Fara í innihald

Arthur Cecil Pigou

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Arthur Pigou)
Arthur Cecil Pigou

Arthur Cecil Pigou (fæddur 18. nóvember 1877, dáinn 7. mars 1959) var breskur klassískur hagfræðingur og kennari við Cambridge-háskóla. Sem kennari við Cambridge-háskóla á tímabili þegar hagfræði var ung fræðigrein átti Pigou þátt í að móta kennslu greinarinnar og fjöldann allan af ungum afburðarnemendum sem útskrifuðust úr skólanum og tóku að sér mikilvæg störf í samfélaginu. Pigou var best þekktur fyrir framlög hans til velferðarhagfræði eftir að hann gaf út bókina Hagfræði Velferðarinnar (e.The Economics of Welfare) árið 1920. Í því riti þróaði hann hugmyndina um úthrif (e. Externalities). Pigou beitti hagfræðilegri greiningu sinni á fjölda annarra vandamála, þar á meðal tollstefnu, atvinnuleysi og ríkisfjármál.[1]

Pigou fæddist í bænum Ryde á Wighteyju, sonur hermannsins Clarence Pigou og Noru Lees, dóttur John Lees, þriðja baróns af Blackrock. Arthur gekk í Harrow-skólann, nálægt London. Árið 1896 gekk hann í King's College í Cambridge þar sem hann nam undir Oscar Browning. Pigou var góður nemandi og vann fjölda verðlauna, m.a. Chancellor's Gold Medal fyrir ljóðlist árið 1899 og hann varð forseti málfundafélagsins Cambridge Union Society árið 1900. Fljótlega kviknaði áhugi Pigous á hagfræði og hóf hann nám hjá brautryðjanda hagfræðinnar, Alfred Marshall.[2]

Pigou var talsmaður réttlætis alla sína ævi. Pigou hafði sterka trú á því að hinir fátæku ættu að teljast jafnir að verðmæti og getu hinna ríku. Á stríðsárunum 1914 til 1918 hafði þessi kraftmikla samviska mikil áhrif á hann. 36 ára að aldri keyrði hann sjúkrabíl á víglínum stríðsins, og tók að sér verkefni sem voru sérstaklega hættuleg. Hann mótmælti alla tíð herþjónustu sem fól í sér að taka líf annara.[3] Upp úr 1920 færði Pigou áherslur sínar frá opinberum málum til að helga sig Cambridge-háskola að fullu og tileinkaði sér smám saman einangraðan lífsstíl. Hann var mjög ákafur lesandi og las allt sem tengdist hagfræði og einnig leynilögreglu sögum.[3] Pigou átti fáa vini, sem voru aðallega valdir vegna sameiginlegs áhuga á fjöllum og fjallaklifri. Ástríða hans fyrir klifri leiddi til hjartasjúkdóms í upphafi þriðja áratugarins sem hafði töluverð áhrif á heilsu hans og orku, sem sást vel í skrifum hans og fyrirlestrum þar sem hann var ekki eins kraftmikill og áður.[3]

Fræðistörf

[breyta | breyta frumkóða]

Pigou hóf að kenna hagfræði árið 1901 og ári seinna var hann innvígður sem meðlimur við King's College (e. Fellow of King's College) eftir að hafa verið hafnað tveimur árum fyrr. Árið 1908 var Pigou gerður að prófessor í pólitískri hagfræði, og tók hann við stöðunni af Alfred Marshall, og hélt henni allt til ársins 1943. Pigou var góður vinur John Maynard Keynes, sem á þeim tíma var ungur nemi, og gerði Pigou vel við hann og veitti honum fjárstuðning til rannsókna.[4]

Framlög til hagfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Velferðarhagfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Bókin Auður og velferð (e. Wealth and Welfare, 1912, 1920) er eitt af helstu verkum Pigous en þar gerir hann greinarmun á opinberum og einka jaðarkostnaði og framleiðslu. Þaðan er hugmyndin um að ríkið geti leiðrétt markaðsbresti með sköttum og niðurgreiðslum (stundum nefndir Pigou-skattar). Úthrif geta vera bæði jákvæð og neikvæð. Hann hélt því fram að ef markaðsaðili sé að framleiða neikvæð úthrif, t.d. mengun, væri sá aðili að stunda of mikla starfsemi í því sem olli menguninni. Lausn hans við þessu vandamáli voru skattar til þess að draga úr starfseminni. Pigou hélt því fram að neikvæð úthrif komi í veg fyrir að markaður nái jafnvægi þar sem framleiðendurnir bera ekki allan kostnað, heldur eru úthrifin kostnaður sem almenningur ber. Svo lengi sem Pigouvian-skattar séu almennilega innleiddir munu þeir hafa jákvæð áhrif á velferð samfélagsins.[5] Á hinn endan laggði hann það fram að hægt væri að tækla jákvæð úthrif, sem með niðurgreiðslum (Pigou-niðurgreiðslur). Dæmi um jákvæð úthrif er t.d. menntun og bólusetningar. Aðili sem er vel menntaður hefur jákvæð áhrif á hann sjálfan og samfélagið í heild sinni og bólusetning eins minnkar líkur á því að aðrir, jafnvel óbólusettir, smitist og það er jákvætt fyrir þá.[6][7] Niðurgreiðslurnar hafa það hlutverk að ýta undir þá framleiðslu og neyslu sem hafa jákvæð áhrif á velferð samfélags.[8] Niðurgreiðsla er oft auðveldasta og hagkvæmasta leiðin til að koma frjálsum markaði í skilvirkt jafnvægi.[9]

Vinnumarkaðshagfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Minna þekktur þáttur í verkum Pigous voru framlög hans til vinnumarkaðshagfræði og hans hugmyndir um hvernig ætti að leysa atvinnuleysi. Í bókinni hans Kenningin um Atvinnuleysi (e. The Theory of Unemployment) sem var gefin út árið 1933 á hápunkti heimskreppunar fjallar hann ítarlega um þá þætti sem stuðla að atvinnuleysi, t.d. torbreytanleg laun (e. sticky wages), launatregðu (e. wage rigidity), almenna kjarasamninga og mannauð.[10] Leitaratvinnuleysi var vel þekkt á tíma Pigous sem er þegar fólk vill ekki vinna fyrir þau markaðslaun sem eru í boði. Pigou rökfærði að það er til þvingað atvinnuleysi (e. involuntary unemployment) sem kemur til vegna minnkunar á eftirspurn vinnuveitanda eftir vinnuafli, þá sérstaklega konur og fyrrum hermenn. Pigou laggði það til að niðurgreiðslur á vegum ríkisins gætu hjálpað til við að leysa þann vanda.

Pigou-áhrif

[breyta | breyta frumkóða]

Pigou-áhrifin, sem voru hönnuð af Pigou árið 1943, er hugtak sem lýsir sambandinu milli kaupmætti neytenda, atvinnu- og neyslustigi þeirra á verðbólgu- og verðhjöðnunar tímabilum. Pigou, sem var klassískur hagfræðingur setti þessa kenningu fram í grein sinni The Classical Stationary State í Economic Journal. Þar nefndi hann að breyting í eftirspurn eftir vörum sem stafar af breytingu (lækkun) í raungildi handbærs fjár myndi leiða til hærri neyslu, og þar með vinna gegn lækkandi útgjöldum og fjárfestingum hins opinbera. Þessi áhrif myndu því hjálpa hagkerfum að ná jafnvægi á framleiðsluþáttum eftir eftirspurnarhnykk.[11]Pigou laggði mikla áherslu á það að vantaði tengingu milli handbærs fjár að raunvirði (e. real balances) og samtímaneyslu (e. current consumption) í verkinu hans John Maynard Keynes nefnt Almenn Kenning Keynes (e. The General Theory of Keynes, 1936). Pigou setur fram þessa tengingu með Pigou-áhrifunum og sýnir að hagkerfi aðlagar sig meira við breytingum í heildareftirspurn heldur en Keynes spáði fyrir.[12] Pigou-áhrifin eru þannig séð að brúa bilið á milli klassískra og keynesískra hagfræðikenniga.[11]

Pigou- og Keynesísk áhrif

[breyta | breyta frumkóða]

Keynesísku-áhrifin segja að að lækkun verðlags muni auka raunvirði peninga, sem leiðir til lækkun stýrivaxta, og þar af leiðandi aukna fjárfestingu og efnahagsumsvif. Þetta þýðir einfaldlega að lág eftirspurn og framleiðsluþættir muni leiðréttast vegna lækkun verðlags. Pigou-áhrifin hins vegar segja að fyrst að raunvirði peninga fólks sé hærri, muni fólk kaupa meira við lækkun verðlags.[11]Munurinn milli þessara áhrifa er að Keynes áhrifin leggja meiri áherslu á notkun stjórntækja seðlabanka t.d. stýrivaxtalækkanir, en Pigou-ahrifin snúast meira um bein áhrif á neytendur vegna verðhjöðnunar og neysluhegðun þeirra. Bæði áhrifin komast að sömu niðurstöðu en með mismunandi hætti, að lækkandi verðlag getur stuðlað efnahagsumsvif og hjalpað hagkerfi að minnka atvinnuleysi.[12]

Pigou-áhrifin í Japan

[breyta | breyta frumkóða]

Á 10. áratug 20. aldar hafði Japan sett stýrivextina sýna jafnt og núll til að ná tökum á viðverandi verðhjöðnun, en neytendur bjuggust við frekari lækkun í verðlagi og kusu frekar að kaupa seinna og eftirspurnin jókst ekki. Þessi þróun fer þvert á móti því sem áhrif Pigou's segja til um, að neysluhyggja neytenda hefði átt að aukast við slíkar aðstæður .[12]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Arthur Cecil Pigou | Welfare Economics, Marginal Utility & Laissez-Faire | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 6. október 2023.
  2. „HET: Arthur C. Pigou“. www.hetwebsite.net. Sótt 6. október 2023.
  3. 3,0 3,1 3,2 „Arthur Cecil Pigou | Encyclopedia.com“. www.encyclopedia.com. Sótt 6. október 2023.
  4. „John Maynard Keynes – Career Timeline“. www.maynardkeynes.org. Sótt 6. október 2023.
  5. „Pigovian Tax: Definition, Purpose, Calculation, and Examples“. Investopedia (enska). Sótt 6. október 2023.
  6. „Hvernig útskýra hagfræðingar hugtakið úthrif eða externalities?“. Vísindavefurinn. Sótt 6. október 2023.
  7. „Arthur Cecil Pigou“. Econlib (bandarísk enska). Sótt 5. október 2023.
  8. „What is a Pigouvian Tax?“. Tax Foundation (bandarísk enska). 7. júlí 2023. Sótt 6. október 2023.
  9. „Pigouvian Subsidy (Definition & Examples)“. www.dyingeconomy.com. Sótt 6. október 2023.
  10. Knight, Karen (2014). „A.C. Pigou's The Theory of Unemployment and its Corrigenda: The Letters of Maurice Allen, Arthur L. Bowley, Richard Kahn and Dennis Robertson“. Economics Discussion / Working Papers (enska). Sótt 6. október 2023.
  11. 11,0 11,1 11,2 „Pigou Effect: Definition, History and Examples“. Investopedia (enska). Sótt 3. nóvember 2023.
  12. 12,0 12,1 12,2 „Pigou Effect“. Corporate Finance Institute (bandarísk enska). Sótt 3. nóvember 2023.