Ben Bernanke
Ben Bernanke | |
---|---|
Seðlabankastjóri Bandaríkjanna | |
Í embætti 1. febrúar 2006 – 31. janúar 2014 | |
Forseti | George W. Bush Barack Obama |
Forveri | Alan Greenspan |
Eftirmaður | Janet Yellen |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 13. desember 1953 Augusta, Georgíu, Bandaríkjunum |
Stjórnmálaflokkur | Óflokksbundinn (frá 2015) Repúblikanaflokkurinn (fyrir 2015) |
Maki | Anna Friedmann |
Börn | 2 |
Háskóli | Harvard-háskóli (BA, MA) Tækniháskólinn í Massachusetts (PhD) |
Verðlaun | Nóbelsverðlaunin í hagfræði |
Undirskrift |
Ben Shalom Bernanke (f. 13. desember 1953) er bandarískur hagfræðingur af ný-keynesíska hagfræðiskólanum. Hann var seðlabankastjóri Bandaríkjanna í tvö kjörtímabil, frá árinu 2006 til ársins 2014. Bernanke hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2022.[1]
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Uppvöxtur og menntun
[breyta | breyta frumkóða]Ben Bernanke er fæddur í Augusta í Georgíu. Hann er af austurrísk-ungverskum ættum og Gyðingaættum.[2] Hann útskrifaðist úr Dillon-menntaskólanum í Suður-Karólínu árið 1971 með hæstu einkunn í sínum bekk.[3] Hann gekk í Harvard-háskóla og útskrifaðist þaðan árið 1975.
Árið 1979 útskrifaðist Bernanke með doktorsgráðu í hagfræði frá Tækniháskólanum í Massachusetts. Doktorsleiðbeinandi hans var Stanley Fischer[4] og lokaritgerð hans bar titilinn Long-term commitments, dynamic optimization, and the business cycle. Einn kennara hans var Peter Diamond, sem vann Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2010.[5]
Fræðaferill
[breyta | breyta frumkóða]Ben Bernanke fékk stöðu við Stanford-háskóla eftir að hann lauk doktorsprófi árið 1979 og kenndi þar peningamálafræði til ársins 1985. Það ár hlaut hann prófessorsstöðu við Princeton-háskóla og var forseti hagfræðideildar skólans frá 1996 til 2002.
Við upphaf ferils síns kenndi Bernanke áfanga við London School of Economics og var gestaprófessor við New York-háskóla.
Þann 10. október 2022 hlaut Bernanke Hagfræðiverðlaun seðlabanka Svíþjóðar til minningar Alfreds Nobels ásamt Douglas Diamond og Philip Dybvig fyrir rannsóknir um bankakerfi og fjármálakreppur.[6]
Starfsferill
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2002 var Bernanke útnefnur í sæti í framkvæmdastjórn Seðlabanka Bandaríkjanna. Hann var í kjölfarið útnefndur formaður Hagfræðingaráðs Bandaríkjaforseta. Þann 24. október 2005 útnefndi George W. Bush forseti Ben Bernanke stjórnarformann Seðlabankans. Bernanke var endurútnefndur í þetta embætti af Barack Obama forseta til fjögurra ára í viðbót 25. ágúst 2009.[7] Bernanke gegndi embættinu til 31. janúar 2014 en þá tók Janet Yellen við af honum.
Þann 16. desember árið 2009 lýsti tímaritið Time Bernanke mann ársins[8] fyrir að hafa, samkvæmt tímaritinu, bjargað Bandaríkjunum frá efnahagslegu stórslysi með efnahagsstjórn sinni í alþjóðlegu fjármálakreppunni 2008. Hann var jafnframt talinn áttunda voldugasta manneskja í heimi af tímaritinu Forbes árið 2011.[9]
Bernanke er talið til tekna að hafa komið í veg fyrir að samdrátturinn yrði að allsherjar efnahagskreppu með innspýtingu milljarða Bandaríkjadala í efnahagslífið og með því að hjálpa lánamarkaðinum að jafna sig á „eiturlánum“ sem höfðu stuðlað að samdrættinum.[10] Stefna Bernanke í peningalegri slökun leiddi til þess að efnahagsreikningur Seðlabankans styrktist úr 800 milljörðum upp í 4.000 milljarða.
Eftir að Bernanke lét af störfum hjá seðlabankanum varð hann heiðursfélagi hjá Brookings-stofnuninni, hugveitu í Washington. Hann flutti erindi á vegum hennar og hóf að taka saman endurminningar sínar.[11] Árið 2015 gekk hann til liðs við vogunarsjóðinn Citadel Investment Group.[12] Hann gekk jafnframt til liðs við ráðgjafaráð sjóðstýringarfélagsins PIMCO.[13]
Bernanke var jafnframt framkvæmdastjóri í peningastefnuáætlun efnahagsrannsóknastofnunarinnar National Bureau of Economic Research og ritstjóri American Economic Review.[14]
Framlög
[breyta | breyta frumkóða]Miðlunarleiðir peningastefnunnar
[breyta | breyta frumkóða]Bernanke er þekktur fyrir störf sín á sviði þjóðhagfræði. Helstu verk hans fjalla um peningastefnu og nánar tiltekið um miðlunarleiðir peningastefnunnar. Í verki sem hann birti árið 1992 ásamt Alan Blinder færði hann rök fyrir því að lánstraust skipti meira máli en peningaframleiðsla á sama tímabili.
Efnahagskreppur
[breyta | breyta frumkóða]Bernanke hefur stundað rannsóknir í efnahagssögu og hefur birt fræðigreinar um efnahagskreppur, sér í lagi kreppuna miklu.
Hið mikla stöðugleikatímabil
[breyta | breyta frumkóða]Ben Bernanke lék lykilhlutverk í þróun hagfræðikenningarinnar um „hið mikla stöðugleikatímabil“ (e. Great Moderation). Samkvæmt kenningunni dró úr afli efnahagssveiflna frá því á tíunda áratugnum vegna fullkomnunar á opinberri stefnu og peningamálastefnu.[15]
Skoðanir
[breyta | breyta frumkóða]Þjóðhagfræðilegt ójafnvægi í Evrópu
[breyta | breyta frumkóða]Bernanke telur að fjárhagshalli ríkjanna á evrusvæðinu sé að eyðileggja þau: „Viðvarandi ójafnvægi er óhollt vegna þess að það leiðir til fjárhagslegs ójafvægis og ójafns vaxtar.“ Hann telur jákvæðan vöruskiptaafgang Þýskalands vera vandamál því hann beini eftirspurn til nágrannaríkja þess og leiði til lækkunar í framleiðslu og atvinnutíðni utan Þýskalands.[16]
Viðbrögð Seðlabankans árið 2007
[breyta | breyta frumkóða]Í endurminningum sínum viðurkenndi Bernanke að upphaf alþjóðlegu fjármálakreppunnar árið 2007 hafi komið sér á óvart og að hann hefði ekki gert sér grein fyrir alvarleika stöðunnar.[17]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Önundur Páll Ragnarsson (16. nóvember 2022). „Nóbelsverðlaun í hagfræði veitt fyrir rannsóknir á fjármálastöðugleika“. Seðlabanki Íslands. Sótt 27. september 2023.
- ↑ „Chairman Ben S. Bernanke At the presentation of the Order of the Palmetto, Dillon, South Carolina“ (enska). Seðlabanki Bandaríkjanna. 1. september 2006. Sótt 27. september 2023.
- ↑ Wessel, David (2009), In Fed We Trust: Ben Bernanke's War on the Great Panic, New York: Crown Business, bls. 70.
- ↑ Thèse de Ben Bernanke
- ↑ „Le prix Nobel d'économie récompense les théoriciens du marché du travail“ (franska). Le Monde. 11. október 2010. Sótt 27. september 2023.
- ↑ „Bernanke deilir Nóbelsverðlaunum í hagfræði“. Viðskiptablaðið. 10. október 2022. Sótt 27. september 2023.
- ↑ „Ben Bernanke skipaður seðlabankastjóri Bandaríkjanna“. Vísir. 25. ágúst 2009. Sótt 27. september 2023.
- ↑ „Ben Bernanke - Person of the Year 2009“. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. desember 2009. Sótt 27. september 2023.
- ↑ „World's Most Powerful People“ (enska). Forbes. 4. nóvember novembre 2011. Sótt 27. september 2023.
- ↑ Pierre-Yves Dugua, „Ben Bernanke, la banque centrale qui a ouvert en grand les vannes de la FED“, Le Figaro, 19. desember 2014, encart « Économie », jeudi 19 décembre 2013, page 24.
- ↑ „La nouvelle vie de l'ex-président de la Fed“, Le Figaro, 27. febrúar 2014, bls. 35.
- ↑ Magnús Halldórsson (16. apríl 2015). „Ben Bernanke til liðs við vogunarsjóð“. Kjarninn. Sótt 28. september 2023.
- ↑ „Þungavigtarmenn í ráðgjafaráð PIMCO“. Viðskiptablaðið. 8. desember 2015. Sótt 28. september 2023.
- ↑ American Economic Review
- ↑ Stéphane Dees (16. janúar 2019). „Macroéconomie financière“ (franska). Dunod. Sótt 27. september 2023.
- ↑ Ben S. Bernanke (-001-11-30T00:00:00+00:00). „Germany's trade surplus is a problem“ (bandarísk enska). Brookings. Sótt 27. september 2023.
- ↑ Fed : les confessions de Ben Bernanke, 5. október 2015