Hannibal Sehested (forsætisráðherra)
Hannibal Sehested | |
---|---|
Forsætisráðherra Danmerkur | |
Í embætti 27. apríl 1900 – 24. júlí 1901 | |
Þjóðhöfðingi | Kristján 9. |
Forveri | Hugo Hørring |
Eftirmaður | Johan Henrik Deuntzer |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 16. nóvember 1842 Gudme, Fjóni, Danmörku |
Látinn | 19. september 1924 (81 árs) Gudme, Fjóni, Danmörku |
Þjóðerni | Danskur |
Stjórnmálaflokkur | Hægriflokkurinn |
Háskóli | Kaupmannahafnarháskóli |
Hannibal Sehested (16. nóvember 1842 – 19. september 1924) var danskur landeigandi og forsætisráðherra í rúmlega ár, frá 1900 til 1901. Hann var síðasti forsætisráðherrann sem konungur Danmerkur skipaði í óþökk þingsins áður en þingræði komst á í landinu.
Ævi og störf
[breyta | breyta frumkóða]Sehsted fæddist á Fjóni, sonur stóreigna- og aðalsfólks. Hann lauk lagaprófi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1869. Að því loknu sinnti hann búrekstri samhliða lögfræðistörfum. Árið 1886 var hann kjörinn á þing fyrir Hægriflokkinn og sat þar til ársins 1910.
Þegar stjórn Reedtz-Thott féll árið 1897 var Sehsted orðaður við stöðu forsætisráðherra. Af því varð þó ekki. Hins vegar lét hann undan þrýstingi frá konungi og Estrup fyrrum forsætisráðherra að taka við stjórnartaumunum á vormánuðum 1900. Auk forsætisráðherraembættisins gegndi Sehsted jafnframt stöðu utanríkisráðherra.
Í júlímánuði 1900 flutti Friðrik krónprins ræðu þar sem hann lofsöng ríkisstjórn Sehsted, sem hann sagði skipaða þróttmiklum ættjarðarvinum. Ræðan var eins og rauð dula sem veifað var framan í leiðtoga Venstre. Fyrir vikið gusu deilurnar milli Hægriflokksins og Venstre upp á nýjan leik.
Gengið var til þingkosninga í byrjun apríl 1901, þar sem Hægriflokkurinn beið afhroð og missti helming þingflokks síns, sat eftir með einungis átta fulltrúa. Í kjölfarið óskaði konungur þess af stjórninni að hún bæðist lausnar og við tók tími þingræðis í Danmörku.
Eftir að hafa hrökklast úr forsætisráðuneytinu hafði Sehsted litlu hlutverki að gegna í dönskum stjórnmálum, þótt hann sæti enn um sinn sem þingmaður. Hann lést árið 1924.
Ítarefni
[breyta | breyta frumkóða]- P. Stavnstrup, „Hannibal Sehested“, í: Povl Engelstoft & Svend Dahl (ritsj.), Dansk Biografisk Leksikon, København: J.H. Schultz Forlag 1932-44.
- Kraks Blaa Bog 1910.
Fyrirrennari: Hugo Hørring |
|
Eftirmaður: Johan Henrik Deuntzer |