Fara í innihald

LSD

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Efnafræðileg uppbygging LSD.

LSD (skammstöfun á lýsergíð-sýru díetýlamíð, stundum óformlega kallað sýra) er ofskynjunarlyf.[1] Það veldur brenglun á skynjun, hugsun, og tilfinningum. Ásamt ofskynjunum veldur LSD víkkun sjáaldra, og hækkuðum blóðþrýstingi og líkamshita.[2] Áhrifin koma fram eftir hálftíma og geta enst í 12 klukkustundir.[2] LSD er helst notað sem vímuefni, af og til í trúarlegum tilgangi.

LSD er ekki ávanabindandi, en notendur geta byggt upp þol eftir því sem þeir nota hærri skammta.[1] Í vímunni getur fólk fengið kvíðakast, fengið ofsóknaræði, eða miklar ranghugmyndir. Í allra verstu tilfellum getur lyfið valdið síendurteknum ofskynjunarköstum sem vara í mörg ár. Lyfið sjálft getur ekki dregið fólk til dauða, þó að slys geti átt sér stað meðan fólk er í vímu.[2]

Algengur neysluskammtur af lyfinu er 50-150 míkrógrömm. Aðeins þarf örfá míkrógrömm af lyfinu til að fá fram áhrif, væg víma fæst af 20 míkrógrömmum. Talið er að lyfið virki með því að brengla serótónínkerfi heilans, nánar tiltekið með því að auka næmni 5-HT2A viðtakans.[2] Lyfið er lyktarlaust, ýmist hvítt eða litlaust, myndar kristalla og brotnar niður ef það er útsett fyrir útfjólubláu ljósi.

Lyfið náði mestum vinsældum á árunum 1960–1990 og var nokkuð tengt hippamenningunni. Það hefur enn talsverða útbreiðslu og hafa 10% Bandaríkjamanna notað lyfið einhverntímann á ævinni (könnun frá 2017). Lyfið er vanalega selt á niðurskornum þerripappír og það er innbyrt með því að halda pappírnum undir tungunni eða með því að kyngja honum.[3]

LSD veldur ofskynjunum sem koma fram eftir hálftíma og geta enst í 12 klukkustundir. Notendur lýsa vímunni oft sem ferðalagi (trip). Víman getur verið ánægjuleg og örvandi, fólki líður oft eins og það sé svífandi, missi tenginguna við raunveruleikann, það finnur fyrir sælutilfinningu, og losar um hömlur. Sjónrænum truflunum er lýst sem gárum á yfirborði allra hluta. Litir verða sterkari, og fram koma ýmis mynstur. Tímaskyn brenglast, tíminn verður löturhægur og endurtekur sig. En víman getur líka verið slæm, sterkar neikvæðar hugsanir geta komið fram, fólk getur fengið kvíðakast, ofsóknaræði, geðsveiflur, sterka vonleysistilfinningu, og sjálfsmorðshugsanir. Hjá sumum getur LSD valdið geðrofi og dregið fram geðklofa, sér í lagi hjá þeim sem hafa fjölskyldusögu um geðklofa.[4]

Svissneski efnafræðingurinn Albert Hofmann uppgötvaði LSD árið 1938 eftir að hafa rannsakað sveppinn korndrjóla og þau efni sem sveppurinn myndaði. Sveppurinn vex á korni.[2] Árið 1943 komst Albert svo að ofskynjunareiginleikum lyfsins.

LSD er bannað víðsvegar um heim. Á Íslandi fellur LSD undir lög um ávana- og fíkniefni og er grunnsektin fyrir að vera tekinn með LSD 50.000 krónur.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „What are hallucinogens?“. National Institute of Drug Abuse. janúar 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. apríl 2016. Sótt 24. apríl 2016.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 „LSD profile (chemistry, effects, other names, synthesis, mode of use, pharmacology, medical use, control status)“. EMCDDA (enska). Sótt 14. júlí 2018.
  3. „LSD profile (chemistry, effects, other names, synthesis, mode of use, pharmacology, medical use, control status)“. EMCDDA (enska). Sótt 14. júlí 2018.
  4. Rogge, Timothy (21. maí 2014), Substance use - LSD, MedlinePlus, U.S. National Library of Medicine, afrit af upprunalegu geymt þann 28 júlí 2016, sótt 14. júlí 2016
  5. Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Snæbirni Brynjarssyni um skráningu vímuefnabrota á sakaskrá. Alþingi.