Fara í innihald

Poul Nyrup Rasmussen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Poul Nyrup Rasmussen
Poul Nyrup Rasmussen árið 2004.
Forsætisráðherra Danmerkur
Í embætti
25. janúar 1993 – 27. nóvember 2001
ÞjóðhöfðingiMargrét 2.
ForveriPoul Schlüter
EftirmaðurAnders Fogh Rasmussen
Persónulegar upplýsingar
Fæddur15. júní 1943 (1943-06-15) (81 árs)
Esbjerg, Danmörku
StjórnmálaflokkurJafnaðarmannaflokkurinn
Flokkur evrópskra sósíalista
MakiHelle Mollerup (g. 1966; skilin 1976)
Lone Dybkjær (g. 1994; d. 2020)
HáskóliKaupmannahafnarháskóli

Poul Oluf Nyrup Rasmussen (f. 15. júní 1943) er danskur stjórnmálamaður úr Jafnaðarmannaflokknum sem var forsætisráðherra Danmerkur frá 1993 til 2001.[1] Hann sat á Evrópuþinginu frá 2004 til 2009[2] og var þá kjörinn á þingið með fleiri atkvæðum en nokkur annar frambjóðandi í sögu þess.[3][4]

Frá 2004 til 2011 var Rasmussen formaður Flokks evrópskra sósíalista á Evrópuþinginu.[5]

Bakgrunnur og starfsferill[breyta | breyta frumkóða]

Poul Nyrup Rasmussen útskrifaðist með stúdentspróf frá ríkisskólanum í Esbjerg árið 1962 og með gráðu í hagfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1971.[6] Hann vann sem hagfræðingur hjá Danska alþýðusambandinu (LO) og var höfuðhagfræðingur samtakanna frá 1980 til 1986.[1] Frá 1986 til 1988 var hann framkvæmdastjóri Kreppusjóðs launþega í Danmörku.[1]

Nyrup Rasmussen var varaformaður Jafnaðarmannaflokksins frá 1987 til 1992 og formaður flokksins frá 1992 til 2002.[1] Hann sat á danska þinginu fyrir kjördæmið Ringkøbing frá 1988 til 2004. Á þinginu var hann formaður viðskiptanefndar frá 1988 til 1992.[1]

Forsætisráðherra Danmerkur (1993–2001)[breyta | breyta frumkóða]

Nyrup Rasmussen myndaði fjórar ríkisstjórnir frá 1993 til 2001.[7][8][9][10]

Þegar Svend Auken, þáverandi formanni Jafnaðarmanna, mistókst að mynda ríkisstjórn með miðjuflokkum eftir kosningar árið 1992 ákvað Nyrup Rasmussen að bjóða sig fram gegn honum í formannskosningum og vann sigur. Næsta ár sagði Poul Schlüter forsætisráðherra af sér vegna Tamílamálsins svokallaða[11] og í kjölfarið ákváðu Róttæki vinstriflokkurinn, Miðdemókratarnir og Kristilegi þjóðarflokkurinn að slíta stjórnarsamstarfi við hægriblokkina og mynda nýja stjórn með Nyrup og Jafnaðarmönnum.[11][11][12]

Stjórnarsamstarfið missti tvo af fjórum aðildarflokkunum þegar Kristilegi þjóðarflokkurinn datt út af þingi í kosningum árið 1994 og Miðdemókratar sögðu sig úr stjórninni árið 1996. Stjórnin hélt þó velli eftir kosningarnar 1994 og vann mjög nauman sigur gegn hægriblokkinni árið 1998.

Þrátt fyrir ýmsar framfarir í Danmörku á þessum tíma fékk Nyrup oft slæma útreið í fjölmiðlaumfjöllun.[12] Hann var oft uppnefndur „ullmunnur“ (danska: „uld i mund“)[13] þar sem hann þótti oft óskýr í máli.[6] Árið 1995 hjólaði Nyrup ásamt öðrum Dönum í mótmælum gegn kjarnorkutilraunum Frakka en þátttöku hans var aðallega minnst fyrir það að hann hafði allt of lítinn hjálm á höfðinu á meðan hann hjólaði.

Í kosningaherferð sinni árið 1998 lofaði Nyrup Rasmussen því að hreyfa ekki við ellilífeyri Dana[12] en gerði engu að síður breytingar á lífeyriskerfinu sama ár.[12] Á stjórnartíð Nyrups á tíunda áratugnum var Danski þjóðarflokkurinn stofnaður og byrjaði baráttu gegn aðflutningi fólks til Danmerkur. Nyrup geðjaðist lítið að framkomu þeirra og ávítaði meðlimi flokksins fyrir skort á mannasiðum á danska þinginu.

Árið 2001 báðu Jafnaðarmenn mikinn kosningaósigur[12] gegn Anders Fogh Rasmussen og Venstre eftir kosningabaráttu þar sem umræðan um innflytjendur var í fyrirrúmi.[12] Nyrup sat áfram sem formaður Jafnaðarmannaflokksins í stjórnarandstöðu og reyndi að endurnýja ímynd flokksins[12] með því að stokka upp stjórn hans og breyta nafni flokksins úr Socialdemokratiet í Socialdemokraterne.[14] Aðeins einu ári eftir kosningarnar ákvað Nyrup hins vegar að segja af sér sem flokksformaður[12] og eftirlét formannsstólinn Mogens Lykketoft.[15]

Ferill á Evrópuþinginu[breyta | breyta frumkóða]

Poul Nyrup Rasmussen var kjörinn á Evrópuþingið árið 2004.[2] Á þinginu gagnrýndi Nyrup meðal annars hegðun vogunarsjóða.[12] Árið 2009 lenti Nyrup í fimmta sæti á lista Financial News yfir 100 áhrifamestu einstaklingana á evrópskum fjármálamörkuðum.[16]

Eftir Evrópuþingkosningar árið 2009 nefndi Politiken Nyrup sem mögulegan eftirmann José Manuel Barroso sem forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.[17] Ekkert varð þó úr þessu því Barroso ákvað að gegna öðru kjörtímabili í embættinu.

Poul Nyrup Rasmussen bauð sig ekki fram til endurkjörs í Evrópuþingkosningunum árið 2009. Hann tók hins vegar þátt í ráðstefnu um málefni fólks með geðsjúkdóma sem haldin var þann 3. október 2009 í gagnfræðiskólanum í Frederiksberg.[18]

Einkahagir[breyta | breyta frumkóða]

Poul Nyrup Rasmussen er sonur verkamannsins Olufs Nyrup Rasmussen (d. 1993) og ræstikonunnar Veru Nyrup Rasmussen (d. 2004). Hann kvæntist Helle Mollerup árið 1966[19] og eignaðist með henni dótturina Signe (f. 1969), sem framdi sjálfsmorð eftir geðræn vandamál þann 20. ágúst árið 1993.[20] Nyrup skildi við Helle Mollerup árið 1976 og var í sambúð með Anne Hagendam frá 1979 til 1987.

Árið 1994 kvæntist Nyrup Lone Dybkjær, stjórnmálakonu úr Róttæka vinstriflokknum. Hjónin eiga engin börn. Lone Dybkjær átti börn úr fyrra hjónabandi. Hún lést árið 2020.

Árið 1999 var upplýst um að faðir Nyrups hafði verið skráður í Danmerkurdeild Nasistaflokksins árið 1941.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Ritverk[breyta | breyta frumkóða]

 • Poul Nyrup Rasmussen: Rødder: Erindringsbog om barndommen i Esbjerg, Lindhardt & Ringhof, 2003. ISBN 87-595-2141-4
 • Poul Nyrup Rasmussen: Den ny forbindelse – Viljen til at forandre Verden, Fremad, 2003. ISBN 87-557-2445-0
 • Poul Nyrup Rasmussen: Vokseværk: Erindringer 1963-1993, Lindhart & Ringhof, 2005. ISBN 87-595-2484-7
 • Poul Nyrup Rasmussen: I grådighedens tid – Kapitalfonde og kasinoøkonomi, Informations Forlag, 2007. ISBN 978-87-7514-162-3

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „Biografi om Poul Nyrup Rasmussen“. Folketinget. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. janúar 2017. Sótt 2. janúar 2017.
 2. 2,0 2,1 „Poul Nyrup RASMUSSEN“. Europa-Parlamentet. Sótt 2. janúar 2017.
 3. „fyens.dk, Nyrup dansk mester i personlige stemmer“. Sótt 11. juni 2019.
 4. „dr.dk, personlige stemmer messerschmidt“. Sótt 11. juni 2019.
 5. „Former PES Presidents“ (engelsk). PES website. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. oktober 2007. Sótt 21. januar 2008.
 6. 6,0 6,1 „Thomas Eske Rasmussen: Poul Nyrup Rasmussen i Den Store Danske, Gyldendal“. Sótt 11. juni 2019.
 7. „www.stm.dk“. Sótt 11. juni 2019.
 8. „www.regeringen.dk, poul-nyrup-rasmussen-ii“. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. júní 2019. Sótt 11. juni 2019.
 9. „www.regeringen.dk, poul-nyrup-rasmussen-iii“. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. júní 2019. Sótt 11. juni 2019.
 10. „www.regeringen.dk, poul-nyrup-rasmussen-iv“. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. júní 2019. Sótt 11. juni 2019.
 11. 11,0 11,1 11,2 „Søren Hein Rasmussen: Nyrup Rasmussen bliver statsminister i Gyldendals og Politikens Danmarkshistorie, Olaf Olsen (red.), 2002-2005“. Sótt 11. juni 2019.
 12. 12,0 12,1 12,2 12,3 12,4 12,5 12,6 12,7 12,8 „Johnny Laursen, danmarkshistorien.dk“. Sótt 11. juni 2019.
 13. „kristeligt-dagblad.dk, morgenstund-har-uld-i-mund“. Sótt 11. juni 2019.
 14. „politiken.dk, Socialdemokratiet-skifter-navn“. Sótt 11. juni 2019.
 15. „www.a4job.dk, lykketoft-blev-sformand-af-pligt“. Sótt 11. juni 2019.
 16. „berlingske.dk, nyrup-nr.-fem-paa-finans-hitliste“. Sótt 11. juni 2019.
 17. „www.b.dk, nyrup afviser EU kandidatur“. Sótt 11. juni 2019.
 18. Psykisk Sårbars hjemmeside Geymt 8 maí 2011 í Wayback Machine Hentet d. 24. januar 2010.
 19. Af en statsministers bekendelser
 20. „September nyheder“ (danska). 21. september 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. september 2009. Sótt 30. júní 2019.


Fyrirrennari:
Poul Schlüter
Forsætisráðherra Danmerkur
(25. janúar 199327. nóvember 2001)
Eftirmaður:
Anders Fogh Rasmussen