Fara í innihald

Bítlarnir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Johnny and the Moondogs)
The Beatles
Bítlarnir árið 1964. Að ofan eru John Lennon og Paul McCartney, og að neðan eru George Harrison og Ringo Starr
Bítlarnir árið 1964. Að ofan eru John Lennon og Paul McCartney, og að neðan eru George Harrison og Ringo Starr
Upplýsingar
UppruniLiverpool, England
Ár1960–1970
Stefnur
Útgáfufyrirtæki
Fyrri meðlimir
Vefsíðathebeatles.com

Bítlarnir (enska: The Beatles) voru ensk rokkhljómsveit sem var stofnuð árið 1960 í borginni Liverpool. Meðlimir hennar voru lengst af John Lennon (gítar/söngur), Paul McCartney (bassagítar/söngur), George Harrison (gítar), og Ringo Starr (trommur). Hljómsveitin er í hópi þeirra vinsælustu og áhrifamestu sem uppi hafa verið.[1] Sveitin á rætur að rekja til hljómsveitarinnar The Quarrymen, sem John Lennon stofnaði árið 1956.

Bítlarnir eru söluhæsta hljómsveit allra tíma, með áætlaða 600 milljón eintaka sölu á heimsvísu.[2][3] Þeir eru vinsælasta hljómsveit sögunnar miðað við bandaríska Billboard-lista[4] og eiga metið yfir flestar plötur í fyrsta sæti Breska hljómplötulistans (15), flest lög í fyrsta sæti á Billboard Hot 100-listanum (20), og flestar smáskífur seldar í Bretlandi (21,9 milljónir). Hljómsveitin vann til fjölda verðlauna, þar á meðal sjö Grammýverðlaun, fjögur Brit-verðlaun, Óskarsverðlaun (fyrir bestu frumsömdu tónlist í heimildamyndinni Let It Be) og fimmtán Ivor Novello-verðlaun. Þeir fengu inngöngu í Frægðarhöll rokksins árið 1988 og hver og einn meðlimur hljómsveitarinnar fékk þar inngöngu á milli 1994 og 2015. Árin 2004 og 2011 voru þeir á toppi lista Rolling Stone yfir 100 bestu tónlistarmenn allra tíma. Tímaritið Time setti þá á lista yfir 100 mikilvægustu einstaklinga 20. aldar.

Árið 1957 gekk Paul McCartney til liðs við hljómsveitina The Quarrymen. Það sama gerði George Harrison árið 1958. Seinna gengu Stuart Sutcliffe og Pete Best til liðs við hana. Hljómsveitin gekk undir ýmsum nöfnum næstu árin, til dæmis „Johnny and the Moondogs“, „The Silver Beetles“ og „The Beetles“ þar sem þeir fengu innblásturinn frá hljómsveit Buddy Holly, The Crickets. Vorið 1960 voru hljómsveitarmeðlimir farnir að kalla sig Bítlana (The Beatles). Í umfjöllun íslenskra dagblaða var tekið að íslenska nafn sveitarinnar eftir að þeir slógu í gegn á heimsvísu 1963 og nota það í samsetningum eins og „bítilæði“. Orðið varð á íslensku (eins og sambærileg orð í öðrum málum) að hugtaki sem lýsti ákveðinni tísku í tónlist, klæðaburði og hárgreiðslu, og talað um tilteknar hljómsveitir eins og „hina færeysku bítla“ eða „hina íslensku bítla“. Árið 1960 fóru Bítlarnir til Hamborgar þar sem Stuart Sutcliffe lést af heilahristingi. Þar kynntust þeir Ringo Starr sem spilaði með hljómsveitinni Rory Storm and the Hurricanes, en átti eftir að koma í staðinn fyrir Pete Best árið 1962.

Merki Bítlanna.

Í upphafi voru Bítlarnir aðeins ein af mörgum skiffle-hljómsveitum í Liverpool, en tónlist þeirra þroskaðist og þegar þeir slógu í gegn snemma á sjöunda áratugnum spiluðu þeir nýstárlega kraftmikla popptónlist. Fyrsta breiðskífan þeirra Please Please Me kom út árið 1963 og tónlist þeirra hélt áfram að þróast allt þar til yfir lauk 10. apríl 1970. Það ár kom síðasta plata þeirra, Let It Be, út, en samstarfi þeirra var þá þegar lokið og upptökurnar voru gamlar. Margir segja að Yoko Ono, kona John Lennons hafi valdið því að Bítlarnir hættu, en þá var löngu fyrr komin þreyta í samstarf þeirra, sem breyttist eftir andlát umboðsmannsins Brian Epstein 1967, og meðlimum langaði að snúa sér að öðrum verkefnum.[5]

Allt frá því að fyrsta platan kom út árið 1963 fram að þeirri síðustu árið 1970, voru meðlimir hljómsveitarinnar fjórir: John Lennon spilaði á gítar og söng, en spilaði líka á munnhörpu eins og heyrist á Laginu „Love Me Do“, á fyrstu plötunni; Paul McCartney spilaði á bassa, söng og lék einstaka sinnum á gítar; George Harrison spilaði á gítar, söng stöku sinnum og spilaði einu sinni á sítar á „Norwegian Wood“ á plötunni Rubber Soul; og Ringo Starr (Richard Starkey) lék á trommur og söng örfá lög. Ýmsir aðilar sem tengdust hljómsveitinni hafa verið nefndir „fimmti Bítillinn“, oftast umboðsmaðurinn Brian Epstein eða framleiðandinn George Martin sem báðir höfðu mikil áhrif á tónlist og ímynd Bítlanna. Langflest lög sveitarinnar voru samin af tvíeykinu Lennon/McCartney. Paul McCartney og Yoko Ono (síðari eiginkona John Lennon) hafa átt í deilum vegna þess að Paul hefur viljað breyta skráningu laganna sem hann samdi í McCartney/Lennon.

Bítlaæðið braust út í kjölfar útgáfu fyrstu plötu þeirra í Bretlandi árið 1963. Snemma árs 1964 komu Bítlarnir fram í sjónvarpsþættinum The Ed Sullivan Show í Bandaríkjunum. Í kjölfarið fór bítlaæðið eins og eldur í sinu um heiminn. Þá fengu þeir viðurnefnið „The Fab Four“ („frábæra fereykið“). Þegar Bítlarnir voru í Bandaríkjunum sagði John Lennon í viðtali að sveitin væri „stærri en Jesús“ og vakti það svo mikla hneykslan að plötur þeirra voru brenndar. Brian Epstein, umboðsmaður þeirra, þurfti að biðja John Lennon um að biðjast afsökunar.

Bítlarnir gerðu tilraunir með hugvíkkandi lyf eins og LSD á sjöunda áratugnum og gáfu út plötur sem unnar voru undir áhrifum þeirra. Þar ber helst að nefna Magical Mystery Tour sem varð efni í kvikmynd, og Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band sem var hluti af sýrurokksæðinu á sjöunda áratugnum.

Hljómsveitin gerði einnig nokkrar kvikmyndir. Sú fyrsta nefndist Bítlarnir, eða A Hard Day's Night á móðurmálinu, og í kjölfarið fylgdu Help!, Magical Mystery Tour, heimildarmyndin Let It Be og teiknimyndin Yellow Submarine, sem Bítlarnir komu nánast ekkert nálægt.

Árið 2023 var síðasta lag Bítlanna, „Now and Then“, gefið út með aðstoð gervigreindar. John Lennon hafði sungið lagið inn á upptöku mörgum áratugum fyrr.[6][7]

Útgefið efni

[breyta | breyta frumkóða]

Breiðskífur

[breyta | breyta frumkóða]

Smáskífur

[breyta | breyta frumkóða]
  • „My Bonnie“ (1962)
  • „Love Me Do“ (1962)
  • „Please Please Me“ (1963)
  • „From Me To You“ (1963)
  • „She Love's You“ (1963)
  • „I Want To Hold Your Hand“ (1963)
  • „The Beatles Christmas Record“ (1963)
  • „Sweet Georgia Brown“ (1964)
  • „Cry For A Shadow“ (1964)
  • „Can't Buy Me Love“ (1964)
  • „Ain't She Sweet“ (1964)
  • „A Hard Day's Night“ (1964)
  • „I Feel Fine“ (1964)
  • „If I Fell“ (1964)
  • „Another Beatles Christmas Record“ (1964)
  • „Ticket To Ride“ (1965)
  • „Help !“ (1965)
  • „Day Tripper“ (1965)
  • „The Beatles Third Christmas Record“ (1965)
  • „Paperback Writer“ (1966)
  • „Eleanor Rigby“ (1966)
  • „Pantomime: Everywhere It's Christmas“ (1966)
  • „Strawberry Fields Forever“ (1967)
  • „All You Need Is Love“ (1967)
  • „Hello, Goodbye“ (1967)
  • „Christmas Time (Is Here Again)“ (1967)
  • „Lady Madonna“ (1968)
  • „Hey Jude“ (1968)
  • „The Beatles Sixth Christmas Record“ (1968)
  • „Get Back“ (1969)
  • „Ballad Of John And Yoko“ (1969)
  • „Something“ (1969)
  • „The Beatles Seventh Christmas Record“ (1969)
  • „Let It Be“ (1970)

Leiknar

Valdar heimildamyndir og tónleikaupptökur

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Arnar Eggert Thoroddsen (8.2.2019). „Af hverju urðu Bítlarnir svona ótrúlega vinsælir?“. Vísindavefurinn.
  2. Siggins, Gerard (7. febrúar 2016). „Yeah, Yeah, Yeah! Rare footage of the Beatles's Dublin performance“. Irish Independent. Afrit af uppruna á 9. nóvember 2019. Sótt 1. desember 2017.
  3. Hotten, Russell (4. október 2012). „The Beatles at 50: From Fab Four to fabulously wealthy“. BBC News. Afrit af uppruna á 12. mars 2013. Sótt 28. janúar 2013.
  4. „Greatest of All Time Artists“. Billboard. Sótt 21. mars 2023.
  5. Drew Wardle (24. maí 2021). „Did Yoko Ono break up The Beatles?“. Far Out.
  6. The Beatles announce release date for last song Now and Then Blabbermouth.net, 26/10 2023
  7. „Nýtt bítlalag gefið út í næstu viku“. mbl.is. 26. október 2023. Sótt 27. október 2023.