Fara í innihald

Hundrað ára stríðið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hundraðárastríðið)
Hundrað ára stríðið

Rómantísk mynd af Jóhönnu af Örk í umsátrinu um Orléans.
Dagsetning24. maí 1337 – 19. október 1453 (116 ár, 4 mánuður, 3 vikur og 4 dagar)
Staðsetning
Niðurstaða

Sigur Frakka og bandamanna þeirra

  • Valois-ættin heldur frönsku krúnunni og kemur í veg fyrir sameiningu ensku og frönsku krúnanna. Englendingar afsala sér í reynd tilkalli til frönsku krúnunnar.
Breyting á
yfirráðasvæði
Englendingar glata öllu landsvæði sínu á meginlandi Evrópu nema Calais.
Stríðsaðilar

Valois-ætt og bandamenn:

Plantagenet-ætt og bandamenn:

Stríðsaðilar sem skiptu um lið á meðan á stríðinu stóð eru merktir með stjörnu ( * ). Þeir eru sýndir þeim megin þar sem þátttaka þeirra vóg þyngra.
Leiðtogar

Hundrað ára stríðið var stríð á milli Frakka og Englendinga sem stóð með hléum í 116 ár, eða frá 1337 til 1453. Meginástæða stríðsins var að Englandskonungar gerðu tilkall til frönsku krúnunnar eftir að hin gamla ætt Kapetinga dó út með Karli 4. árið 1328. Valois-ætt tók þá við í Frakklandi en Játvarður 3. Englandskonungur, systursonur Karls, taldi sig réttborinn til arfs. Stríðið var háð að langmestu leyti í Frakklandi og lauk með því að Englendingar misstu öll lönd sín í Frakklandi fyrir utan Calais og nánasta umhverfi.

Heiti þessara stríðsátaka, hundrað ára stríðið, er seinni tíma hugtak sem sagnfræðingar nota yfir tímabilið. Stríðinu hefur einnig verið skipt niður í þrjú til fjögur styttri tímabil: Játvarðsstríðið (1337-1360), Karlsstríðið (1369-1389), Lankastrastríðið (1415-1429) og svo síðasta tímabilið, þar sem Jóhanna af Örk kom fram á sjónarsviðið og síga fór smátt og smátt á ógæfuhliðina hjá Englendingum.

Stríðið er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Þótt það væri fyrst og fremst átök á milli konungsætta varð það til þess að þjóðerniskennd mótaðist bæði með Englendingum og Frökkum, ný vopn komu fram á sjónarsviðið (til dæmis langboginn) og ný herkænskubrögð drógu úr mikilvægi gömlu lénsherjanna, sem einkennst höfðu af þungvopnuðum riddaraliðssveitum. Í stríðinu komu stríðsaðilar sér upp fastaherjum, þeim fyrstu í Evrópu síðan á tímum Rómverja, og þurftu því ekki lengur að treysta á liðstyrk bænda í sama mæli og áður. Vegna alls þessa og vegna þess hve lengi stríðið stóð er það með mikilvægustu átökum miðalda.

Undanfari hundrað ára stríðsins

[breyta | breyta frumkóða]

Rætur stríðsátakanna má rekja allt aftur til ársins 911, þegar Karlunginn Karl einfaldi leyfði víkingnum Hrólfi (Rollo) að setjast að á því svæði innan veldis hans sem seinna kallaðist Normandí og íbúanir Normannar). Upp frá því voru höfðingjar Normanna lénsmenn Frakkakonungs, jafnvel eftir að þeir urðu konungar í Englandi. Árið 1066 lögðu Normannar undir stjórn Vilhjálms sigursæla, hertoga af Normandí, England undir sig með því að sigra Engilsaxa í bardaganum við Hastings. Upp úr því varð til ný valdastétt normanna í Englandi.

Eftir erfðadeiluna og borgarastyrjaldirnar í Englandi á 12. öld, en það tímabil hefur verið kallað Stjórnleysið (1135 - 1154), tók ný valdaætt við krúnunni, Plantagenetætt, afkomendur Geoffreys hertoga af Anjou (Angevinætt). Angevin-konungarnir erfðu stór svæði í Frakklandi og réðu á tímabili yfir stærri svæðum en frönsku konungarnir sjálfir. Þeir voru þó lénsmenn frönsku konunganna. Á 13. og 14. öld unnu Frakklandskonungar smám saman mestallar lendur Englendinga á sitt vald.

Ringulreið í Frakklandi: 1314-1328

[breyta | breyta frumkóða]

Í Frakklandi hafði Capet-ættin (Kapetingar) ríkt í margar aldir. Þetta var langlífasta konungsætt miðalda í Evrópu og ríkti eða frá 987 til 1328. Filippus 4. dó árið 1314 og lét þá eftir sig þrjá syni sem áttu eftir að erfa krúnuna, einn af öðrum; Loðvík 10., Filippus 5. og Karl 4.. Elsti sonurinn og erfinginn, Loðvík 10., dó árið 1316 og var kona hans þá þunguð. Sonur hans, Jóhann 1. varð konungur við fæðingu en dó fárra daga gamall. Loðvík lét einnig eftir sig dóttur, Jóhönnu, en konur áttu ekki erfðarétt til krúnunnar samkvæmt frönskum lögum. Auk þess breiddi Filippus bróðir Loðvíks út orðróm um að Jóhanna væri í raun ekki dóttir Loðvíks, en móður hennar hafði verið varpað í dýflissu fyrir framhjáhald og dó hún þar. Stéttaþing ályktaði að kona ætti ekki að stjórna landinu og því varð Filippus 5. konunugur. Filippus dó svo árið 1322, án þess að hafa eignast son. Dætur hans voru þá settar til hliðar og þriðji sonur Filippusar 4., Karl 4., varð konungur.

Árið 1324 börðust Karl 4. og Játvarður 2. Englandskonungur í hinu stutta stríði í Saint-Sardos í Gaskóníu, en það hertogadæmi, sem var hluti Akvitaníu, var þá eitt eftir af lendum Englandskonunga í Frakklandi. Helsta uppákoman í stríðinu var hertaka enska virkisins La Réole, við ána Garonne. Enski heraflinn neyddist til að gefast upp eftir mánaðarlangar sprengjuárásir frá frönskum fallbyssum, og eftir að liðsauki sem átti að koma til þeirra brást. Stríðið var í raun klúður af hálfu Englendinga og eftir það var aðeins hluti af Gaskóníu í þeirra höndum.

Karl 4. dó árið 1328 án þess að hafa eignast son og því var óvissa um hver yrði konungur. Systir Karls, Ísabella, var gift Játvarði 2. Englandskonungi, og hún taldi að sonur þeirra, hinn ungi Játvarður 3. væri lögmætur erfingi frönsku krúnunnar. Aðalsmenn í Frakklandi vildu hinsvegar ekki að útlendur konungur yrði konungur Frakklands og því var fjarskyldari frændi Karls 4., Filippus af Valois, krýndur sem Filippus 6. Frakkakonungur.

Aðdragandi stríðsins: 1328-1337

[breyta | breyta frumkóða]

Englandskonungar höfðu áður verið hertogar Akvitaníu, sem þeir höfðu eignast þegar Elinóra af Akvitaníu giftist Hinrik 2. Englandskonungi árið 1154, en þegar Játvarður 3. tók við konungdæmi árið 1327 eftir að faðir hans var neyddur til að segja af sér var hluti af Gaskóníu það eina sem eftir var af ríki Elinóru. Þar sem Gaskónía var lén innan Frakklands og Játvarður lénsmaður Frakkakonungs sór hann Filppusi 6. hollustueið árið 1329. Á yfirborðinu virtist því Játvarður viðurkenna Filippus sem konung Frakklands og Filippus virtist að sama skapi viðurkenna yfirráð Játvarðs yfir Gaskóníu. Fljótlega kom þó í ljós að þeir höfðu báðir annað í huga; Játvarður áleit sig vera réttmætan erfingja frönsku krúnunnar og gerði því tilkall til hennar og Filippus hafði hug á að ná völdum í hinu auðuga Gaskóníuhéraði.

Játvarður hætti hinsvegar að seilast til frönsku krúnunnar árið 1331 því hann þurfti að takast á við vandamál heima fyrir. Árið 1333 fór hann svo í stríð gegn Davíð 2. Skotakonungi, sem var þá aðeins um 10 ára gamall. Davíð flúði fljótlega til Frakklands, því Skotar og Frakkar voru bandamenn og höfðu gert með sér svonefndan Auld-sáttmála. Í framhaldi af því áformaði Filippus að leggja Davíð lið og ná um leið sjálfur yfirráðum í Gaskóníu.

Fyrsti hluti

[breyta | breyta frumkóða]
Myndin sýnir gang stríðsins:
  yfirráðasvæði Frakklandskonungs
  yfirráðasvæði Englandskonungs
  yfirráðasvæði hertogans af Burgundy

Upphaf stríðsins: 1337-1360

[breyta | breyta frumkóða]

Stríðið hófst árið 1337 þegar Filippus 6. endurheimti Gaskóníu af Englendingum. Játvarður 3. brást við með því að endurnýja tilkall sitt til frönsku krúnunnar, sem var í raun stríðsyfirlýsing. Frakkar höfðu á þessum tíma stærri her og stærri flota og á Englandi var, í upphafi stríðsins, stöðugur ótti um að Frakkar gerðu innrás. Það breyttist hins vegar árið 1340 þegar Englendingar eyðilögðu næstum allan franska flotann í bardaganum við Sluys, og höfðu þá yfirráð yfir Ermarsundi það sem eftir var stríðsins.

Í júlí 1346 gerði Játvarður innrás inn í Frakkland og vann sama ár sigur á frönskum her í bardaganum við Crécy. Bardaginn var hrein hörmung fyrir Frakka þar sem þeir höfðu margfalt stærri her en voru samt sem áður gjörsigraðir. Játvarður hertók því næst Calais, sem varð hernaðarlega mikilvæg fyrir Englendinga það sem eftir var stríðsins.

Árið 1356 réðist sonur Játvarðs 3., Játvarður af Woodstock (Svarti prinsinn), inn í Frakkland frá Gaskóníu og vann franskan her í bardaganum við Poiters. Aftur var franski herinn talsvert stærri en sá enski, en Englendingar unnu stórsigur og tóku Jóhann 2. Frakkakonung, son Filippusar 6., til fanga og var hann fluttur til Englands og var hafður í haldi þar næstu árin. Játvarður 3. gerði eina innrás enn í Frakkland árið 1358 en mistókst að hertaka París og Reims.

Fyrsta friðartímabil: 1360-1369

[breyta | breyta frumkóða]

Friðarsamningur sem kallast Brétigny-sáttmálinn var undirritaður árið 1360. Frakkar samþykktu að greiða hátt lausnargjald fyrir konung sinn og var næstelsti sonur hans, Loðvík hertogi af Anjou, sem þá var um tvítugt, látinn í hendur Englendinga sem gísl til tryggingar á að gjaldið yrði greitt. Það gekk hinsvegar erfiðlega að safna peningum í Frakklandi og Loðvík þurfti að vera lengur í haldi en áætlað var í upphafi. Hann strauk því úr haldi Englendinga árið 1363 og komst heim til Frakklands. Föður hans fannst þá heiður sinn í veði og ákvað því að gefa sjálfan sig aftur fram sem gísl, þvert á vilja ráðgjafa sinna, og sigldi til Englands þar sem komu hans var fagnað mjög. Nokkrum mánuðum síðar veiktist Jóhann konungur og lést í haldi árið 1364. Tók þá elsti sonur hans, Karl 5., við af honum sem konungur.

Brétigny-sáttmálinn kvað á um að Játvarður skyldi hætta að gera tilkall til frönsku krúnunnar en í staðinn voru yfirráð hans yfir stórum svæðum í Frakklandi viðurkennd. Játvarður hætti þó í raun ekki erfðatilkalli sínu og Karl 5. vildi ná yfirráðum að nýju yfir svæðunum sem Játvarður stjórnaði. Karl lýsti því yfir stríði á hendur Englendingum árið 1369, á þeim forsendum að Játvarður hefði brotið gegn Brétigny-sáttmálanum.

Annar hluti

[breyta | breyta frumkóða]
Stytta af Du Guesclin

Franskir sigrar á tímum Karls 5.: 1369-1389

[breyta | breyta frumkóða]

Á valdatíma sínum náði Karl 5. að vinna á sitt vald stóran hluta af þeim svæðum sem Játvarður hafði lagt undir sig. Það var ekki síst að þakka Bertrand du Guesclin, einum sigursælasta hershöfðingja Frakka í stríðinu. Einnig var Svarti prinsinn orðinn alvarlega veikur og gat því ekki lengur stýrt herjum Englendinga, og Játvarður 3. var orðinn of gamall. Svarti prinsinn lést 1376 og Játvarður 3. 1377. Við krúnunni tók þá Ríkharður 2., sonur Svarta prinsins, en hann var aðeins 10 ára.

Du Guesclin vann margar borgir og bæi af Englendingum en forðaðist að mæta meginher þeirra í bardaga. Englendingar reyndu að lokka hann til að leggja til orrustu með því að valda sem mestri eyðileggingu á frönsku landssvæði en du Guesclin vildi ekki taka áhættu á úrslitabardaga. Hann lést svo árið 1380. Ríkharður 2. hafði takmarkaðan áhuga á því að halda stríðinu til streitu og samið var um vopnahlé árið 1389.

Annað friðartímabil: 1389-1415

[breyta | breyta frumkóða]

Óstöðugleiki innanlands einkenndi bæði löndin á árunum 1389 - 1415. Í Frakklandi ríkti Karl 6. á árunum 1380 til 1422. Hann átti við geðræn vandamál að stríða og það leiddi til þess að frændi hans og bróðir tókust á um völdin.

Hinrik 4. Englandskonungur, sem hafði steypt frænda sínum Ríkharði 2. af stóli árið 1399, gerði áætlanir um innrás í Frakkland en þurfti að fresta henni vegna átaka við Skota og vegna uppreisnar í Wales. Það var svo sonur hans, Hinrik 5. sem lýsti yfir stríði að nýju og réðst inn í Frakkland árið 1415.

Þriðji hluti

[breyta | breyta frumkóða]
Hinrik 5.

Enskir sigrar á tímum Hinriks 5.: 1415-1429

[breyta | breyta frumkóða]

Hinrik 5. gerði tilkall til svæða í Frakklandi sem höfðu tilheyrt Englandskonungum á tímum Hinriks 2., en þau voru m.a. Normandí og Akvitanía. Hinrik vann stórsigur á Frökkum árið 1415, í bardaganum við Agincourt, þar sem franski herinn var mun stærri en sá enski. Hann náði mestum hluta Normandí á sitt vald á næstu árum; Caen árið 1417 og Rouen árið 1419. Árið 1420 hittust Hinrik 5. og Karl 6. þegar Troyes-samningurinn var undirritaður. Þar var kveðið á um að Hinrik skyldi kvænast dóttur Karls, Katrínu af Valois, og að Hinrik, eða erfingi hans og Katrínar, skyldi erfa krúnu Frakklands. Hinrik og Karl létust báðir árið 1422. Sonur Hinriks, Hinrik 6., þá aðeins tæplega eins árs gamall, tók við krúnu Englands. Samkvæmt Troyes-samningnum átti hann líka að taka við krúnu Frakklands en Karl 7., sonur Karls 6., gerði einnig tilkall til hennar.

Frakkar ná yfirhöndinni: 1429-1453

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1428 hófu Englendingar umsátur um Orléans. Umsátrið varði fram á árið 1429 en þá sendi Karl 7. unga stúlku á táningsaldri, Jóhönnu af Örk, til Orléans. Jóhanna hafði sannfært Karl um að hún hefði fengið skilaboð frá Guði um að hún ætti að berjast gegn Englendingum. Jóhanna leiddi her til Orléans og náði, á níu dögum, að hrekja enska herinn frá borginni. Frakkar unnu í kjölfarið nokkra sigra á enska hernum og náðu að lokum Reims á sitt vald. Karl 7., sem var formlega ennþá krónprins, var þá krýndur konungur í Reims. Jóhanna af Örk var svo tekin til fanga árið 1430 og tekin af lífi af Englendingum árið 1431.

Á næstu árum beittu Frakkar sömu aðferðum og Du Guesclin hafði gert áður og forðuðust að mæta Englendingum í stórum bardögum. Smám saman unnu Frakkar flest landsvæði Englendinga, en stríðið dróst þó á langinn, einna helst fyrir tilstuðlan enska hershöfðingjans John Talbot. Talbot sigraði franskt herlið í nokkrum bardögum, en það var ekki nóg til þess að snúa gangi stríðsins við og hann féll svo í bardaganum við Castillon árið 1453. Það var síðasti bardagi hundrað ára stríðsins og eftir hann höfðu Englendingar misst öll sín lönd í Frakklandi fyrir utan Calais, sem þeir héldu til 1558.

Helstu persónur

[breyta | breyta frumkóða]
England
Játvarður 3. 1327–1377 sonur Játvarðar 2.
Ríkharður 2. 1377–1399 sonarsonur Játvarðar 3.
Hinrik 4. 1399–1413 sonarsonur Játvarðar 3.
Hinrik 5. 1413–1422 sonur Hinriks 4.
Hinrik 6. 1422–1461 sonur Hinriks 5.
Játvarður svarti prins 1330–1376 sonur Játvarðar 3.
John af Gaunt, hertogi af Lancaster 1340–1399 sonur Játvarðar 3.
John af Lancaster, hertogi af Bedford 1389–1435 sonur Hinriks 4.
Henry af Grosmont, hertogi af Lancaster 1306–1361 riddari
John Talbot, jarl af Shrewsbury 1384–1453 riddari
Richard Plantagenet, 3. hertogi af York 1411–1460 riddari
Sir John Fastolf 1378?–1459 riddari
Frakkland
Filippus 6. 1328–1350
Jóhann 2. 1350–1364 sonur Filippusar 6.
Karl 5. 1364–1380 sonur Jóhanns 2.
Loðvík 1. af Anjou 1380–1382 sonur Jóhanns 2.
Karl 6. 1380–1422 sonur Karls 5.
Karl 7. 1422–1461 sonur Karls 6.
Jóhanna af Örk 1412–1431 dýrlingur
Jean de Dunois 1403–1468 riddari
Gilles de Rais 1404–1440 riddari
Bertrand du Guesclin 1320–1380 riddari
Jean Bureau 13??–1463 riddari
La Hire 1390–1443 riddari
Búrgund
Filippus djarfi, hertogi af Búrgund 1363–1404 sonur Jóhanns 2. Frakkakonungs
Jóhann óttalausi, hertogi af Búrgund 1404–1419 sonur Filippusar djarfa
Filippus góði, hertogi af Búrgund 1419–1467 sonur Jóhanns óttalausa