı Yayınları, Türk İstiklâl Harbine Katılan Tümen ve Daha Üst Kademlerdeki Komutanların Biyografileri, Ankara: Genkurmay Başkanlığı Basımevi, 1972, bls. 1.
  5. Falih Rıfkı Atay: Çankaya, Pozitif Yayınları, İstanbıl, 2004
  6. Lengyel, They called him Atatürk, 68
  7. Kinross, Atatürk: The Rebirth of a Nation, 100
  8. Jean-Louis, Bacqué-Grammont; Jean-Paul, Roux. Mustafa Kemal Atatürk et la Turquie nouvelle. Maisonneuve & Larose. 1982. Bls. 24. Sótt 23. júlí 2017
  9. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Mál og menning. bls. 113–114.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forseti Tyrklands
(29. október 192310. nóvember 1938)
Eftirmaður:
İsmet İnönü