Ekvador
Lýðveldið Ekvador | |
República del Ecuador | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Dios, patria y libertad (spænska) Guð, heimaland og frelsi | |
Þjóðsöngur: Salve, Oh Patria | |
Höfuðborg | Quito |
Opinbert tungumál | spænska |
Stjórnarfar | Lýðveldi
|
Forseti | Daniel Noboa |
Varaforseti | Verónica Abad Rojas |
Sjálfstæði | |
• frá Spáni | 24. maí 1822 |
• frá Stór-Kólumbíu | 13. maí 1830 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
73. sæti 256.370 km² 5 |
Mannfjöldi • Samtals (2021) • Þéttleiki byggðar |
66. sæti 17.715.822 67/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2019 |
• Samtals | 202,043 millj. dala (69. sæti) |
• Á mann | 11.701 dalir (141. sæti) |
VÞL (2019) | 0.759 (86. sæti) |
Gjaldmiðill | Bandaríkjadalur |
Tímabelti | UTC-5 (-6 á Galapagos) |
Þjóðarlén | .ec |
Landsnúmer | +593 |
Ekvador (spænska: Ecuador; ketsjúa: Ikwadur) er land í norðvesturhluta Suður-Ameríku, með landamæri að Kólumbíu í norðri, Perú í suðri og austri, og strönd að Kyrrahafi í vestri. Galapagoseyjar, sem eru 965 km frá ströndinni, tilheyra Ekvador. Heiti landsins er dregið af spænska orðinu yfir miðbaug, þar sem landið er á honum.
Svæðið sem nú er Ekvador var heimili ýmissa frumbyggjaþjóða sem Inkaveldið lagði smám saman undir sig á 15. öld. Spánverjar lögðu síðan Inkaveldið undir sig á 16. öld. Landið fékk sjálfstæði frá Spáni 1820 sem hluti af Stór-Kólumbíu sem það klauf sig út úr 1830.
Opinbert tungumál landsins er spænska sem 94% íbúa tala, en auk hennar eru töluð ýmis frumbyggjamál í Ekvador, þau helstu quechua og shuar. Höfuðborg Ekvador, Quito, var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1978 vegna hinnar vel varðveittu miðborgar frá nýlendutímanum. Stærsta borg landsins er hins vegar Guayaquil. Þriðja stærsta borgin, Cuenca, hefur líka verið á heimsminjaskránni frá 1999 sem vel varðveitt dæmi um spænska nýlenduborg.
Ekvador er þróunarland með efnahagslíf sem er mjög háð olíuútflutningi. Landið er flokkað sem miðtekjuland. Ekvador er lýðræðisríki með forsetaræði. Stjórnarskrá landsins frá 2008 var sú fyrsta í heimi sem gerði ráð fyrir sjálfstæðum rétti náttúrunnar. Ekvador er þekkt fyrir mikla líffræðilega fjölbreytni og er eitt af sautján löndum heims þar sem fjöldi tegunda lífvera er hlutfallslega langmestur.
Heiti
[breyta | breyta frumkóða]Heiti Ekvador er dregið af spænska orðinu yfir miðbaug, ecuador, en hann liggur þvert yfir landið um 24 km norðan við Quito.
Svæðið þar sem Ekvador er nú var undir stjórn ýmissa ríkja frumbyggja þar til Inkaveldið lagði það undir sig um 1500. Móðir síðasta Sapa inkans, Atahualpa, var Kvítói frá Quito. Francisco Pizarro lenti þar með menn sína þegar hann hóf herför sína gegn Inkunum 1531. Þá og síðar var þetta svæði kennt við borgina Quito. Svæðið var hluti af Varakonungsdæminu Perú (sem Real Audiencia de Quito) til 1720 þegar það varð hluti af Varakonungsdæminu Nýja-Granada. Lönd þessa varakonungsdæmis urðu síðan sjálfstæð sem Stór-Kólumbía milli 1819 og 1822. Landsvæði Ekvador varð syðsta hérað Stór-Kólumbíu sem upphaflega nefndist Departamento de Quito. Árið 1824 var þessu svæði skipt í fjögur héruð: Cauca, Azuay, Guayaquil og Ecuador. Þann 13. maí 1830 klufu Azuay, Guayaquil og Ecuador sig frá Stór-Kólumbíu og samþykktu nýja stjórnarskrá þar sem nafn landsins varð Ecuador.
Stjórnsýslueiningar
[breyta | breyta frumkóða]Ekvador er skipt í 24 sýslur sem hver hefur sinn höfuðstað:
Sýsla | Stærð (km²) | Íbúar (2010)[1] | Höfuðstaður | |
---|---|---|---|---|
1 | Azuay | 8.639 | 702.893 | Cuenca |
2 | Bolívar | 3.254 | 182.744 | Guaranda |
3 | Cañar | 3.908 | 223.463 | Azogues |
4 | Carchi | 3.699 | 165.659 | Tulcán |
5 | Chimborazo | 5.287 | 452.352 | Riobamba |
6 | Cotopaxi | 6.569 | 406.798 | Latacunga |
7 | El Oro | 5.988 | 588.546 | Machala |
8 | Esmeraldas | 15.216 | 520.711 | Esmeraldas |
9 | Galápagos | 8.010 | 22.770 | Puerto Baquerizo Moreno |
10 | Guayas | 17.139 | 3.573.003 | Guayaquil |
11 | Imbabura | 4.599 | 400.359 | Ibarra |
12 | Loja | 11.027 | 446.743 | Loja |
13 | Los Ríos | 6.254 | 765.274 | Babahoyo |
14 | Manabí | 18.400 | 1.345.779 | Portoviejo |
15 | Morona-Santiago | 25.690 | 147.886 | Macas |
16 | Napo | 13.271 | 104.047 | Tena |
17 | Orellana | 20.773 | 137.848 | Puerto Francisco de Orellana |
18 | Pastaza | 29.520 | 84.329 | Puyo |
19 | Pichincha | 9.494 | 2.570.201 | Quito |
20 | Santa Elena | 3.763 | 301.168 | Santa Elena |
21 | Santo Domingo de los Tsáchilas | 3.857 | 365.965 | Santo Domingo |
22 | Sucumbíos | 18.612 | 174.522 | Nueva Loja |
23 | Tungurahua | 3.334 | 500.775 | Ambato |
24 | Zamora-Chinchipe | 10.556 | 91.219 | Zamora |
Sýslurnar skiptast í 221 kantónur sem aftur skiptast í sóknir (parroquias).
Héruð og skipulagsumdæmi
[breyta | breyta frumkóða]Tvær eða fleiri sýslur mynda saman hérað sem sér um hluta stjórnsýslu á móti ríkinu. Í Ekvador eru sjö héruð af þessu tagi:
- 1. hérað (42.126 km²): Esmeraldas, Carchi, Imbabura og Sucumbios. Stjórnsýslumiðstöð: Ibarra
- 2. hérað (43.498 km²): Pichincha, Napo og Orellana. Stjórnsýslumiðstöð: Tena
- 3. hérað (44.710 km²): Chimborazo, Tungurahua, Pastaza og Cotopaxi. Stjórnsýslumiðstöð: Riobamba
- 4. hérað (22.257 km²): Manabí og Santo Domingo de los Tsachilas. Stjórnsýslumiðstöð: Ciudad Alfaro
- 5. hérað (38.420 km²): Santa Elena, Guayas, Los Ríos, Galápagos og Bolívar. Stjórnsýslumiðstöð: Milagro
- 6. hérað (38.237 km²): Cañar, Azuay og Morona Santiago. Stjórnsýslumiðstöð: Cuenca
- 7. hérað (27.571 km²): El Oro, Loja og Zamora Chinchipe. Stjórnsýslumiðstöð: Loja
Quito og Guayaquil eru borgarumdæmi. Galápagos-eyjar eru líka undir sérstakri stjórn þótt þær séu innan 5. héraðs[2][3].
Landfræði
[breyta | breyta frumkóða]Ekvador er 283.520 km2 að stærð að Galápagos-eyjum meðtöldum, þar af eru 6.720 km2 vatn. Af löndum Suður-Ameríku er Ekvador stærra en Úrúgvæ, Súrínam, Gvæjana og Franska Gvæjana.
Landið liggur milli 2°N og 5°S með 2.337 km langa strönd að Kyrrahafi í vestri. Landamærin við Kólumbíu í norðri eru 590 km að lengd og við Perú í suðri og austri eru 1.420 km. Ekvador er vestasta landið við miðbaug.
Ekvador skiptist landfræðilega í fjögur meginsvæði:
- La costa: strandhéruðin vestan við Andesfjöll ná yfir sýslurnar Esmeraldas, Guayas, Los Ríos, Manabí, El Oro og Santa Elena. Þetta er frjósamasta jarðræktarsvæði landsins. Þar eru stórar bananaplantekrur í eigu stórfyrirtækjanna Dole og Chiquita. Þar er líka stærstur hluti hrísgrjónaræktarlands Ekvador. Við ströndina er fiskvinnsla. Stærsta borgin er Guayaquil.
- La sierra: hálöndin í Andesfjöllum ná yfir sýslurnar Azuay, Cañar, Carchi, Chimborazo, Imbabura, Loja, Pichincha og Tungurahua. Þar eru flest eldfjöll Ekvador og allir snævi þaktir fjallstindar landsins. Landbúnaður felst aðallega í ræktun kartaflna, maíss og kínóa. Íbúar eru flestir frumbyggjar sem tala quechua. Stærsta borgin er Quito.
- La Amazonia: líka þekkt sem El oriente eða „austrið“, eru landsvæði austan við Andesfjöll sem eru hluti af Amasónfrumskóginum og ná yfir sýslurnar Morona Santiago, Napo, Orellana, Pastaza, Sucumbíos og Zamora-Chinchipe. Stærstur hluti landsins er hluti af Amasónþjóðgarðinum og friðlöndum frumbyggja. Íbúar eru flestir frumbyggjar af ýmsum þjóðum. Þarna eru líka stærstu olíulindir landsins sem hafa að hluta verið nýttar af olíufyrirtækjum. Stærsta borgin er líklega Lago Agrio.
- La región insular: Galápagos-eyjar í Kyrrahafi um 1.000 km vestan við strönd landsins.
Höfuðborg Ekvador er Quito í sýslunni Pichincha í hálöndunum, en stærsta borgin er Guayaquil í Guayas-sýslu. Fjallið Cotopaxi, rétt sunnan við Quito, er eitt af hæstu virku eldfjöllum heims. Fjallið Chimborazo er talið vera sá punktur á yfirborði jarðar sem er lengst frá miðju hennar vegna þess hvernig jörðin þenst út við miðbaug.
Loftslag
[breyta | breyta frumkóða]Í Ekvador er loftslag mjög fjölbreytt og ræðst fjölbreytnin aðallega af hæð yfir sjávarmáli. Loftslag er milt allt árið í dölum upp til fjalla en rakt heittemprað loftslag á strandsvæðum og í regnskógum á láglendi. Við Kyrrahafsströndina ríkir hitabeltisloftslag með miklum rigningum á regntímanum. Í hálöndunum í Andesfjöllum er loftslag temprað og tiltölulega þurrt. Í Amasónfrumskóginum austan við Andesfjöllin ríkir regnskógaloftslag.
Vegna þess hve landið er nálægt miðbaug er lítill munur á lengd daga eftir árstímum. Bæði sólarupprás og sólarlag eru um kl. 6.
Vatnafar
[breyta | breyta frumkóða]Andesfjöll mynda vatnaskil milli vatnasviðs Amasónfljóts sem rennur í austur að Atlantshafi og þeirra sem renna í vestur til Kyrrahafs.
Næstum allar árnar í Ekvador myndast við snjóbráð í Andesfjöllum eða við úrkomu í hálöndunum. Í fjöllunum eru árnar mjóar og straumharðar í bröttum hlíðunum. Þegar neðar dregur breikka þær.
Helstu ár sem renna í vestur eru Mataje, Santiago, Esmeraldas, Chone, Guayas, Jubones og Puyango-Tumbes. Flestar ár sem myndast á láglendinu vestan Andesfjalla eru árstíðabundnar og verða til á regntímanum frá desember fram í maí en þorna upp á þurrkatímanum.
Helstu ár sem renna í austur eru Pastaza, Napo og Putumayo sem allar renna í Amasónfljót. Í Pastaza er hæsti foss Ekvador, Agoyán, 61 metrar á hæð. Napo á upptök sín við Cotopaxi og er helsta áin sem notuð er til siglinga í austari láglöndunum.
Líffræðileg fjölbreytni
[breyta | breyta frumkóða]Ekvador er eitt af sautján löndum heims með langmesta líffjölbreytni samkvæmt bandarísku umhverfissamtökunum Conservation International og er auk þess það land þar sem líffjölbreytni er mest á ferkílómetra.
Í Ekvador finnast 1600 fuglategundir (15% af öllum þekktum fuglategundum heims) á fastalandinu auk 38 sem eru einlendar tegundir á Galápagos. Að auki eru þekktar 16.000 tegundir jurta, 106 einlendar tegundir skriðdýra, 138 einlendar tegundir froskdýra og 6.000 tegundir af fiðrildum. Galápagoseyjar eru vel þekktar fyrir sérstætt dýralíf og frægar sem staðurinn þar sem Charles Darwin áttaði sig á þróunarkenningunni. Eyjarnar eru á heimsminjaskrá UNESCO.
Ekvador er fyrsta land heims sem hefur samþykkt að gefa náttúrunni sjálfstæðan rétt í stjórnarskrá landsins. Varðveisla líffjölbreytni landsins er skilgreind sem forgangsverkefni í landsáætlun um velferð. Þegar áætlunin var gerð 2008 voru 19% landsins friðuð en talin er þörf á að friða 32% þess til að ná markmiðinu um varðveislu líffjölbreytni. Nú eru þar 11 þjóðgarðar, 10 friðlönd, 9 vernduð vistkerfi og önnur friðuð svæði. Verkefnið Sociobosque sem hófst 2008 greiðir landeigendum fyrir að reka hluta lands síns sem verndarsvæði.
Þrátt fyrir að Galápagos-eyjar séu á heimsminjaskrá stafar ýmis konar hætta að þeim og olíuvinnsla í Amasónfrumskóginum hefur orðið til þess að milljónir tonna af ómeðhöndlaðri olíu, gasi og úrgangsefnum hafa mengað umhverfið og valdið frumbyggjum heilsutjóni.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Censo de 2010“. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. september 2014. Sótt 13. september, 2014.
- ↑ „Niveles administrativos de planificación“. Secretaría Nacional de Planificación y Desarrollo. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. september 2015. Sótt 24. september, 2015.
- ↑ „Región 4 – Santo Domingo, Manabí y Galápagos“. Ministry of Production, Employment and Competitiveness Coordination. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. nóvember, 2011. Sótt 20. febrúar, 2012.