Fara í innihald

Balkanstríðin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bretland, Frakkland, Þýskaland, Rússland og Austurríki-Ungverjaland sitja á kraumandi potti deilna á Balkanskaganum og reyna að koma í veg fyrir að allsherjar Evrópustríð verði úr. Það tókst árin 1912 og 1913 en mistókst árið 1914.

Balkanstríðin voru tvö stríð sem áttu sér stað á Balkanskaga í Suðaustur-Evrópu árin 1912 og 1913. Fjögur Balkanríki sigruðu Tyrkjaveldi í fyrra stríðinu; en eitt ríkjanna fjögurra, Búlgaría, var sigrað í hinu seinna. Tyrkjaveldi tapaði meirihluta landsvæða sinna í Evrópu. Austurríki-Ungverjaland tapaði nokkrum áhrifum á svæðinu þar sem stríðið leiddi til útþenslu Serbíu og viðleitni Serba til að stofna sameiginlegt ríki með suðurslavnesku fólki innan austurríska keisaradæmisins. Stríðin ruddu veginn fyrir morðunum á Frans Ferdinand erkihertoga í Sarajevo árið 1914 og þar með fyrir fyrri heimsstyrjöldinni.

Snemma á tuttugustu öld höfðu Búlgaría, Grikkland, Svartfjallaland og Serbía öðlast sjálfstæði frá Tyrkjaveldi en mikill hluti þjóðflokka þeirra bjó enn á yfirráðasvæði Tyrkja. Árið 1912 stofnuðu löndin fjögur Balkanskagabandalagið. Þrír þættir stuðluðu að fyrra Balkanstríðinu:

  1. Tyrkjaveldi hafði ekki tekist að ná fram umbótum, nútímavæðast, né kveða niður ríg milli ólíkra þjóðflokka og þjóðernishyggju innan veldisins.
  2. Stórveldi Evrópu áttu í eigin deilum og tókst ekki að sjá til þess að Tyrkir næðu fram umbótum. Balkanríkin tóku því til eigin ráða.
  3. Mikilvægast var að eftir að Balkanskagabandalagið var stofnað töldu aðildarríkin að þeim væri sigur vís ef þau berðust við Tyrki.

Tyrkjaveldi glataði öllum evrópskum landsvæðum sínum vestan við Maritsafljót vegna stríðanna tveggja. Þannig voru línurnar dregnar að vestanverðum landamærum Tyrklands í dag. Stríður straumur tyrkneskra flóttamanna flúði til tyrkneska meginlandsins vegna landmissisins í kjölfarið. Árið 1915 hafði íbúafjöldi á miðhluta Tyrkjaveldis hækkað um u.þ.b. 2.5 milljónir manna vegna flóttamannastraumsins frá Balkanskaga.

Í Tyrklandi er Balkanstríðanna minnst sem eins mesta harmleiks í sögu þjóðarinnar. Óvæntur ósigurinn og landmissirinn skóku Tyrkjaveldi svo mjög að talið er að línurnar hafi verið dregnar fyrir hruni veldisins fimm árum síðar. Nazim Pasja, yfirmaður tyrkneska hersins, var gerður ábyrgur fyrir ósigrinum og var drepinn þann 23. janúar 1913 þegar Ungtyrkirnir svokölluðu tóku sér alræðisvald yfir Tyrkjaveldi.

Fyrra Balkanstríðið byrjaði með árás Balkanskagabandalagsins á Tyrkjaveldi þann 8. október 1912 og lauk átta mánuðum síðar með friðarsáttmála í London þann 30. maí 1913. Síðara Balkanstríðið hófst þann 16. júní 1913. Bæði Serbía og Grikkland neituðu að heiðra sáttmálann sem Balkanríkin höfðu gert sín á milli fyrir stríðið og ákváðu að halda öllum landsvæðum sem herir þeirra höfðu hernumið í stað þess að skipta þeim jafnt milli ríkjanna samkvæmt samkomulagi. Búlgaríumenn sættu sig ekki við þessa skiptingu landsvæðanna og töldu sig svikna. Því réðst búlgarski herinn gegn fyrrum bandamönnum sínum í Grikklandi og Serbíu en var fljótt yfirbugaður. Grikkir og Serbar réðust inn í Búlgaríu úr vestri og suðri. Rúmenía bættist svo í leikinn og réðst inn í Búlgaríu úr norðri. Tyrkjaveldi sá sér síðan glaðan leik og réðst einnig á Búlgaríu og tókst að endurheimta borgina Adríanópólis. Að lokum voru friðarsáttmálar undirritaðir í Búkarest þar sem Búlgaría glataði flestum landsvæðum sem hún hafði unnið í fyrra Balkanstríðinu auk þess sem ríkið neyddist til að láta af hendi suðurþriðjung Dobroudjahéraðs til Rúmeníu.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]