Fara í innihald

Ungtyrkir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af Ungtyrkjabyltingunni 1908 og viðurkenningu tyrknesku stjórnarskrárinnar.

Ungtyrkir („Jön Turkler“ á tyrknesku, dregið af „Les Jeunes Turcs“ á frönsku) voru stjórnmálaleg umbótahreyfing í byrjun tuttugustu aldar. Hreyfingin samanstóð af andófsmönnum sem höfðu verið sendir í útlegð frá Tyrkjaveldi, menntamönnum, embættismönnum og herforingjum.[1] Ungtyrkir kölluðu eftir því að einveldi yrði afnumið í Tyrkjaveldi og að stjórnarskrárbundinni ríkisstjórn yrði þess í stað komið á. Árið 1908 leiddu foringjar Ungtyrkja uppreisn gegn alræðisstjórn Abdúl Hamid 2. Tyrkjasoldáns í Ungtyrkjabyltingunni.[2] Með þessari byltingu komu Ungtyrkir á öðru stjórnarskrártímabili Tyrkjaveldis og leyfðu frjálsar fjölflokkakosningar í fyrsta sinn í sögu ríkisins.[3]

Eftir byltinguna árið 1908 byrjaði stjórnmálaflokkur Ungtyrkja, Samstöðu- og framfaranefndin („İttihat ve Terakki Cemiyeti“),[4] að koma á nútímavæðingu og félagsumbótum í Tyrkjaveldi. Ágreiningur fór þó fljótt að myndast innan flokksins og brátt klufu margir frjálslyndari Ungtyrkirnir sig úr honum og mynduðu Frelsis- og samlyndisflokkinn í stjórnarandstöðu. Þeir sem héldu sig í Samstöðu- og framfaranefndinni voru aðallega hlynntir tyrkneskri þjóðernishyggju og aukinni miðstýringu.[5] Eftir valdabaráttu milli flokkanna allt árið 1912 hafði Samstöðu- og framfaranefndin rangt við í þingkosningum til að ná fram kosningasigri. Frelsis- og samlyndisflokkurinn gripu til vopnaðrar uppreisnar í kjölfarið.

Baráttunni milli þessara tveggja fylkinga Ungtyrka lauk í janúar árið 1913 þegar miðstjórn Samstöðu- og framfaranefndarinnar framdi valdarán. Úr valdaráninu varð til einræðisstjórn þremenningabandalags Talaat Pasja innanríkisráðherra, Enver Pasja hermálaráðherra og Djemal Pasja flotamálaráðherra. „Pasjarnir þrír,“ eins og þeir urðu kallaðir, fóru með öll völd í Tyrkjaveldi frá árinu 1913 til 1918. Á þeim tíma komu þeir á nánu samstarfi við þýska keisaradæmið og gengu að endingu í bandalag við Þjóðverja gegn bandamönnum í fyrri heimsstyrjöldinni[6] Á meðan Tyrkjaveldi barðist í styrjöldinni stóð stjórn pasjanna þriggja einnig fyrir þjóðarmorði Tyrkja á Armenum.[7] Eftir ósigur Tyrkja í stríðinu byrjaði baráttan milli fylkinga Ungtyrkja á ný. Frelsis- og samlyndisflokkurinn náði aftur höldum á ríkisstjórn Tyrkjaveldisins og neyddi pasjana þrjá til að flýja land. Frelsis- og samlyndisstjórnin var þó stuttlíf því Tyrkjaveldi hrundi stuttu síðar.

Hugtakið „Ungtyrki“ er í dag notað um „framfarasinna, byltingarmenn eða uppreisnarsama meðlimi í samtökum eða stjórnmálaflokki, sérstaklega þeim sem kalla eftir róttækum umbótum.“ [8] Því eru til ýmsir flokkar í mörgum löndum sem kenna sig við Ungtyrki.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. A history of the Modern Middle East, Cleveland og Bunton bls. 123
  2. Hanioğlu (1995), bls. 12
  3. Akçam (2006), bls. 48.
  4. Balakian (2003), bls. 143
  5. Wilson, Mary Christina, King Abdullah, Britain and the Making of Jordan (1990), Cambridge University Press, bls. 19
  6. Akçam (2006), bls. 153
  7. Akçam (2012) Young Turks’ Crime Against Humanity : The Armenian Genocide and Ethnic Cleansing in the Ottoman Empire, Princeton University Press, Princeton, NJ, bls. 203
  8. Dictionary.com[óvirkur tengill], HarperCollins Publishers, 10. útgáfa, skoðað 18. júlí 2017