George J. Stigler

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

George Joseph Stigler (f. 17. janúar 1911 í Washington, d. 1. desember 1991) var áhrifamikill og merkur bandarískur hagfræðingur þekktur fyrir kenningar sínar um kostnað af upplýsingaöflun og regluvæðingu. Stigler var í hópi Chicago-hagfræðinganna og hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1982. Einnig var hann einn af stofnendum Mont Pèlerin samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálshyggjumanna, 1947.[1]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

George J. Stigler fæddist í Renton, úthverfi í Washington. Foreldar hans voru Joseph Stigler og Elsie Elizabeth Stigler, en þau voru innflytjendur af Þýskum og Ungverskum uppruna. Faðir hans hafði verið bruggari, en eftir að áfengisbann tók gildi í Bandaríkjunum, sneri hann sér að húsaviðgerðum. Stigler átti engin systkini og var því einkabarn foreldra sinna.[2]

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Stigler gekk í skóla í Seattle og stundaði þar nám í viðskiptafræði við University of Washington og útskrifaðist þaðan árið 1931. Ári seinna lauk hann MBA námi við Northwestern University einnig í Seattle. Á þessum tímum kviknaði mikli áhugi hans fyrir hagfræði og varð hann fyrir miklum áhrifum frá þremur hagfræðingum skólans, Frank H. Knight, Jacob Viner og Henry Simons.

Leiðir Stiglers lágu til Chicago þar sem hann hóf doktorsnám í hagfræði við The University of Chicago og lauk hann doktorsprófinu þar árið 1938. Stigler fékk einnig mikinn innblástur frá tveimur samnemendum sínum í The University of Chicago, W. Allen Wallis og Milton Friedman. Í sama skóla kynntist hann eiginkonu sinni, Margaret L. Mack og giftu þau sig árið 1936, og eignuðust seinna þrjá syni.[3]

Opinber störf[breyta | breyta frumkóða]

Stigler byrjaði að kenna árið 1936 við Iowa State College og kenndi síðar við hina ýmsu háskóla, þar á meðal í Minnesota, við Brown University, Columbia University, uns hann gerðist prófessor í The University of Chicago árið 1958.[2]

Stigler var lýst sem frábærum og umburðarlyndum kennara af nemendum sínum. Hann sýndi nemendunum ávallt virðingu í kennslu og alltaf tilbúinn til að hjálpa þeim.[4]

Helstu framlög til hagfræðinnar[breyta | breyta frumkóða]

Kostnaðurinn af upplýsingaöflun[breyta | breyta frumkóða]

Stigler var afkastamikill fræðimaður, en aðallega kunnur fyrir rannsóknir sínar á eðli og afleiðingum margvíslegra ríkisafskipta. Hann skrifaði margt um sögu hagfræðikenninga, en líka um kostnaðinn af upplýsingaöflun (e. The economics of information), að þekking sé máttur og hvernig upplýsingaöflun hefur áhrif á hagkerfið.[5]

Boðskapur þessarar rannsóknar var sá að upplýsingar eru taldar vera ófullkomnar í hagkerfinu, af því að þær eru kostnaðarsamar. Þetta tiltekna framlag Stigler‘s er ein áhrifamesta hagfræðirannsókn á sjöunda áratugnum og hafði djúpstæð áhrif á hugsunarhátt hagfræðinga.[6]

Regluvæðing[breyta | breyta frumkóða]

Hann var einnig þekktur fyrir hagfræðilegu kenningar sínar um regluvæðingu (e. economic theory of regulation).[2] Kenningin um regluvæðingu fer fram á það að hagsmunaaðilar setji lög og reglur þeim til hagsbóta frekar en til hagsbóta fyrir almenning. Segir hann þá að ríkið hafi þvingunarvald í markaðsviðskiptum sem á við um inngöngu á samkeppnismarkað, ríkisstyrki og verðsetningu.

Þótt Stigler væri eindreginn frjálshyggjumaður og forseti Mont Pelerin-samtakanna 1976-1978, taldi hann, að engu yrði þokað með prédikunum, heldur aðeins með vandlegum samanburði á ólíkum afleiðingum markaðsviðskipta og ríkisafskipta. Sýna yrði fram á, að ríkisafskipti á markaði væru fáum sem engum í hag til lengri tíma og mótmælti þeirri hugmynd að eftirlit ríkisins lækki sífellt verð og komst að því að það hafði minni áhrif en mátti halda.

Þeir Stigler og vinur hans og starfsbróðir, Milton Friedman, rökræddu alla tíð um áhrifamátt hugmynda. Stigler hélt því fram, að hagsmunir skiptu miklu meira máli. Hann spurði: Hvort skyldi innflutningstollur á korni í Bretlandi á 19. öld hafa verið lækkaður vegna þess, að stjórnvöld höfðu lesið rit Adam Smiths, eða vegna þess, að neytendur korns urðu öflugri hagsmunahópur en framleiðendur þess? Þessi kenning um regluvæðingu breytti skoðunum hagfræðinga og jókst þá gagnrýni á regluvæðingu í kjölfarið.[3][7]

Lágmarkslaun[breyta | breyta frumkóða]

Stigler kom því á framfæri að á samkeppnismarkaði auka hærri laun framleiðni í hagkerfinu þó svo að það fækki störfum. Lágmarkslaun geta valdið því að minna afkastamiklu starfsfólki verði sagt upp og einnig geta lágmarkslaun haft þau áhrif að framleiðni eykst, annaðhvort vegna þess að aðrir starfsmenn vinna meira eða að tekin hefur verið upp skilvirkari tækni.[8]

Helstu verk[breyta | breyta frumkóða]

  • Five Lectures on Economic Problems. 1950.
  • Essays in the History of Economics. 1965.
  • The Theory of Price, 3. útg. 1966.
  • The Organization of Industry. 1969.
  • The Citizen and the State: Essays on Regulation. 1975.
  • The Economist as Preacher, and Other Essays. 1982.
  • The Essence of Stigler, ritstj. Kurt R. Leube og Thomas G. Moore. 1986.
  • Memoirs of an Unregulated Economist. 1988.

Verðlaun[breyta | breyta frumkóða]

Stigler hlaut verðlaunin National Medal of Science árið 1987 fyrir rit sitt um regluvæðingu og hvernig það jók skilning á iðnaði og tengslum iðnaðar við stjórnvöld. Þar að auki fyrir önnur rit sín og fyrir að vera sá sem sýndi frumkvæði á því að skoða kostnaðinn við upplýsingaöflun.[9]

Tímalína[breyta | breyta frumkóða]

1931[breyta | breyta frumkóða]

Útskrifaðist með BA í viðskiptafræði úr University of Washington.

1932[breyta | breyta frumkóða]

Lauk MBA námi við Northwestern University.

1936[breyta | breyta frumkóða]

Giftist eiginkonu sinni Margaret L. Mack.

Byrjaði að kenna við Iowa State College.

1938[breyta | breyta frumkóða]

Lauk doktorsprófi í hagfræði frá University of Chicago.

1958[breyta | breyta frumkóða]

Gerðist prófessor í The University of Chicago.

1961[breyta | breyta frumkóða]

Gaf út ritið um kostnaðinn af upplýsingaöflun.

1976-1978[breyta | breyta frumkóða]

Forseti Mont Pèlerin samtakanna.

1982[breyta | breyta frumkóða]

Hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði.

1987[breyta | breyta frumkóða]

Hlaut verðlaunin National Medal of Science.[9][10]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „George J. Stigler | Biography, Nobel Prize & Price Theory | Britannica“.
  2. 2,0 2,1 2,2 „George J. Stigler - Biographical“.
  3. 3,0 3,1 „George J. Stigler, "The theory of economic regulation" (PDF).
  4. Milton Friedman. „George Joseph Stigler 1911-1991 A Biographical Memoir“ (PDF).
  5. „Stigler, George J. (1961)“.
  6. „George Stigler's Contributions to Economics“.
  7. „From 1993: How George Stigler Changed the Analysis of Regulation“.
  8. Stigler, George J. (1946). „The Economics of Minimum Wage Legislation“. The American Economic Review. 36 (3): 358–365. ISSN 0002-8282.
  9. 9,0 9,1 „George J. Stigler“. National Science and Technology Medals Foundation (bandarísk enska). Sótt 3. nóvember 2023.
  10. „George J. Stigler“. The University of Chicago Booth School of Business (enska). Sótt 3. nóvember 2023.