Ronald Coase

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ronald Harry Coase (f. 29. desember 1910; d. 2. september 2013) var hagfræðiprófessor í Chicago-háskóla, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1991 og hefur verið talinn til Chicago-hagfræðinganna svonefndu. Hann er frjálshyggjumaður og félagi í Mont Pèlerin samtökunum, alþjóðlegu málfundafélagi frjálshyggjumanna. Honum er gjarnan eignað að hafa fyrstur fjallað um viðskiptakostnað.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Coase fæddist í Lundúnum, og var faðir hans loftskeytamaður. Hann stundaði hagfræðinám í London School of Economics, þar sem einn kennari hans var Friedrich A. von Hayek. Coase kenndi í London School of Economics 1935-1940, starfaði fyrir Bretastjórn í stríðinu, en sneri aftur til kennslu 1946. Hann fluttist til Bandaríkjanna 1951 og kenndi í ýmsum háskólum, en frá 1964 í Chicago-háskóla. Þar var hann ritstjóri tímaritsins Journal of Law and Economics til 1982, er hann dró sig í hlé.

Coase er kunnur fyrir tvær hugmyndir eða tilgátur, sem hafa haft feikileg áhrif í hagfræði. Hann setti aðra fram í ritgerðinni „Eðli fyrirtækisins“ 1937. Hún er, að í frjálsum fjármagnsviðskiptum leiti markaðurinn jafnan að hagkvæmustu samsetningu fjármagnsins. Fyrirtækjum sé skipt upp eða þau sameinuð, eftir því sem hagkvæmast þyki. Með því sé viðskiptakostnaður lækkaður. Hvort á að reka útgáfufyrirtæki og prentsmiðju hvort í sínu lagi eða saman? Hvort á að reka gistihús og bílaleigu hvort í sínu lagi eða saman? Coase var með þessu að skýra, hvers vegna fyrirtæki yrðu til, en frjáls markaður fælist ekki í viðskiptum einyrkja (en þannig er honum iðulega lýst í inngangsköflum í kennslubókum í hagfræði).

Hina hugmyndina setti Coase fram í ritgerðinni „Vandinn af utanaðkomandi kostnaði“ 1960. Hún er, að utanaðkomandi kostnaður (e. social cost), sem viðskipti tveggja aðila valdi hinum þriðja, þótt hann hafi ekki tekið neinn þátt í viðskiptunum, sé alltaf til marks um, að viðskiptakostnaður hafi verið of mikill. Ella hefði hinum utanaðkomandi kostnaði verið eytt í viðskiptum. Dæmi er, þegar viðskipti neytenda og eigenda sápuverksmiðju leiða til þess, að úrgangur úr sápuverksmiðjunni er leiddur í vatn, þar sem veiði spillist fyrir hugsanlegum veiðimönnum. Coase segir, að þetta sé dæmi um, að viðskiptakostnaður verksmiðjueigendanna og veiðimannanna sé of hár, til þess að þeim takist að eyða hinum utanaðkomandi kostnaði í viðskiptum. Eitt ráð til að minnka viðskiptakostnaðinn væri að skilgreina eignarrétt á vatninu.

Helstu verk[breyta | breyta frumkóða]

  • Coase, Ronald. "The Nature of the Firm". In Economica, Vol. 4, No. 16, Nov., 1937, pp. 386-405.
  • Coase, Ronald. "The Problem of Social Cost". In Journal of Law and Economics, v. 3, no. 1, 1960, pp. 1-44.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]