Fara í innihald

Poul Hartling

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Poul Hartling
Forsætisráðherra Danmerkur
Í embætti
19. desember 1973 – 13. febrúar 1975
ÞjóðhöfðingiMargrét 2.
ForveriAnker Jørgensen
EftirmaðurAnker Jørgensen
Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna
Í embætti
1. janúar 1978 – 31. desember 1985
ForveriSadruddin Aga Khan
EftirmaðurJean-Pierre Hocké
Persónulegar upplýsingar
Fæddur14. ágúst 1914
Kaupmannahöfn, Danmörku
Látinn30. apríl 2000 (85 ára) Kaupmannahöfn, Danmörku
ÞjóðerniDanskur
StjórnmálaflokkurVenstre
HáskóliKaupmannahafnarháskóli

Poul Hartling (14. ágúst 1914 – 30. apríl 2000) var danskur stjórnmálamaður úr Venstre-flokknum sem var forsætisráðherra Danmerkur frá 1973 til 1975 og framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 1978 til 1985. Hann varð riddari Dannebrogsorðunnar árið 1977.

Poul Hartling fæddist í Sundby í Kaupmannahöfn og var sonur skólastjórans Mads R. Hartling, sem var menntamálaráðherra í ríkisstjórn Knuds Kristensen frá 1945 til 1947. Poul Hartling gekk í Østrigsgade-skólann fyrstu fimm skólaárin, þar sem báðir foreldrar hans unnu sem kennarar. Hann lauk lauk cand. theol.-prófi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1939 og gerðist kennari árið 1945. Eftir að hafa unnið bæði sem prestur og kennari varð hann árið 1950 forstöðumaður og síðan rektor við kennaraskóla N. Zahle.

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Hartling var kjörinn á danska þjóðþingið fyrir Venstre-flokkinn árið 1957 en náði ekki endurkjöri árið 1960. Hann komst aftur inn á þing eftir kosningar árið 1964 og eftir að Erik Eriksen flokksformaður Venstre sagði af sér þann 24. maí 1965 var Hartling kjörinn nýr formaður stuttu síðar. Í „Svanninge-ræðunni“ svokölluðu árið 1965 biðlaði Hartling til Róttæka vinstriflokksins, sem viðhélt á þessum tíma hefðbundnu bandalagi sínu við Jafnaðarmannaflokkinn, um mögulegt samstarf þeirra við Venstre. Eftir kosningar árið 1968 gekk Venstre í stjórnarsamstarf ásamt Róttæka vinstriflokknum og Íhaldssama þjóðarflokknum þar sem Hartling var utanríkisráðherra Danmerkur í fjögur ár.

Eftir hinar svokölluðu „jarðskriðukosningar“ árið 1973 myndaði Hartling minnihlutastjórn og gerðist forsætisráðherra Danmerkur. Venstre hafði tapað 8 þingsætum í kosningunum og stjórn hans hafði minnsta þingstuðning í sögu Danmerkur. Hartling kallaði til nýrra kosninga árið 1975 og í þeim tvöfaldaði Venstre næstum þingstuðning sinn en engu að síður var það jafnaðarmaðurinn Anker Jørgensen sem myndaði næstu stjórn. Hægt hefði verið að mynda fjögurra flokka borgaralega hægristjórn eftir kosningarnar en Hartling ákvað að mynda ekki slíka stjórn þar sem hann vildi ekki þurfa að reiða sig á stuðning Framfaraflokks Mogens Glistrup.

Að loknum þingferli

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir lélega kosningu árið 1977 lauk Hartling þátttöku í dönskum stjórnmálum og gerðist framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 1978 til 1985. Sem flóttamannafulltrúi tók hann við friðarverðlaunum Nóbels fyrir hönd stofnunarinnar árið 1981.

Poul Hartling var virkur í stjórnmálum fram á háan aldur. Frá 1987 til 1987 var hann formaður dönsku Mannréttindastofnunarinnar (d. Dansk Center for Menneskerettigheder) og frá 1990 til 1995 var hann formaður lýðræðissjóðs danska utanríkisráðuneytisins (d. Udenrigsministeriets Demokratifond).

Á efri árum samdi Hartling krossgátur fyrir vikublaðið Weekendavisen.[1]

Viðurkenningar

[breyta | breyta frumkóða]

Hartling hlaut stórkross Dannebrogsorðunnar þann 13. desember árið 1977.[2][3] Hann var sæmdur stórkrossi Hinnar íslensku fálkaorðu á meðan hann var utanríkisráðherra þann 9. febrúar árið 1970.[4]

Poul Hartling er grafinn í Hørsholm-kirkjugarðinum.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Poul Hartling død“. Berlingske / Ritzau. 30. apríl 2000. Sótt 2. janúar 2020.
  2. Hof- og Statskalender 1978
  3. „Poul Hartling død, 85 år“. BT. 30. apríl 2000. Sótt 2. janúar 2020.
  4. Sjá „Hartling, Paul“ í orðuhafaskrá á heimasíðu forsetaembættisins.


Fyrirrennari:
Anker Jørgensen
Forsætisráðherra Danmerkur
(19. desember 197313. febrúar 1975)
Eftirmaður:
Anker Jørgensen