Fara í innihald

Norrænt samstarf

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Norræn samvinna)
Fánar Norðurlandanna og fáni opinbers samstarfs Norðurlandanna.
Norðurlöndin

Norrænt samstarf er svæðasamstarf sem yfirleitt einskorðast við Norðurlöndin en nær á sumum sviðum einnig til nálægra svæða, svo sem Eystrasaltsríkjanna, Norðvestur-Rússlands og nærliggjandi svæða á Norðurheimskautinu.

Það opinbera samstarf sem Norðurlöndin hafa með sér í dag birtist einna helst í starfsemi Norðurlandaráðs, stofnað 1952, og Norrænu ráðherranefndarinnar, stofnuð 1971. Norðurlöndin hafa verið í vegabréfasambandi frá 1957 sem felur það í sér að borgarar ríkja Norðurlandanna geta ferðast óhindrað þvert á landamæri ríkjanna. Í ríkisstjórnum allra Norðurlanda starfa norrænir samstarfsráðherrar og á öllum Norðurlöndunum eru reknar samnorrænar upplýsingaskrifstofur, vinnumiðlanir og þjónustur, til að mynda um norrænar rannsóknir og styrki.

Norðurlöndin vinna einnig náið saman í menningarmálum, Norðurlandaráð veitir árlega norræn verðlaun á sviðum lista og stofnanir eru starfræktar á því sviði. Þar gegna Norrænu félögin lykilhlutverki. Einnig rekur Norræna ráðherranefndin Norðurlandahús hér og þar, meðal annars Norræna húsið í Reykjavík.[1]

Kort af Norðurlöndum frá 1539 gert af Olaus Magnus (er nú á James Ford Bell Library, University of Minnesota).

Þau svæði sem mynda núverandi ríki Norðurlandanna hafa átt í nánum samskiptum öldum saman, oft herjað hvert á annað en einnig myndað bandalög. Einna þekktast bandalaganna er Kalmarsambandið, norrænt konungssamband sem myndað var 1397 og leystist upp 1521. Danmörk, Noregur, Ísland, Færeyjar og Grænland voru, um nokkurra alda skeið, innan sama ríkis og sama má segja um ríki sem náði um það bil yfir þau svæði þar sem nú eru Svíþjóð, Finnland og Álandseyjar. Þá hafa Noregur og Svíþjóð einnig verið hluti sama ríkis og eins hefur Skánn, syðsti hluti Svíþjóðar, lotið danskri og sænskri stjórn á víxl í aldanna rás. Veldi einstakra Norðurlandaríkja hefur einnig náð víðar á vissum skeiðum, s.s. til svæða sem nú tilheyra Eystrasaltsríkjunum, Norður-Þýskalandi, Póllandi og Rússlandi. Sjálfstjórnarsvæðin Færeyjar og Grænland tilheyra enn formlega Danmörku og Álandseyjar tilheyra Finnlandi.

Á nítjándu öld urðu gagngerar breytingar á samstarfi Norðurlanda, þar sem oft tókust á andstæðar hugmyndir: Skandinavisminn, sem vildi sameina öll löndin, og þjóðernishyggja, sem leitaði eftir auknu sjálfstæði Noregs, Íslands og Finnlands (sem þá var hluti af Rússlandi sem Stórfurstadæmið Finnland), svo nokkuð sé nefnt. Sjálfstæði Noregs, Íslands og Finnlands þegar á leið tuttugustu öldina leiddi til nýrrar stöðu í samstarfinu. Kalda stríðið og myndun Kola- og stálbandalagsins (sem síðar varð Evrópusambandið) sköpuðu nýjar forsendur og kröfur um samstarf Norðurlanda. Það leiddi til stofnunar Norðurlandaráðs 1952 og Norrænu ráðherranefndarinnar 1971. Endalok Kalda stríðsins og breytingar á alþjóðasamskiptum í kjölfar þess ásamt auknu samstarfi innan Evrópusambandsins hafa breytt forsendum pólitískrar samvinnu Norðurlanda og er enn óvíst hvert sú þróun mun leiða.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „„Saga norræns samstarfs" Norden.org“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. maí 2010. Sótt 17. febrúar 2010.