Tage Reedtz-Thott

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tage Reedtz-Thott
Forsætisráðherra Danmerkur
Í embætti
7. ágúst 1894 – 23. maí 1897
ÞjóðhöfðingiKristján 9.
ForveriJ. B. S. Estrup
EftirmaðurHugo Hørring
Persónulegar upplýsingar
Fæddur13. mars 1839
Gavnø Slot, Danmörku
Látinn27. nóvember 1923 (84 ára) Gavnø Slot, Danmörku
StjórnmálaflokkurHægriflokkurinn

Tage Reedtz-Thott lénsbarón (13. mars 183927. nóvember 1923) var íhaldssamur danskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra frá 1894 til 1897. Hann leitaðist við að koma á samstarfi íhaldsmanna og Venstre en varð að lokum að hverfa frá því vegna þrýstings frá eigin flokksfélögum.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Reedtz-Thott var sonur barónsins að Gaunø, á sunnanverðu Sjálandi. Hann sóttist snemma eftir frama í stjórnmálum og bauð sig nokkrum sinnum fram til Folketinget, neðri deildar danska þingsins, en þar áttu hægrimenn erfitt um vik. Þess í stað var hann árið 1886 valinn í efri deildina Landstinget, þar sem fulltrúar voru kjörnir með óbeinni kosningu og efnameiri kjósendur höfðu meira vægi. Sex árum síðar varð hann utanríkisráðherra í einni af ríkisstjórnum Estrup.

Estrup hvarf frá völdum eftir 19 ára setu á stóli forsætisráðherra árið 1894. Reedtz-Thott myndaði þá nýja stjórn og sat sjálfur sem bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Árin á undan höfðu einkennst af þrátefli í dönskum stjórnmálum, þar sem ríkisstjórn Estrup naut ekki meirihluta í neðri deildinni, Folketinget og stýrði þess í stað með bráðabirgðalögum. Hinn nýi forsætisráðherra vildi freista þess að höggva á þennan hnút og bæta samskiptin við stjórnarandstæðinganna í Venstre. Í því skyni reyndi hann í upphafi ferils síns að taka meira tillit til vilja neðri deildarinnar, en rakst þá á ýmsar hindranir. Embættismannakerfið var íhaldssamt, hægrimenn réðu ríkjum í efri deildinni og höfðu lítinn áhuga á málamiðlunum og þótt sumir innan stjórnarandstöðunnar væru opnir fyrir samstarfi voru aðrir sem óskuðu þess fremur að sjá ríkisstjórninni mistakast. Eftir erfiðar samningaviðræður um fjárlög árið 1897 varð stjórnin að játa sig sigraða og sagði af sér í maímánuði sama ár.

Átökin á stjórnarárum Reedtz-Thott ollu klofningi milli hans og ýmissa flokksfélaga og gekk hann til liðs við hóp íhaldsmanna sem nefndust De Frikonservative og voru flokksbrot eða stjórnmálaflokkur sem átti eftir að reynast mikilvægur í að miðla málum og mydna meirihluta á þingi á upphafsárum tuttugustu aldar. Sem almennur þingmaður kom hann mjög við sögu í ýmsum stórum málum, s.s. á sviði kirkjunnar, menntamála og skattlagningar á áfengi. Hann hætti afskiptum af stjórnmálum árið 1910 og lést árið 1923.

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Jacob Brønnum Scavenius Estrup
Forsætisráðherra Danmerkur
(7. ágúst 189423. maí 1897)
Eftirmaður:
Hugo Egmont Hørring