Fara í innihald

C. E. Frijs

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
C. E. Frijs
Forsætisráðherra Danmerkur
Í embætti
6. nóvember 1865 – 28. maí 1870
ÞjóðhöfðingiKristján 9.
ForveriC. A. Bluhme
EftirmaðurLudvig Holstein-Holsteinborg
Persónulegar upplýsingar
Fæddur8. desember 1817
Frijsenborg, Danmörku
Látinn12. október 1896 (78 ára) Tårs, Lálandi, Danmörku
StjórnmálaflokkurHægriflokkurinn
HáskóliHumboldt-háskólinn í Berlín

Christian Emil Krag-Juel-Vind-Frijs lénsgreifi af Frijsenborg (8. desember 181712. október 1896) var danskur stórjarðeigandi sem gegndi stöðu forsætisráðherra Danmerkur frá 1865 til 1870. Valdatíð hans var viðburðarík þar sem ýmis mikilvæg löggjöf var samþykkt, s.s. um málefni kirkjunar, dómstóla og járnbrautarsamgöngur, auk þess sem stjórnarskráin var endurskoðuð árið 1866. Um þessar mundir urðu stórjarðeigendur ráðandi stétt í dönskum stjórnmálum og héldu þeirri stöðu uns þingræðið var tekið upp árið 1901. Stjórnin starfaði í skugga niðurlægjandi ósigurs Dana í stríðinu við Prússa árið 1864 og mótaði það utanríkisstefnuna.

Ævi og störf

[breyta | breyta frumkóða]

C. E. Frijs var sonur greifans af Frijsenborg. Hann var sendur til náms við skólann í Sórey, þaðan sem hann lauk lagaprófi árið 1842. Hann tók við rekstri hluta af jarðeignum föður síns undir lok fimmta áratugarins og réðst þegar í mikla uppbyggingu, en seldu jafnframt leiguliðum sínum hluta landsins til sjálfsábúðar. Bakaði sú ráðstöfun honum miklar vinsældir meðal héraðsmanna. Frijs var talinn auðugasti stórbóndi landsins og lét hann reisa sér veglega höll til samræmis við það. Varð það mannvirki fyrirmynd fleiri danskra herragarða.

Frijs hóf snemma afskipti af þjóðmálum, bæði sveitarstjórnarmálum og fyrir hagsmunasamtök stórjarðeigenda. Hann var íhaldssamur í skoðunum en var þó fær um að skilja viðhorf frjálslyndari afla. Hann hafði efasemdir um vaxandi þjóðernishyggju og útþensludrauma sem áttu miklu fylgi að fagna í Danmörku á sjötta áratug nítjándu aldar, en studdi þó með semingi Nóvembersamþykktina árið 1863 um stöðu Slésvíkur sem leiddi til síðara Slésvíkurstríðsins árið eftir.

Afhroð Dana í stríðinu riðlaði öllum valdahlutföllum í dönskum stjórnmálum. Stórlandeigandastéttin ákvað að taka völdin í sínar hendur og varð Frijs sjálfsagður leiðtogi hópsins. Hann tók við embætti forsætisráðherra árið 1865 og var fyrsta verkefni stjórnar hans að leiða til lykta endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Auk forsætisráðherraembættisins gegndi Frijs einnig störfum utanríkisráðherra. Í hans hlut kom því að semja við Prússa um framkvæmd friðarsamninganna eftir Slésvíkurstríðið. Utanríkisstefna hans miðaðist einkum að því að halda Dönum hlutlausum í deilum stórveldanna.

Hann sagði sig frá embætti forsætisráðherra árið 1870, langþreyttur á flóknum málamiðlunum innan þings og gagnvart konungsvaldinu. Næstu tíu árin sat hann áfram á þingi en hafnaði öllum óskum um að taka að sér stjórnarmyndanir. Sonur hans, Mogens Frijs, varð síðar einn helsti hugmyndafræðingur danskra íhaldsmanna.

  • Niels Neergaard, „C.E. Frijs“, í: Christian Blangstrup (ritstj.), Salmonsens Konversationsleksikon, Kaupmannahöfn: J.H. Schultz Forlag 1915-30.
  • Niels Neergaard, „C.E. Frijs“, í: Povl Engelstoft & Svend Dahl (ritstj.), Dansk Biografisk Leksikon, Kaupmannahöfn: J.H. Schultz Forlag 1932-44.


Fyrirrennari:
Christian Albrecht Bluhme
Forsætisráðherra Danmerkur
(6. nóvember 186528. maí 1870)
Eftirmaður:
Ludvig Holstein-Holsteinborg