Sergio Mattarella

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sergio Mattarella
Forseti Ítalíu
Núverandi
Tók við embætti
3. febrúar 2015
ForsætisráðherraMatteo Renzi
Paolo Gentiloni
Giuseppe Conte
Mario Draghi
Giorgia Meloni
ForveriGiorgio Napolitano
Persónulegar upplýsingar
Fæddur23. júlí 1941 (1941-07-23) (82 ára)
Palermo, Ítalíu
ÞjóðerniÍtalskur
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
MakiMarisa Chiazzese (d. 2012)
Börn1
HáskóliSapienza-háskólinn
StarfDómari, stjórnmálamaður
Undirskrift

Sergio Mattarella (f. 23. júlí 1941) er ítalskur stjórnmálamaður, lögmaður og dómari sem hefur verið forseti Ítalíu frá febrúar 2015. Hann var þingmaður frá 1983 til 2008, ráðherra menntamála frá 1989 til 1990 og ráðherra varnarmála frá 1999 til 2001. Hann er fyrsti forseti Ítalíu sem kemur frá Sikiley.

Bróðir hans, Piersanti Mattarella, var forseti Sikileyjar frá 1978 til 1980 þegar hann var skotinn til bana af Antonio Rotolo að fyrirskipun mafíuforingjanna á Sikiley sem höfðu ákveðið það á fundi. Enginn var þó fundinn sekur um morðið og Rotola aldrei dæmdur fyrir það. Mafían var ekki ánægð með hve hart Piersanti gekk gegn henni og taldi sig í fyrstu eiga þar góðan bandamann því faðir þeirra hafði átt vinaleg samskipti við hana.

Mattarella tók nokkuð umdeilda ákvörðun árið 2018 þegar hann neitaði að veita nýrri ríkisstjórn Fimmstjörnuhreyfingarinnar og Norðursambandsins viðurkenningu sína.[1] Ástæðan var útnefning þeirra á evruandstæðingnum Paolo Sa­vona í embætti fjármálaráðherra. Forseti Ítalíu hefur vald til þess að synja nýrri ríkisstjórn um staðfestingu en þessu valdi hafði aðeins þrisvar verið beitt áður. Luigi Di Maio leiðtogi Fimmstjörnuhreyfingarinnar hótaði í kjölfarið að kæra Mattarella fyrir landráð. Að endingu féllst Mattarella á að staðfesta nýju ríkisstjórnina að því gefnu að annar fjármálaráðherra yrði útnefndur.

Eftir afsögn Giuseppe Conte forsætisráðherra í janúar 2021 átti Mattarella frumkvæði að því að bjóða Mario Draghi, fyrrum seðlabankastjóra Evrópu, að stofna til þverpólitískrar þjóðstjórnar til þess að ljúka þingtímabilinu.[2] Þegar Draghi bauð Mattarella afsögn sína í júlí 2022 neitaði Mattarella að samþykkja hana.[3]

Undir lok kjörtímabils síns í janúar 2022 hafði Mattarella lýst því yfir að hann myndi ekki bjóða sig fram til endurkjörs. Þar sem ítalska þinginu tókst ekki að komast um samkomulagi um nýjan forseta féllst Mattarella hins vegar á að gefa kost á sér til annars kjörtímabils og var kjörinn í fjórðu atkvæðagreiðslu þingsins.[4] Hann er einungis annar forsetinn í sögu ítalska lýðveldisins sem hefur verið kjörinn til annars kjörtímabils.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Neitaði að skipa ráðherra“. mbl.is. 28. maí 2018. Sótt 14. júlí 2018.
  2. Ævar Örn Jósepsson (3. febrúar 2021). „Ítalíuforseti vill að Mario Draghi leiði þjóðstjórn“. RÚV. Sótt 13. febrúar 2021.
  3. „Hafnaði afsögn forsætisráðherrans“. mbl.is. 14. júlí 2022. Sótt 17. júlí 2022.
  4. Ólöf Rún Erlendsdóttir (29. janúar 2022). „Mattarella hyggst sitja áfram vegna klofnings í þinginu“. RÚV. Sótt 30. janúar 2022.
  5. „Elezioni Presidente della repubblica 2022“. La Repubblica (ítalska). 27. janúar 2022. Sótt 28. janúar 2022.


Fyrirrennari:
Giorgio Napolitano
Forseti Ítalíu
(3. febrúar 2015 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti