Fara í innihald

Viggo Kampmann

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Viggo Kampmann
Forsætisráðherra Danmerkur
Í embætti
21. febrúar 1960 – 3. september 1962
ÞjóðhöfðingiFriðrik 9.
ForveriH. C. Hansen
EftirmaðurJens Otto Krag
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. júlí 1910
Frederiksberg, Danmörku
Látinn3. júní 1976 (65 ára) Store Torøje, Faxe, Danmörku
ÞjóðerniDanskur
StjórnmálaflokkurJafnaðarmannaflokkurinn
HáskóliKaupmannahafnarháskóli

Olfert Viggo Fischer Kampmann (21. júlí 19103. júní 1976) var danskur hagfræðingur, þingmaður Jafnaðarmannaflokksins og forsætisráðherra Danmerkur í frá 1960 til 1962. Þar á undan hafði hann gegnt embætti fjármálaráðherra um alllangt skeið.

Ævi og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Kampmann fæddist í Frederiksberg og gekk menntaveginn. Hann lauk hagfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla og varð fyrsti leiðtogi Jafnaðarmanna til að koma úr röðum menntamanna. Hann komst snemma í raðir helstu efnahagsráðgjafa flokksins og varð fjármálaráðherra utan þings um skamma hríð árið 1950. Hann var kjörinn á þing árið 1953 og tók þá á ný við fjármálaráðherraembættinu.

Þegar H. C. Hansen forsætisráðherra lést í embætti árið 1960 tók Kampmann við af honum og telst það fyrra ráðuneyti hans. Sú stjórn var samsteypustjórn Jafnaðarmanna, Radikale venstre og Retsforbundet. Kampmann átti bágt með samstarfið við Retsforbundet og lét efna til nýrra kosninga á árinu 1960. Í þeim féll Retsforbundet út af þingi en hinir stjórnarflokkarnir bættu við sig og náðu að mynda minnihlutastjórn undir forystu Kampmann.

Ýmsar veigamiklar umbætur voru gerðar á danska velferðarkerfinu í stjórnartíð Kampmann, s.s. í málefnum fatlaðra. Heilbrigðistryggingar urðu almennar og hætt var að skerða stjórnmálaleg réttindi fólks sem þegið hafði sveitarstyrk. Þá var tekið upp nýtt söluskattskerfi, sem varð undanfari virðisaukaskatts.

Þótt óumdeilt væri að Kampmann væri meðal skörpustu forsætisráðherra í sögu Danmerkur, þótti hann stundum undarlegur í háttum. Sú hegðun skýrðist í mörgum tilvikum af geðhvarfasýki sem hann átti við að etja. Slagurinn við sjúkdóminn leiddi hann á köflum út í ofneyslu áfengis sem gat orðið til þess að hann gat horfið svo dögum skipti. Fjölmiðlar gættu þess þó rækilega að segja aldrei frá þessum veikindum.

Þann 3. september 1962 sagði Kampmann af sér í kjölfar ítrekaðra hjartaáfalla. Jens Otto Krag tók við forsætisráðherraembættinu og formennskunni í flokki Jafnaðarmanna. Kampmann gerðist stjórnmálaskýrandi og stýrði Fjölmiðlaeftirliti Danmerkur. Hann lést í júní 1976.

  • Arne Gaardmand: Dansk byplanlægning 1938-1992; Arkitektens Forlag 1993; ISBN 87-7407-132-7
  • Poul Schmidt: Viggo Kampmann - modig modstandsmand, klog finansminister, ustyrlig statsminister. Gyldendal, 2016. ISBN 9788702054576.


Fyrirrennari:
H. C. Hansen
Forsætisráðherra Danmerkur
(21. febrúar 19603. september 1962)
Eftirmaður:
Jens Otto Krag