George J. Stigler

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

George Joseph Stigler (17. janúar 1911 - 1. desember 1991) var bandarískur hagfræðingur, einn Chicago-hagfræðinganna svonefndu. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1982 og var einn af stofnendum Mont Pèlerin-samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálshyggjumanna, 1947.

Stigler fæddist í Seattle í Washington-ríki. Foreldrar hans voru innflytjendur frá Þýskalandi og Austurríki. Faðir hans hafði verið bruggari, en eftir að áfengisbann tók gildi í Bandaríkjunum, sneri hann sér að húsaviðgerðum. Stigler stundaði nám í Washington-háskóla, Norðvesturháskólanum (Northwestern University) og Chicago-háskóla, en þaðan lauk hann doktorsprófi í hagfræði 1938. Hann varð þar eins og fleiri nemendur fyrir miklum áhrifum frá Frank H. Knight, sem var í senn efagjarn og frjálslyndur. Stigler kenndi síðan í ýmsum háskólum, þar á meðal Minnesota, Brown og Columbia, uns hann gerðist 1958 prófessor í Chicago-háskóla. Hann var afkastamikill fræðimaður, en aðallega kunnur fyrir rannsóknir sínar á eðli og afleiðingum margvíslegra ríkisafskipta. Hann skrifaði margt um sögu hagfræðikenninga, en líka um kostnaðinn af upplýsingaöflun (e. economics of information). Stigler var kvæntur, og áttu þau hjón þrjú börn.

Ein helsta niðurstaða rannsókna Stiglers var, að hagsmunaaðilar, sem sæta opinberu eftirliti, til dæmis til tryggingar óheftri samkeppni, nái ósjaldan yfirráðum, beint eða óbeint, yfir eftirlitsstofnununum sjálfum, svo að eftirlitið þjóni ekki yfirlýstum tilgangi sínum. Þótt Stigler væri eindreginn frjálshyggjumaður og forseti Mont Pèlerin-samtakanna 1976-1978, taldi hann, að engu yrði þokað með prédikunum, heldur aðeins með vandlegum samanburði á ólíkum afleiðingum markaðsviðskipta og ríkisafskipta. Sýna yrði fram á, að ríkisafskiptin væru fáum sem engum í hag, þegar til lengdar léti. Þeir Stigler og vinur hans og starfsbróðir, Milton Friedman, rökræddu alla tíð um áhrifamátt hugmynda. Stigler hélt því fram, að hagsmunir skiptu miklu meira máli. Hann spurði: Hvort skyldi innflutningstollur á kornmeti í Bretlandi á 19. öld hafa verið lækkaður vegna þess, að valdsmenn höfðu lesið rit Adams Smiths, eða vegna þess, að neytendur kornmetis urðu öflugri hagsmunahópur en framleiðendur þess?

Helstu verk[breyta | breyta frumkóða]

  • Five Lectures on Economic Problems. 1950.
  • Essays in the History of Economics. 1965.
  • The Theory of Price, 3. útg. 1966.
  • The Organization of Industry. 1969.
  • The Citizen and the State: Essays on Regulation. 1975.
  • The Economist as Preacher, and Other Essays. 1982.
  • The Essence of Stigler, ritstj. Kurt R. Leube og Thomas G. Moore. 1986.
  • Memoirs of an Unregulated Economist. 1988.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]