Fara í innihald

Carl Christoffer Georg Andræ

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Carl Christoffer Georg Andræ
Forsætisráðherra Danmerkur
Í embætti
18. október 1856 – 13. maí 1857
ÞjóðhöfðingiFriðrik 7.
ForveriPeter Georg Bang
EftirmaðurCarl Christian Hall
Persónulegar upplýsingar
Fæddur14. október 1812
Hjertebjerg, Danmörku
Látinn2. febrúar 1893 (80 ára) Kaupmannahöfn, Danmörku
ÞjóðerniDanskur
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
MakiHansine Pauline Schack
BörnPoul Georg Andræ
StarfStærðfræðingur, stjórnmálamaður

Carl Christoffer Georg Andræ (14. október 18122. febrúar 1893) var danskur herforingi, stærðfræðingur og stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Danmerkur á árunum 1856-57. Sem stærðfræðingur var hann höfundur kosningakerfis sem við hann er kennt og var um langt árabil notað í Danmörku.[1]

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

C.C.G. Andræ var sonur yfirmanns í danska hernum sem lést þegar pilturinn var á öðru aldursári. Hinn ungi Andræ ákvað að fylgja í fótspor föðursins og fékk skjótan framgang innan hersins. Í náminu komu í ljós miklir stærðfræðihæfileikar og var Andræ m.a. sendur til Parísar til að nema meiri stærðfræði. Hann þokaðist sífellt ofar í virðingaröð hersins, en sinnti jafnframt kennslu í háskóla hersins.

Stjórnmálaafskipti Andræ hófust árið 1848 þegar hann varð konungsskipaður fulltrúi á stjórnlagaþingi sem vann að því að semja stjórnarskrá Danmerkur. Tillögur stjórnvalda gengu út á að skipta þinginu upp í tvær deildir, þar sem efnamönnum væru í raun tryggð völdin í efri deildinni. Frjálslyndari öfl kölluðu eftir þingi í einni deild sem byggðist á lýðræðislegri sjónarmiðum. Andræ freistaði þess að miðla málum og talaði fyrir útfærslu í einni deild þar sem hagsmunir íhaldsmanna væru þó tryggðir. Sú hugmynd skilaði litlum árangri en varð þó til að vekja athygli á Andræ í ýmsum kreðsum.

Stuðningur Andræ við þing í einni málstofu gerði það að verkum að hann var gerður að frambjóðanda vinstriaflanna í þingkosningunum 1849 og komst þegar í forystustöðu þar.

Hann var endurkjörinn á þing árið 1853, þá fyrir Kaupmannahöfn. Hann lenti þegar í harðri stjórnarandstöðu við Ørsted-stjórnina. Þegar sú stjórn féll 1854 voru þeir Andræ, Scheele og Hall allir taldir vænlegir arftakar, en málamiðlunin varð sú að Peter Georg Bang varð forsætisráðherra, nánast að nafninu til, en félagarnir tóku sæti í stjórninni. Andræ varð fjármálaráðherra og reyndist afar áhrifamikill.

Andræ tók við forsætisráðherraembættinu síðla árs 1856 en lét það af hendi til Hall sjö mánuðum síðar, eftir mikil átök innan stjórnar sem einkum snerust um afstöðuna til Slésvíkurmálsins. Hann sat þó áfram í ríkisstjórninni um hríð sem fjármálaráðherra. Eftir að ráðherradómi lauk sat Andræ lengi á þingi, var löngum talinn til hóps íhaldsmanna en hélt þó alltaf sjálfstæði sínu. Hann lést árið 1893.

Ritverk[breyta | breyta frumkóða]

  • Poul Andræ, Geheimekonferentsraad Carl Georg Andræ – En biografisk Fremstilling med Bidrag til belysning af hans Samtidige, 2. bindi, Lehman & Stages Boghandel, 1909.
  • Poul Andræ, Andræ og Fællesforfatningen af 2. Oktober 1855.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Homeshaw, Judith (2001). „Inventing Hare-Clark: The model arithmetocracy“. Í Marian Sawer (ritstjóri). Elections: Full, Free & Fair Editor. Federation Press. bls. 97–98. ISBN 186287395X.


Fyrirrennari:
Peter Georg Bang
Forsætisráðherra Danmerkur
(18. október 185613. maí 1857)
Eftirmaður:
Carl Christian Hall