Ludvig Holstein-Ledreborg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ludvig Holstein-Ledreborg
Forsætisráðherra Danmerkur
Í embætti
16. ágúst 1909 – 28. október 1909
ÞjóðhöfðingiFriðrik 8.
ForveriNiels Neergaard
EftirmaðurCarl Theodor Zahle
Persónulegar upplýsingar
Fæddur10. júní 1839
Hochberg, Konungsríkinu Württemberg
Látinn1. mars 1912 (72 ára) Ledreborg, Danmörku
ÞjóðerniDanskur
StjórnmálaflokkurVenstre
TrúarbrögðKaþólskur
HáskóliKaupmannahafnarháskóli
StarfLandeigandi

Johan Ludvig (Louis) Carl Christian Tido Holstein lénsgreifi af Ledreborg (10. júní 18391. mars 1912) var danskur landeigandi og stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Danmerkur í fáeina mánuði á árinu 1909. Hann var einn síðast fulltrúi aðalsmanna í dönskum stjórnmálum og jafnframt eini kaþólikkinn sem gegnt hefur forsætisráðherraembættinu.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Holstein var sonur dansks greifa og þýskrar greifadóttur sem var kaþólskrar trúar og ól soninn upp í þeirri trú. Hann tók trú sína alvarlega og stóð m.a. í ritdeilum sem ungur maður um trúmál við guðfræðinga úr hópi mótmælenda. Holberg var fyrst kjörinn á þing árið 1872 og varð það upphafið að löngum stjórnmálaferli. Hann þótti í hópi snjöllustu ræðumanna á þingi en komst þó ekki til mikilla metorða og árið 1890 ákvað hann að draga sig af pólitíska sviðinu. Næstu árin var hann langdvölum í útlöndum auk þess sem faðir hans lést og Holstein tók við ættaróðalinu árið 1892 og varði miklum tíma í uppbyggingu þess, auk þess að rannsaka og skrifa um kirkjusögu.

Honum bauðst að taka við embætti forsætisráðherra árið 1901 þegar þingræði var tekið upp í Danmörku en afþakkaði og féll embættið á í hlut Johan Henrik Deuntzer. Haustið 1909 lét hann hins vegar tilleiðast að mynda ríkisstjórn til að höggva á hnútinn í stjórnarkreppu, ekki hvað síst með það að markmiði að ná í gegn umdeildum varnarmálalögum. Það var ekki hvað síst persónulegt ósætti þeirra Jens Christian Christensen og Niels Neergaard sem olli stjórnarkreppunni þar sem hvorugur gat hugsað sér að starfa undir hinum, báðir tóku þó sæti í stjórninni.

Ríkisstjórn Holstein var í raun fyrsta minnihlutastjórnin eftir tilkomu þingræðisins og á skömmum valdatíma fékk hún á sig tvær vantrauststillögur. Sú síðari var samþykkt og var þetta því fyrsta ríkisstjórn Danmerkur til að falla með þeim hætti. Holstein sagði þegar af sér og mælti með því við konung að fulltrúa Radikale Venstre, sem báru upp vantrauststillöguna, yrði falið stjórnarmyndunarumboð. Þar með lauk stjórnmálaafskiptum Holstein endanlega og hann lést þremur árum síðar.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Niels Neergaard
Forsætisráðherra Danmerkur
(16. ágúst 190928. október 1909)
Eftirmaður:
Carl Theodor Zahle