Ungtyrkjabyltingin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tyrkneskur trúfélagadómstóll lýsir yfir byltingu árið 1908.

Ungtyrkjabyltingin var stjórnarbylting í Tyrkjaveldi í júlí árið 1908. Í henni þvinguðu Ungtyrkir Tyrkjasoldán til að taka á ný upp tyrkneska stjórnarskrá frá árinu 1876 og gerðu Tyrkjaveldi að þingbundnu konungdæmi með fjölflokkakosningum á ríkisþing í tveimur umferðum. Stjórnarskráin hafði áður verið tekin upp þremur áratugum fyrr í valdatíð Abdúl Hamid 2. soldáns í því sem kallað hefur verið „fyrra stjórnarskrártímabilið“ í sögu Tyrklands. Það tímabil entist aðeins í tvö ár áður en Abdúl Hamid nam stjórnarskrána úr gildi og veitti sjálfum sér alræðisvald á ný. Þann 24. júlí 1908 kiknaði Abdúl Hamid undan þrýstingi byltingarmanna, tilkynnti að stjórnarskráin skyldi viðurkennd á ný og hóf þannig „seinna stjórnarskrártímabilið.“ Eftir að stuðningsmenn soldánsins gerðu misheppnaða tilraun til gagnbyltingar næsta ár var Abdúl Hamid steypt af stóli og bróðir hans settur á valdastól undir nafninu Mehmed 5. Tyrkjasoldán.

Stjórnmálahreyfingar sem höfðu hingað til þurft að aðhafast í leyni komu nú upp á yfirborðið og stofnuðu formlega stjórnmálaflokka.[1] Tveir þeirra, „Samstöðu- og framfaranefndin“ og „Frelsis- og samlyndisflokkurinn“ urðu meginflokkarnir. Smærri flokkar urðu einnig til, þ.á.m. tyrkneskur sósíalistaflokkur og ýmsir þjóðernisflokkar minnihlutahópa innan Tyrkjaveldis, s.s. Búlgaríumanna, gyðinga og Armena.[2]

Bakgrunnur[breyta | breyta frumkóða]

Ýmsar samfélagsumbætur áttu sér stað í Tyrkjaveldi í valdatíð Abdúl Hamid þrátt fyrir íhaldssama stjórnarhætti hans. Tyrknesk menning styrktist í takt við þróun frjálslyndara samfélags í veldinu og grunnur var lagður að byltingunni. Þegar soldáninn nam úr gildi stjórnarskrána frá árinu 1876 leysti hann einnig upp ríkisþingið. Því gat aðeins lítill hópur fólks haft áhrif á stjórnmál Tyrkjaveldis.[3]

Til þess að bjarga Tyrkjaveldi þótti mörgum Tyrkjum nauðsynlegt að nútímavæða landið en stjórnarhættir Abdúl Hamid samræmdust engan veginn slíkum hugmyndum. Kveikju byltingarinnar má rekja til þróunar tveggja stjórnmálaafla sem bæði voru andsnúin ríkisstjórn Abdúl Hamid en áttu þó ólíkra hagsmuna að gæta: Yfirstéttir Tyrkjaveldis voru frjálslyndar og óskuðu eftir slökun á ríkisvaldi og afskiptum þess af efnahagsmálum. Auk þess vildu frjálslyndismenn að minnihlutahópar innan Tyrkjaveldis fengju aukna sjálfsstjórn og urðu slík sjónarmið sérstaklega vinsæl meðal útlendinga í Tyrkjaveldi. Fólk úr lægri stéttum myndaði annars konar stjórnmálaafl: Sambandssinna. Sambandssinnar voru mestmegnis úr verkamannastéttum og lögðu mesta áherslu á að ríkisstjórnin yrði að vera veraldleg og trúlaus. Hóparnir tveir spruttu upp úr viðleitni til þess að taka upp gömlu stjórnarskrána á ný en menningarlegur ágreiningur gerði þeim erfitt fyrir að vinna hver með öðrum.

Byltingin[breyta | breyta frumkóða]

Ungtyrkir úr herstéttum áttu upptökin að byltingunni. Tyrkneska herstéttin var ákaflega stolt af hlutverki sínu í varnarmálum hins ört smækkandi Tyrkjaveldis og var því reiðubúin til að grípa til vopna gegn ríkisvaldinu í því skyni að vernda ríkið hruni. Atburðurinn sem hratt byltingunni af stað var fundur Játvarðar 7. Bretlandskonungs og Nikulásar 2. Rússakeisara í bænum Reval á Balkanskaga í júní 1908. Stórveldin tvö höfðu ekki átt í mörgum meiriháttar deilum síðustu öldina en undir niðri kraumaði þó hatrammur keppnisskapur á milli þeirra og því leituðust þau við því að miðla málum til að kæfa hugsanleg átök í fæðingu. Tyrkneskir herliðar óttuðust að fundur einvaldanna væri forboði fyrir fyrirhugaða skiptingu Makedóníu milli stórveldanna tveggja. Herdeildir Tyrkja á Balkanskaga gerðu því uppreisn gegn Abdúl Hamid og vonuðust til þess að vernda Tyrkjaveldi með því að koma á framfarasinnaðri stjórn.

Byltingin hófst í júlí árið 1908.[4] Ahmed Niyazi majór óttaðist að upp kæmist um fyrirætlanir sínar og flýtti sér því þann 3. júlí frá bænum Resen með 200 fylgismenn til að heimta að stjórnarskráin yrði tekin upp á ný. Tilraun soldánsins til að kveða niður uppreisnina mistókst vegna þess hve vinsæl hreyfingin var meðal hermannanna sjálfra. Þann 24. júlí neyddist Abdúl Hamid til að láta undan kröfum byltingarmanna og tilkynnti að stjórnarskráin frá árinu 1876 yrði endurreist.[5]

Eftirmálar[breyta | breyta frumkóða]

Þingkosningar voru haldnar í Tyrkjaveldi í nóvember og desember árið 1908. Þann sautjánda desember vann Samstöðu- og framfaranefndin meirihluta á þingi. Þing Tyrkjaveldis var sett í fyrsta sinn í þrjá áratugi þann 17. desember 1908 með eftirlifandi þingmönnum fyrra stjórnarskrártímabilsins. Fulltrúaþingið kom fyrst saman þann 30. janúar 1909. Þróun nýja stjórnarfyrirkomulagsins stuðlaði smám saman að því að til varð ný valdastétt. Í sumum samfélagshópum, t.d. meðal gyðinga, tókst umbótahópum í anda Ungtyrkja að fella íhaldssamar valdastéttir og koma þeirra í stað umbótasinnum í valdastöður.

Þótt Ungtyrkjabyltingin hefði boðað skipulagsumbætur var nýja ríkisstjórnin í fyrstu fremur illa skipulögð og óvandvirk. Fólk úr verkamannastéttum sem klifið hafði valdastigann vissi lítið um ríkisstjórn en reyndi þó að gera hugmyndir sínar um Tyrkjaveldi að veruleika. Kâmil Pasja, frjálslyndismaður og bandamaður Englendinga, var gerður að stórvesír þann 5. ágúst 1908. Stefnumál hans sköpuðu mótvægi milli Samstöðu- og framfaranefndarinnar og Frelsis- og samlyndisflokksins en ágreiningur hans við hina fyrrnefndu varð til þess að honum var bolað úr embætti aðeins sex mánuðum síðar, þann 14. febrúar 1909.[6]

Soldáninum var leyft að sitja áfram sem táknrænn en valdalaus þjóðleiðtogi en í apríl 1909 reyndi hann að hrifa aftur til sín völdin. Abdúl Hamid vann sér nokkurn stuðning almennings þegar hann lofaði að endurreisa kalífadæmi, gera út af við veraldleg stjórnmál og koma á sjaríalögum. Þann 13. apríl 1909 gerðu herlið uppreisn ásamt guðræknum námsmönnum og klerkum og reyndu að koma aftur á alræðisvaldi soldánsins. Uppreisn þeirra mistókst þann 24. apríl og í kjölfarið var Abdúl Hamid neyddur til að segja af sér sem soldán. Í stað hans varð bróðir hans, Mehmed 5., soldán.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Erickson (2013), bls. 32
  2. Zapotoczny, Walter S., W zap online [The Influence of the Young Turks http://www.wzaponline.com/TheInfluenceoftheYoungTurksRevolution.pdf Geymt 25 júlí 2011 í Wayback Machine], sótt 19. júlí 2017
  3. Ahmad, Feroz. The Young Turk Revolution, Journal of Contemporary History. Júlí, 1968. 3. bindi, The Middle East, bls. 19–36
  4. The Encyclopædia Britannica, 15. útgáfa, 1983, bls. 788, 13. bindi
  5. Quataert, Donald. The 1908 Young Turk Revolution: Old and New Approaches. Middle East Studies Association. Júlí 1979. 13. bindi, 1. tölublað, bls. 22–29.
  6. Somel, Selçuk Akşin (2003), Historical Dictionary of the Ottoman Empire, The Scarecrow Press, bls. 147