Fara í innihald

Enrico Letta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Enrico Letta
Forsætisráðherra Ítalíu
Í embætti
28. apríl 2013 – 22. febrúar 2014
ForsetiGiorgio Napolitano
ForveriMario Monti
EftirmaðurMatteo Renzi
Persónulegar upplýsingar
Fæddur20. ágúst 1966 (1966-08-20) (58 ára)
Písa, Toskana, Ítalíu
ÞjóðerniÍtalskur
StjórnmálaflokkurLýðræðisflokkurinn
MakiGianna Fregonara
Börn3
HáskóliHáskólinn í Pisa
Sant'Anna-háskólinn
Undirskrift

Enrico Letta (f. 20. ágúst 1966) er ítalskur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Ítalíu frá apríl 2013 til febrúar 2014. Hann leiddi á þeim tíma þjóðstjórn miðvinstri- og miðhægriflokka.[1] Frá mars 2021 hefur Letta verið leiðtogi ítalska Lýðræðisflokksins.[2]

Letta hóf þátttöku í stjórnmálum árið 1998 þegar hann var útnefndur samfélagsráðherra í stjórn Massimo D'Alema. Hann gegndi því embætti til ársins 1999 en varð þá iðnaðar-, verslunar- og handverkaráðherra. Árið 2001 hætti hann ráðherrastörfum eftir að hann var kjörinn á neðri deild ítalska þingsins. Frá 2006 til 2008 var hann útnefndur ritari ráðherraráðsins.[3] Árið 2007 var Letta meðal stofnmeðlima Lýðræðisflokksins og árið 2009 var hann kjörinn vararitari flokksins.[4]

Eftir að enginn flokkur vann skýran sigur í þingkosningum árið 2013 og flokksleiðtogar höfðu samið sín á milli fól Giorgio Napolitano forseti Letta að mynda þjóðstjórn Lýðræðisflokksins, hægriflokksins Þjóðar frelsisins og miðflokksins Scelta Civica til að takast á við þjóðfélagsvandamál Ítalíu í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Eftir að flokkarnir komust að samkomulagi sagði Letta af sér sem vararitari Lýðræðisflokksins og var útnefndur forsætisráðherra Ítalíu þann 28. apríl 2013.[5][6] Ríkisstjórn Letta reyndi að stuðla að efnahagsbata með því að gera fjármagnssamning við Evrópusambandið til að vinna bug á atvinnuleysi ungmenna. Letta hætti jafnframt ríkisfjármagni við stjórnmálaflokka, sem var talin tímamótaákvörðun í ítölskum stjórnmálum þar sem stjórnmálaflokkar höfðu um árabil reitt sig á fjármagn frá hinu opinbera.[7][8][9]

Í nóvember árið 2013 reyndi Silvio Berlusconi, leiðtogi Þjóðar frelsisins, að draga stuðning flokksins við stjórn Letta til baka til þess að þröngva Letta úr embætti. Allir hægrisinnaðir ráðherrar stjórnarinnar ákváðu hins vegar að segja sig úr Þjóð frelsisins og stofna nýjan flokk til að styðja áframhaldandi stjórn Letta. Þrátt fyrir að þrauka þessa atlögu gegn sér veiktist staða Letta verulega við innanflokksdeilur í desember 2013 þegar Matteo Renzi var kjörinn ritari Lýðræðisflokksins. Þann 13. febrúar árið 2014 skoraði Renzi formlega Letta á hólm um forsætisráðherræmbættið. Letta glataði fljótt stuðningi kollega sinna og sagði af sér sem forsætisráðherra þann 22. febrúar.[10]

Eftir afsögn sína hætti Letta um skeið þátttöku í stjórnmálum og gerðist skólameistari Alþjóðasamskiptaskólans við Sciences Po í París.[11] Í mars árið 2021 sagði Nicola Zingaretti, ritari Lýðræðisflokksins, af sér eftir að hafa fallið fyrir vantrauststillögu flokksforystunnar.[12] Leiðtoganefnd Lýðræðisflokksins hvatti Letta til að sækjast eftir embættinu og eftir umhugsun tilkynnti Letta að hann myndi snúa aftur til Ítalíu til að gefa kost á sér. Þann 14. mars 2021 var hann sjálfkjörinn nýr ritari flokksins af framkvæmdastjórn hans.[13][14]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Quirinale, il governo di Letta giura davanti a Napolitano, Il Fatto Quotidiano
  2. Letta eletto segretario: "Serve un nuovo Pd aperto, non partito del potere", Sky Tg24
  3. Enrico Letta, Enciclopedia Treccani
  4. Heimasíða ítalska þingsins, LETTA Enrico – PD Geymt 26 ágúst 2016 í Wayback Machine. Skoðað 15. mars 2021.
  5. Nuovo governo, incarico a Enrico Letta. Napolitano: “I media cooperino”, Il Fatto Quotidiano
  6. „Letta: Grande coalizione, bisogna farsene una ragione“. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. október 2016. Sótt 28. janúar 2019.
  7. Tre canali di finanziamento, più trasparenza. Ecco punto per punto il ddl del governo, Corriere della Sera
  8. Vertice lavoro, Letta ai ministri europei: «Non c'è più tempo, si deve agire subito Scelta sciagurata guardare solo i conti» – Il Messaggero Geymt 16 júní 2013 í Wayback Machine. Ilmessaggero.it. Skoðað 15. mars 2021.
  9. Letta: all'Italia 1,5 miliardi per il lavoro. Grillo «poteva mandare tutto in vacca», Corriere della Sera
  10. „Letta al Quirinale, si è dimesso – Top News“. Sótt 12. júlí 2016.
  11. Enrico Letta Geymt 15 janúar 2021 í Wayback Machine, Sciences Po
  12. Pd, Zingaretti si dimette. Dice addio il decimo segretario in 14 anni, Il Sole 24 Ore
  13. Letta, il giorno della scelta. Zingaretti: rilancerà il Pd, il manifesto
  14. Letta: "Non vi serve un nuovo segretario, ma un nuovo Pd", Huffington Post


Fyrirrennari:
Mario Monti
Forsætisráðherra Ítalíu
(28. apríl 201322. febrúar 2014)
Eftirmaður:
Matteo Renzi